„Við ætlum að vera heima hjá okkur um páskana. Njóta tímans með fjölskyldunni. Við ætlum ekki að fara í ferðalög,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, á blaðamannafundi almannavarna í dag.
Víðir vill með þessu beina þeim tilmælum til þjóðarinnar að sleppa ferðalögum um páskana, til þess að minnka líkurnar á því að slys verði, sem geti leitt til álags á gjörgæslu. Þá vilja almannavarnir forðast álagstoppa hjá heilbrigðiskerfinu þar sem það er veikast fyrir, úti á landi.
Fram kom á fundinum að ekki yrði framfylgt þessu óformlega ferðabanni með eftirliti. Ferðafrelsið er þannig skert óformlega í forvarnarskyni.
Almannavarnir hafa ekki fyrirskipað að samningum um orlofsleigu sumarbústaða verði slitið. Hins vegar kom fram á fundinum að þeir fulltrúar orlofsleiguaðila sem hefðu haft samband við almannavarnir og spurt hvort slíta ætti leigusamningunum, hefðu verið beðnir um að gera það.
Átakið „Hlýði Víði“ hefur verið í gangi á samfélagsmiðlum, eftir að Víðir gagnrýndi fólk fyrir skaðlega hegðun á blaðamannafundi.
Víðir hvatti einnig almenning í dag til þess að dreifa búðarferðum.
„Líka að hvetja fólk til að versla snemma um páskana. Það er hætt við því, ef allir bíða með það fram á síðustu stundu, að það verði örtröð. Og eins og við vitum þá er takmarkaður fjöldi inn í hverja búð, og það mun valda því að fólk þarf þá að standa úti. Þannig að, verið tímalega að versla.“
Fram kom á blaðamannafundinum að samkomumbann yrði framlengt út aprílmánuð, en áður hafði það átt að standa fram að páskum.
1.220 staðfest smit hafa nú fundist á Íslandi og eru þar af 41 á sjúkrahúsi og 12 á gjörgæslu.
Athugasemdir