Ég veit ekki hve margir hælisleitendur og flóttamenn eru nú staddir á Íslandi og bíða örlaga sinna með okkur hinum. Ætli það séu ekki örfá hundruð manns í mesta lagi?
Þetta fólk kemur frá mörgum löndum, úr margskonar samfélögum og ástæður þess að það hefur hrakist á brott frá heimilum sínum og vill eiga hér heima eru margvíslegar.
Stundum fátækt, stundum stríð, stundum ofsóknir, stundum allt í senn.
Þetta góða fólk kemst stundum í fréttirnar, einkum þegar um börn er að ræða, helst þegar almenningi blöskrar að þeim skuli vísað úr landi.
Í bili er engum vísað úr landi, ætla ég rétt að vona, en það væri hryggilegt að horfa upp á að strax og landið opnast aftur, þá verði aftur farið að vísa fólki burt, aftur farið að berja upp á hjá flóttamönnum að næturþeli, og keyra þá út á flugvöll.
Og aðstæðurnar - sem þeir munu lenda í í löndum þar sem kórónaveiran hefur farið um - verða enn ömurlegri en áður.
Ég ætla því að gera að tillögu minni að stjórnvöld í landinu taki nú við þessar fordæmalausu aðstæður þá fordæmalausu ákvörðun að veita einfaldlega landvist öllum flóttamönnum og hælisleitendum sem nú eru í landinu og setjast hér að og gera sér heimili með okkur.
Öllum - nema hugsanlega ef eitthvað alveg sérstakt kemur í veg fyrir það.
Það er hægt að taka slíka ákvörðun í nafni mannúðar og samkenndar með Ástu Sóllilju á jörðinni - án þess að ákvörðunin hafi fordæmisgildi við „venjulegar“ aðstæður.
Þetta er fólk sem nú hefur lent í lífshættu með okkur, og slíkum meðbræðrum okkar og -systrum eigum við ekki að vísa burt.
Þegar samfélagið vaknar á ný þá verður gott að hafa hér fleiri vinnufúsar hendur til að taka hér á honum stóra sínum með okkur.
Er eftir nokkru að bíða?
Athugasemdir