Magnús Einar Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri, segir að öllum hafi létt gríðarlega þegar að unglingsstúlkan sem grófst undir flóðinu sem féll þar í gærkvöldi fannst heil á húfi. „Ég heyrði nokkuð sem ég hef aldrei heyrt áður, tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma.“
Tvö snjóflóð féllu úr tveimur giljum upp af Flateyri á tólfta tímanum í gærkvöldi. Annað þeirra, það sem féll úr Skollahvilft sem er innar í firðinum, fór meðfram snjóflóðavarnagarði og í sjó fram með þeim afleiðingum að flóðbylgja myndaðist og reið yfir smábátahöfnina. Hvolfdi hún og sökkti sex af sjö bátum sem voru í höfninni og mara þeir þar nú í hálfu kafi. Hitt flóðið, sem féll úr ytra gilinu, Innra-Bæjargili, lenti einnig á snjóflóðavarnargarði sem beindi því frá bænum. Kraftur flóðsins var hins vegar svo mikill að það sprakk yfir snjóflóðavarnargarðinn og skall á húsi við Ólafstún þar sem fjögurra manna fjölskylda býr. Móðirin komst út úr húsin með tveimur yngri börnum sínum af eigin rammleik. Elsta dóttirin grófst hins vegar undir flóðinu í svefnherbergi sínu. Björgunarsveitarmenn komu fljótt á vettvang og fundu stúlkuna, kalda en ómeidda, eftir um 40 mínútna leit.
Aðstæður til leitar í húsinu, inni í herbergi stúlkunnar, voru mjög erfiðar. Plássið var lítið og mikill snjór. Alls konar dót, innanstokksmunir og annað, voru fyrir við moksturinn og eins þurfti að fara varlega við leitina.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafði stúlkan legið í rúmi sínu, sem feyktist til á milli veggja, og fannst hún liggjandi í fósturstellingu undir sæng sinni. Snjóflóðið var þá orðið hart eins og „steypa“, samkvæmt lýsingum.
„Snjórinn varð mjög fljótt mjög harður og það var eins mjög erfitt að koma snjó út úr herberginu. Það reyndi því talsvert á mannskapinn en sem betur fer fór þetta vel. Manni fannst þetta taka heila eilífð en í raun voru þetta um 35 til 40 mínútur frá því að við fórum inn í húsið og þar til við fundum hana,“ sagði Magnús þegar Stundin ræddi við hann á ellefta tímanum í morgun.
Tilfinningarnar gríðarlegar
Spurður hvernig tilfinningin væri þegar björgunarsveitarmenn finna manneskju sem leitað væri að í aðstæðum sem þessum segir Magnús að hann hafi ekki verið sjálfur inni í herberginu þegar stúlkan fannst því hann hafi verið að stýra aðgerðum fyrir utan. „Ég heyrði nokkuð sem ég hef aldrei heyrt áður, tíu fullorðnir karlmenn grétu á sama tíma. Tilfinningarnar eru auðvitað gríðarlegar, ekki síst í svona litlu bæjarfélagi þar sem að allir þekkja alla og ekki síður af því að við eigum okkar sögu,“ segir Magnús og vísar þar til snjóflóðsins mannskæða sem féll á Flateyri 26. október 1995, þar sem tuttugu manns létust.
„Ég trúi því ekki að ég sé kominn aftur“
Magnús sjálfur er fæddur 1989 og man því ekki mikið eftir flóðinu 1995. „Það eru bara sögurnar sem maður hefur heyrt, þetta hitti menn verr fyrir sem upplifðu flóðið þá.“ Hins vegar voru sumir reyndari björgunarsveitarmanna í Sæbjörg einnig við björgunarstörf fyrir aldarfjórðungi, þegar flóðið féll 1995. Magnús segir að minningarnar síðan þá hafi hreyft mjög við mörgum þeirra. „Eins björgunarsveitarmenn sem komu með varðskipinu frá Ísafirði í nótt, menn sögðu: Ég trúi því ekki að ég sé kominn aftur.“ Tíu björgunarsveitarmenn frá Sæbjörgu voru við störf í nótt og sautján björgunarsveitarmenn komu með varðskipinu Þór frá Ísafirði í nótt og eru fimmtán þeirra ennþá á Flateyri en tveir fóru til baka með skipinu í morgun.
Veðrið enn kolvitlaust
Magnús segir að léttirinn þegar stúlkan fannst hafi verið mikill og eins þegar ljóst var að engir aðrir höfðu slasast eða lent í flóðinu. Þorpsbúar séu engu að síður í sjokki. „Það er að koma áfallateymi með Þór og ég hef fengið nokkrar hringingar í morgun um hvort að það verði í boði, sérstaklega fyrir nemendur Lýðháskólans sem búa í sjóstangveiðihúsunum sem voru rýmd í gærkvöldi. Það var verkefnið sem við vorum að fara í í gærkvöldi þegar að við fengum fregnir af seinna flóðinu. Þá settum við það auðvitað bara í bið.“ Eftir hádegið verður opnuð fjöldahjálparmiðstöð í grunnskólanum þar sem áfallahjálp verður í boði og munu björgunarsveitarmenn veita fólki aðstoð við að komast þangað ef þörf krefur.
Flóðið lenti ekki á húsunum sem standa þarna niðri á Eyararbótinni en flóðbylgjan sem varð þegar flóðið úr Skollahvilft féll í sjó fram var gríðarleg og olli því gríðarlegum skemmdum á sex af sjö bátum Flateyringa sem voru í höfninni. Magnús segir að lögregla hafi tekið ávkörðun um að rýma umdrædd hús og auk þess tvö hús í Hafnarstræti einnig. „Það fór sjór hér yfir allt. Þó að þegar hafi fallið eitt flóð þá er alls ekki víst að svæðið sé öruggt, það er ekkert hægt að segja um hvernig snjóflekinn hefur brotnað upp enda er ekkert skyggni búið að vera. „Það er náttúrulega bara alveg kolvitlaust veður þannig að við sjáum ekki einu sinni út um glugga hjá okkur. Síðasta sem ég vissi að það væri mögulegt að það lægði eitthvað upp úr hádegi, við vonum það bara.“
Mjög mikið eignatjón eftir flóðin
Þegar Stundin ræddi við Magnús á ellefta tímanum var um það bil að hefjast stöðufundur vegna snjóflóðanna. Flateyringar muna varla eftir öðrum eins snjóþyngslum á þessari öld og hafa íbúar verið lokaðir inni vegna veðurs frá því síðastliðinn föstudag. Fréttir voru sagðar af því í byrjun vikunnar að farið væri að sneiðast um birgðir í þorpinu, brauð væri að klárast og óljóst hvenær hægt yrði að koma matvælum og öðrum vörum á svæðið. Greint var frá því í morgun að varðskipið Þór myndi koma með birgðir frá Ísafirði til Flateyrar. Magnús segir þó að ekki sé vöntun á neinu að sinni. „Við erum stödd á Gunnukaffi, sem er kaffihús hér í bænum, og þau eru búin að græja morgunmat fyrir alla björgunarsveitarmenn. Þau voru vel birg, þau sjá um mötuneytið fyrir leikskólann og grunnskólann hér í bænum.“
„Þetta eru algjörar hamfarir“
Magnús segir að nú bíði björgunarsveitin þess að veður skáni og mögulega verði þá hægt að komast í verðmætabjörgun í húsinu við Ólafstún. Önnur verkefni séu óklár en hættustig er enn á hlutum bæjarins, þar á meðal hafnarsvæðinu. Því hafi björgunarsveitarmenn ekkert komist til að kanna með bátana í höfninni. „Nei, þetta er hættusvæði þar sem þeir eru og við fórum ekkert í nótt. Svæðið er smekkfullt af snjó svo við höfðum í sjálfu sér ekki áhyggjur af því að bátarnir færu þegar byrjaði að falla út. Eftir því sem ég hef séð í morgun, milli bylja, eru bátarnir allir enn inni í höfninni. Þetta er hins vegar gríðarlegt eignatjón, án þess að ég sé neinn sérfræðingur gæti ég trúað að allir þessir bátar séu ónýtir. Flotbryggjan er bara farin, hún liggur á hvolfi í pollinum. Þetta eru algjörar hamfarir. Þetta eru hins vegar bara dauðir hlutir, eftir að stúlkan bjargaðist á lífi þá skiptir engu máli með hitt.“
Athugasemdir