Ekkert samráð hefur verið haft við kennara í háskólum og framhaldsskólum um fyrirhugað sumarnám sem kynnt var í síðustu viku. Formaður Félags háskólakennara segist engar upplýsingar hafa aðrar en þær sem komið hafi fram í fréttum og formaður Félags framhaldsskólakennara segir að þessi ákvörðun hafi komið flatt upp á sig.
Lilja Alfreðsdóttir kynnti í síðustu viku þá ákvörðun stjórnvalda að veita 800 milljónum króna til framhalds- og háskóla svo unnt yrði að bjóða námsmönnum upp á nám í sumar. Í tilkynningu á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að markmiðið sé að sporna gegn atvinnuleysi hjá ungu fólki og efla menntun. Veita á 500 milljónum í sumarnám á háskólastigi og 300 milljónum til sumarnáms í framhaldsskólunum. Námsmenn geti þannig flýtt fyrir námslokum og komið fyrr fullnuma út í atvinnulífið, eins og ráðherra kemst að orði í tilkynningunni.
Þar segir jafnframt að markhópar sumarnámsins á háskólastigi séu núverandi nemendur, framtíðarnemendur, fagaðilar, þátttakendur í sprotaverkefnum háskóla og atvinnulausir. „Þetta hefur ekkert verið rætt við okkur,“ segir Michael Dal, formaður Félags háskólakennara. „Satt best að segja kem ég alveg af fjöllum. Þessar 500 milljónir virðast benda til þess að það eigi að kenna nokkuð mörg námskeið, til þess þarf nokkuð marga kennara.“
Engin umræða hefur farið fram
Michael segir að reyndar sé ekki nýtt að háskólakennarar sinni störfum að sumarlagi, alltaf sé eitthvað um kennslu á þessum árstíma og þá sé alltaf eitthvað um að háskólakennarar taki að sér verkefni á sumrin sem tengjast lokaverkefnum nemenda. „Þegar sumarnámskeið hafa verið haldin, þá er það alltaf í samráði við kennara og þeir geta neitað því ef þeir vilja. Það þarf líka að hafa í huga að þeir eiga 30 daga lögbundinn orlofsrétt,“ segir Michael.
„Satt best að segja kem ég alveg af fjöllum“
Heldurðu að háskólakennarar séu almennt til í að sinna kennslu í sumar? „Það eru örugglega einhverjir til í það. En sú umræða hefur ekki farið fram vegna þess að þetta hefur ekkert verið kynnt fyrir okkur.“
Ekkert eðlilegt í þessu ástandi
Guðjón Hreinn Hauksson formaður Félags framhaldsskólakennara segir að ekkert samráð hafi verið haft við félagið um sumarkennslu, en hann viti til þess að skólameistarar í framhaldsskólum hafi verið hafðir með í ráðum. „Við höfum ekki tekið þetta til skoðunar ennþá vegna þess að við höfum litlar upplýsingar um hvernig þetta á vera,“ segir Guðjón. „Þetta kemur flatt upp á okkur. Auðvitað hefði verið eðlilegt að við kæmum að þessu, en það er reyndar ekkert eðlilegt í þessu ástandi sem við erum í núna vegna COVID-19.“
Ákveðin neyðarráðstöfun
Að sögn Guðjóns eru þegar til heimildir fyrir sumarkennslu á framhaldsskólastigi og hann segir að einstaka framhaldsskólar hafi boðið upp á sumarnám undanfarin ár og þá ráði kennarar sig í þau verkefni.
„Ég ætla rétt að vona að við fáum að taka þátt í áframhaldandi samtali og við munum fylgja því eftir að svo verði“
Hann segir að framhaldsskólakennarar hafi tekið á sig mikla viðbótarvinnu undanfarna mánuði með því að breyta kennslutilhögun sinni á skömmum tíma og færa alla kennslu yfir í fjarnám. Þeir hafi verið undir fordæmalausu álagi og alls óvíst um hversu margir þeirra séu tilbúnir til að kenna í sumar. „Það er eitthvað sem fólk velur sjálft. Fólk þarf að geta fengið sitt lögbundna sumarleyfi. Ef ekki, þá þurfa að koma til álagsgreiðslur og það hefur ekki verið rætt um það, að minnsta kosti ekki við okkur. Það er ráðuneytisins að taka svona ákvörðun og þetta er ákveðin neyðarráðstöfun, en ég ætla rétt að vona að við fáum að taka þátt í áframhaldandi samtali og við munum fylgja því eftir að svo verði,“ segir Guðjón.
Athugasemdir