Fimm ár eru liðin frá því að Wiola Ujadowska kom til Íslands til að vinna sem lærlingur á Nýlistasafninu. Upphaflega ætlaði hún að búa hér í nokkra mánuði en hér leið henni vel svo hún ákvað að setjast að í Reykjavík. Wiola er háskólamenntuð á sviði lista, í glerlist, listmálun, skúlptúragerð og nútímalist, en hún lærði bæði í Nicolaus Copernicus University í Póllandi og Cologne Institute of Conservation Sciences í Þýskalandi. Þrátt fyrir að vera mikið menntuð í listum, með BA- og meistaragráðu, hefur hún unnið hin ýmsu störf sem tengjast listinni lítið eða alls ekki hér á landi. Hún hefur meðal annars unnið með börnum, við þrif, sem leiðsögumaður fyrir pólska ferðamenn og á kaffihúsi. Samhliða þeim störfum vinnur hún að list sinni sem hún hefur sýnt víða, í heimalöndum sínum tveimur, Íslandi og Póllandi, auk Þýskalands, Portúgals og Slóvakíu.

Athugasemdir