Í nýliðinni viku gengu hörð veður nærri landsmönnum. Mörgum var brugðið yfir því hve helstu innviðir samfélagsins reyndust veikir. Fleira hefur dunið á samfélaginu. Árangur íslenskra unglinga á nýjasta PISA-prófinu er í sögulegu lágmarki. Ungmennin okkar skilja ekki flókna texta. Þriðjungur stráka er nánast ólæs, stelpur auðvitað einnig, bara ekki eins margar. Eðlilega leita menn skýringa, eða giska á mögulegar ástæður, því fáar rannsóknir er við að styðjast.
Bútasaumur
Í greinaskrifum og viðtölum hafa verið nefnd ýmis úrræði. Það gæti þurft að endurskoða námsefnið, gera það áhugaverðara og nota nútímalegra orðfæri svo nemendur strandi síður vegna forneskjulegra orða. Ef til vill þarf að umskrifa námskrár þannig að kennarar sjái svart á hvítu hvaða hugtök þeir eiga að kenna í hverju fagi. Kannski væri best að listar yfir svokölluð námsorð væru aðgengilegir kennurum. Fjölga þyrfti tímum í íslensku. Jú, svo þarf að koma á starfsþróunarnámskeiðum. Klifað er á því að nemendur geti aðeins skilið lesefni þekki þeir 98% orðanna. Þetta sýna ýmsar rannsóknir um samband lesskilnings og orðaforða. Það má þó ekki taka niðurstöðum sem þessum þannig að þær eigi við um alla hugsanlega texta. Telja kennarar virkilega að nemandi geti ekki skilið 100 orða texta ef 4 til 5 orð eru framandi? Allt er þetta heldur bitakennt og ekki vænlegt til árangurs. Starfsþróun er sífellt ferli fagstétta og mega námskeið sín lítils.
Mitt í PISA-áfallinu birtist grein eftir sviðsstjóra matssviðs Menntamálastofnunar[1] þar sem hann gleðst yfir árangri íslenskra nemenda í stærðfræði og náttúrufræði og segir: „... og sjáum hvernig góð kennsla, aukin starfsþjálfun og gott námsefni ... er grunnur að góðum árangri“. Litlu verður Vöggur feginn, verð ég að segja. Staðan er slæm í náttúrufræði og stærðfræði, bara ekki eins slæm og lesskilningurinn. Við erum undir meðallagi í þessum greinum og skorum lægst Norðurlandanna á öllum sviðum. Það er skondið að lesa í sömu grein að Menntamálastofnun, sem fyrir hönd menntamálaráðherra tók að sér að styðja við framkvæmd þjóðarsáttmála um læsi 2015, hafi ekki getað stutt við nemendur í 9. bekk árið 2018 af því að „verkefnið“ fór ekki á fullt fyrr en 2018! Æ, æ. Árangur Svía árið 2012 var ámóta slakur og hjá Íslendingum. Þeir biðu ekki eftir að ástandið batnaði, heldur brettu upp ermarnar og strax á næsta prófi 2015 varð viðsnúningur og hefur árangur Svía verið á stöðugri uppleið síðan. Áður en ég skil við þessa sérstöku grein frá Menntamálastofnun þar sem lýst er alls konar prófagerð, vil ég segja eftirfarandi:
Af ástæðum sem mér eru huldar hefur Menntamálastofnun staðlað hraðlestrarpróf raddlestrar. Stofnunin kallar prófið lesfimipróf. Um er að ræða einstaklingspróf, nemandi kemur inn til kennara, sest, hann fær fyrirmæli og les upphátt í tvær mínútur. Hann er ekki spurður um efni textans, næsti nemandi kemur inn og sagan endurtekur sig. Svona er þetta þrisvar á vetri í 1.–10. bekk. Í skýrslu Menntmálastofnunar segir: Lesfimi er mæld sem rétt lesin orð á mínútu. Á milli prófa á hver nemandi að lesa daglega upphátt heima í 15–20 mínútur.
„Ég efast stórlega um gildi raddlestrar í þessu samhengi og finnst þetta vera sóun á dýrmætum mannauði í skólastarfi“
Ég gef mér að það taki hvern nemanda fimm mínútur að ganga inn í prófstofu, setjast, fá leiðbeiningar frá kennara, lesa, standa upp og ganga út. Árlega verða þetta 15 mínútur. Meðalfjöldi allra grunnskólanemenda á tíu ára tímabili frá 2009 til 2018 er 43.441 á ári. Ef nemendafjöldi er margfaldaður með 15 mínútum, kemur í ljós að 651.615 mínútum er árlega varið í þessi hraðapróf. Ef deilt er með 40 mínútum (almenn lengd kennslustunda) kemur í ljós að kennaratími sem varið er í þessi hraðapróf jafnast á við 16.290 kennslustundir. Ég efast stórlega um gildi raddlestrar í þessu samhengi og finnst þetta vera sóun á dýrmætum mannauði í skólastarfi.
Innviðir heimila og skóla
Í upphafi tók ég úr blaðagreinum af handahófi vangaveltur og tillögur til úrbóta í stöðunni. Það hvarflar ekki að mér að ungmennin skorti greind sem foreldrar og afar og ömmur bjuggu yfir. Hins vegar held ég að marga nemendur skorti úthald og seiglu og gefist upp frekar en að reyna á sig og pæla. Ég tel að forsendur fyrir frjóu skólastarfi sé fólgið í því að leggja hina einu sönnu og valdamiklu námsbók í námsgreinum til hliðar og láta skólastarfið snúast um að kenna nemendum vinnubrögð, að skipuleggja sig, að læra margvíslegar lesskilningsleiðir (s.s. gagnvirkan lestur og gerð hugtakakorta), að nemendur læri að spyrja spurninga, læri að halda samræðum gangandi. Námsbókin gæti svo orðið ein af mörgum heimildum sem nemendur leituðu fanga í. Nemendur þurfa að læra að giska á merkingu, sannreyna hana og draga ályktanir og komast að niðurstöðu. Annað sem leggur fjötra á frjótt nám er töflukennslan. Hún mætir ekki misjöfnum þörfum nemenda. Vinnubækur eru einnig til trafala frjórri hugsun. Ef nemandi getur hjálparlaust ráðið við verkefni í vinnubók þarf hann ekki á þeim að halda. Hann þarf nýja örvun og ögrun. Fjórða atriðið sem ég vil nefna er hringekjan fræga. Nemendur vinna nokkrir saman við borð, vinna að verkefnum um stund, kennari gefur merki þegar þeir eiga að færa sig á milli stöðva. Skipting á sér stað hvernig sem stendur á verkefnavinnu. Þegar allir hafa farið á allar stöðvar lýkur lotunni og annað skipulag tekur við. Fyrirkomulag af þessu tagi vinnur einnig gegn því að mæta mismunandi þörfum. Dulda námskráin segir nemendum að það sé í lagi að ljúka ekki við verkefni.
Takist kennurum að aflétta þessum heftandi hefðum, opnast þeim og nemendum meira frelsi til athafna í námi og kennslu. Steingrímur Arason (1919), sem margir minnast sem höfundar Litlu gulu hænunnar, talaði gegn hinni einu sönnu námsbók. Hann vildi ekki að börnin tækju sömu hugsunina úr sömu bókinni. En það höfum við gert í ríkum mæli í þau 100 ár sem liðin eru frá þessum hugleiðingum Steingríms. Í heila öld höfum við oft tvístigið í sama farinu í stað þess að halda áfram göngunni og stefna á ný og frjórri mið.
Það er mikið lán að eiga kærleiksríka foreldra sem vísa veginn til þroska. Fyrir utan að mæta frumþörfum barna sinna þarf að kenna þeim mörk í samskiptum, efla úthald þeirra og þrautseigju og kenna þeim að láta sig varða um hag annarra. Yfirleitt eru börn iðjusöm og athafnamiðuð. Hlúa þarf að þessum þáttum heima. Sé það gert skilar það sér í skólastarfinu. Samræða innan fjölskyldna og vinahópa barna, unglinga og ungmenna er á hröðu undanhaldi. Þessu þarf að breyta. Ef börnin læra ekki að taka þátt í samræðum – að ræða um hlutina – er ekki ólíklegt að við vermum áfram neðstu sætin á PISA-prófinu. Samræðuhefðin þarf að skapast heima og skólinn þarf að byggja námsverkefni á krefjandi spurningum sem þarf að ræða á alla kanta.
Það er hlutverk foreldra að sjá til þess að börn þeirra fái næga hvíld og komi hress að morgni í skólann. Við vitum öll að foreldrahlutverkið er mikilvægt og foreldrar oft þreyttir en undan uppeldi verður ekki vikist. Um grundvallaratriði í samskiptum og kurteisi á báða bóga verður að vera samkomulag.
Hvað er svo fram undan?
Fyrir um það bil áratug var læsi tekið út fyrir námsgreinina íslensku og flokkað sem ein af grunnstoðum menntunar. Ef börn eru illa læs þarf að leggja flest annað til hliðar í skólastarfinu og vinna hörðum höndum að læsismennt þeirra. Undan þessu verður ekki skorast. Í mínum huga er ekki til nein málamiðlun um læsi og texta. Vissulega þarf að huga að bókakosti fyrir nemendur á grunnskólaaldri. Efnið þarf að vera fjölbreytt og geta nýst sem heimildir fyrir nemendur. Misjafnar skoðanir eru á bókaflokkum fyrir yngstu nemendurna og vísa ég til umfjöllunar um þá í bókinni Hið ljúfa læsi. Endurmenntun kennara þarf að vera sífelld og framsækin. Ég mæli með því að foreldrum séu kenndar lesskilningsaðferðir svo þeir geti aðstoðað börn sín heima. Skólar ættu að stefna að því að afhenda foreldrum stofu í skólanum, foreldraver, þar sem þeir geta hist og rætt saman, hitað sér kaffi, beðið eftir börnum sínum, o.s.frv.
Í þessum öldudal sem við höfum með andvaraleysi ýtt unglingunum okkar út í er ég samt mjög bjartsýn. Það eru til svo margar uppbyggjandi leiðir í læsisnámi. Fjöldi hugmynda um læsisríkt skólastarf er settur fram í bókinni Hið ljúfa læsi sem kom út nú í haust. Bókin samanstendur af tíu köflum um læsi, þar af fjalla fjórir kaflar beinlínis um lesskilning og hvernig má kenna hann á fjölbreyttan hátt. Fjallað er um læsikennslu frá 1. bekk og upp í 10. bekk. Bókin byggir á traustum fræðum og lýsir hvernig má útfæra niðurstöður rannsókna í skólastofunni. Bókin er í tveimur hlutum, sá fyrri er prentaður en sá síðari er á minnislykli aftast í bókinni. Þar er kennaraefni og fjöldi nemendaverkefna sem prenta má út. Þar eru einnig stoðkort fyrir nemendur sem þeir geta haft til að hjálpa sér við að rifja upp og velja hentugar námsleiðir.
Enda þótt bókin Hið ljúfa læsi hafi verið samin með kennara og kennaranema í huga er ljóst að foreldrar geta haft mikið gagn af efni hennar.
Athugasemdir