Atli Már Steinarsson, dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, gekk fram á innbrotsþjóf á heimili sínu í Vesturbænum í nótt. Vill hann vara íbúa á svæðinu við ferðum hans.
„Um kl 2 í nótt heyrði ég einhver skrýtin hljóð inn úr eldhúsi, og kötturinn minn virtist hissa á þeim líka,“ skrifar Atli Már í Facebook færslu í hópi Vesturbæinga. „Þegar ég (og kisi) fór að athuga betur blasti við mér maður á hnjánum að reyna að losa gluggajárn til að opna gluggann meira og þá reyna að skríða inn.“
Atli Már segir köttinn sinn hafa verið eins og varðhund þegar þetta gerðist. „Þetta var allt frekar súrrealískt á að horfa og mitt fyrsta viðbragð var bara að smella í eitt hátt og djúpt „HEY!“ sem var nóg til að hræða hann og hann hljóp í burtu,“ segir hann.
„Ég átta mig ekki á hvernig hann ætlaði að fara að þessu en það stoppaði hann allavega ekki“
Hann grunar að þjófurinn hafi verið á rúnti um hverfið þar sem fólk er gjarnan í jólaboðum fram á kvöld eða í fríi fjarri heimili sínu um þessar mundir. Þjófurinn hafi mögulega verið að athuga hversu langt hann gæti seilst og Atli Már gerði lögreglu viðvart strax í kjölfarið.
„Eftir á að hyggja hefði ég kannski viljað ná honum á mynd eða eitthvað álíka en það sem kom mér á óvart var að það var kveikt inn í eldhúsi og að mínu mati greinilegt að það var einhver vakandi,“ skrifar Atli Már. „Svo farið extra vel yfir glugga og hurðar, þessi var bæði með gluggajárni og svona festingu sem skrúfast föst. Ég átta mig ekki á hvernig hann ætlaði að fara að þessu en það stoppaði hann allavega ekki.“
Athugasemdir