Undanfarnar vikur var ég að stýra námskeiði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands um það sem oftast er kallað „Hvað ef“-saga en ég hef líka stundum kallað hjásögu. Það eru hugleiðingar um það sem hefði getað gerst í sögunni ef einhverjar forsendur hefðu breyst.
Til dæmis: Hvað hefði gerst ef prófdómarar við myndlistarakademíuna í Vínarborg hefðu hleypt 18 ára unglingi að nafni Hitler í gegnum inntökupróf í skólann árið 1907?
Hitler hefði þá orðið minni máttar listmálari í Austurríki og með öllu útilokað að hann hefði orðið forkólfur í nýstofnuðum Nasistaflokki í Þýskalandi 13 árum síðar.
Og þá má hugsa: Hefði síðari heimsstyrjöldin þá ekki brotist út? Það var jú yfirgangur Hitlers, þegar hann var orðinn foringi Þjóðverja, sem hleypti því stríði af stað í Evrópu. Og hefði þá engin helför átt sér stað?
Fleiri augljós dæmi: Hvernig hefði saga Evrópu orðið ef Napóleon hefði ekki haldið í feigðarför sína til Rússlands 1812? Hvað hefði orðið um Jesúa frá Nasaret ef Pílatus hefði heykst á að krossfesta hann?
Samkvæmisleikur
Hugleiðingar um hjásögu eru ekki bara samkvæmisleikur. Með því að skoða hvað hefði getað gerst aukum við og dýpkum skilning okkar á því sem gerðist í raun og veru. Og þar með erum við – eða ættum að vera – betur í stakk búin til að taka ákvarðanir þegar við stöndum sjálf frammi fyrir mikilvægum valkostum, þótt sjaldnast snúist þær í tilviki okkar hér um mögulega heimsstyrjöld.
Hin íslensku dæmi, sem ég tók á þessu námskeiði, snerust flest um það hvort óhjákvæmilegt hefði verið að saga Íslands og Íslendinga endaði með okkur hér.
Íslensku samfélagi eins og við þekkjum það í byrjun 21. aldar.
Hvað hefði gerst ef Íslendingar hefðu hafnað því að gangast undir vald Noregskonungs á ofanverðri 13. öld?
Hvað hefði gerst ef Íslendingar hefðu hafnað því að gangast undir vald Noregskonungs á ofanverðri 13. öld? Og hvernig hefði sagan orðið ef Einar Herjólfsson hefði farist á sjó á leið til Íslands árið 1402 og ekki borið hingað svarta dauða? En ef Hinrik 8. hefði fallist á að veita Danakonungi lán í byrjun 16. aldar og fallist á að taka Ísland að veði? Og hvernig hefði farið fyrir þjóðinni ef ríkjandi vindátt hefði verið önnur en hún var meðan eiturskýið stóð upp af Skaftáreldum 1783?
Forsætisráðherra
Við þessu eru mörg svör og sum óvænt. Augljósasta afleiðingin af öllum þessum breytingum er náttúrlega sú að ekkert okkar væri nú á dögum. Breytingar á lífi einstaklinga gegnum aldirnar hefðu valdið því að hér væri allt annað fólk en við.
Væntanlega svipað okkur en þó ekki við.
Á námskeiðinu náðum við ekki alla leið til nútímans, það var svo mörgu að sinna frá fyrri tímum, en eitt nærtækt dæmi sem mig langaði til að fjalla um var ríkisstjórnarmyndun 1991. Þá stóð Jóni Baldvini Hannibalssyni, formanni Alþýðuflokksins, til boða að verða forsætisráðherra í ríkisstjórn með Framsóknarflokki og Alþýðubandalagi. Hann hafnaði því af því hann treysti ekki einstökum þingmönnum þeirra flokka til að leiða til lykta aðildarumsókn að EES.
Einkavæðing
Í staðinn leiddi hann Davíð Oddsson og Sjálfstæðisflokkinn til valda.
Það fór eins og það fór.
Nú getur vel verið að ríkisstjórn Jóns Baldvins hefði ekki orðið neitt afreksverk. Það munum við aldrei vita. En það getur líka verið – og þetta geta stjórnmála- og sagnfræðingar rýnt í – að hún hefði heppnast vel og setið kannski tvö kjörtímabil. Davíð hefði gefist upp við að sitja átta ár í stjórnarandstöðu, aldrei orðið forsætisráðherra og einkavæðing bankanna hefði þá ekki farið fram með þeim hætti sem ríkisstjórn Davíðs ákvað í raunveruleikanum 2003.
Það má heita alveg öruggt.
Og það er mun líklegra en hitt að betur hefði tekist til.
Hrunið hefði ekki átt sér stað, að minnsta kosti ekki með þeim hætti sem raun varð á.
Gangstígar
Þótt auðvitað leynist í „garði gangstíga sem greinast“ (eins og Jorge Luis Borges orðaði það) möguleiki á að hrunið hefði orðið enn verra, þá er samt miklu sennilegra að það hefði orðið mildara og kannski varla átt sér stað ef stjórnmálaþróunin frá 1991 hefði orðið önnur en hún var.
Þetta snýst ekki um að spæla Davíð (eða Jón Baldvin), heldur bara skoða orsakir og afleiðingar. Davíð mun meira að segja sjálfur hafa látið einhvern tíma svo um mælt að hann hafi „sleppt lausum“ mönnum sem ollu hruninu. Öðrum muni finnast hann sjálfur eiga þar mesta sök en það er önnur saga.
Uppkastið
Þannig má leiða að því rök að ákvörðun Jóns Baldvins 1991, sem honum fannst eflaust skynsamleg, hafi reynst afar örlagarík og slæm. Á langri leið að einkavæðingu og mögulegu hruni hefði vissulega margt getað gerst, og margar breytur á leiðinni, en það má vel rekja þetta svona.
En svo eru líka dæmi um mikil hitamál sem reynast þegar upp er staðið hafa haft frekar takmarkaðar afleiðingar. Að minnsta kosti mun minni en menn héldu. Hér dugar að nefna „uppkastið“ frá 1908. Þá urðu beinlínis ofsafengnar deilur í landinu um uppkast að nýjum sambandslagasamningi sem Danir buðu fram og í eldmóði sjálfstæðisbaráttunnar voru talsmenn uppkastsins taldir óalandi landráðamenn sem vildu festa Ísland að eilífu í fjötrum Dana.
Og uppkastinu var algjörlega hafnað af stórhneykslaðri þjóð.
Icesave
Deilur um þetta urðu svo harðar að furðu má sæta eftir á en langt er síðan rök voru færð að því (nú síðast í bók Gunnars Þórs Bjarnasonar sagnfræðings, Upp með fánann) að þetta hafi verið sannkallaður fellibylur í vatnsglasi og það hefði bara verið í góðu lagi að samþykkja uppkastið.
Ísland hefði alveg ábyggilega orðið sjálfstætt með mjög svipuðum hætti og raun varð á.
Og þá skal ég hundur heita ef Icesave verður ekki litið svipuðum augum er fram líða stundir. Menn munu þá fyrir löngu hafa áttað sig á að það hefði ekki valdið neinum hörmungum þótt Icesave-samningurinn (jafnvel hinn forsmáði Svavars-samningur) hefði verið samþykktur, og menn munu furða sig á hitanum í allri umræðunni.
Nýlegt dæmi um markverðan skurðpunkt („point of departure“) í íslenskri hjásögu held ég að verði sú ákvörðun VG að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki 2017. Nú tala ég náttúrlega sem áhugamaður um stjórnmál og samfélag en ekki sem leiðbeinandi á námskeiði en staðan var þessi:
Pálminn
Katrín Jakobsdóttir var með pálmann í höndunum eftir góðan kosningasigur VG. Sjálfstæðisflokkurinn var í sárum eftir margvísleg hneykslismál (eina ferðina enn og síðan!) og það var dauðafæri til að setja hann út á kant í íslenskri pólitík. VG og Katrín hefðu þurft að sýna umtalsvert pólitískt hugrekki með að beita sér fyrir myndun fjölflokkastjórnar á miðju og vinstrivæng, og Katrín hefði þurft að sýna pólitíska hæfileika með því að sannfæra Framsóknarflokkinn um að taka þátt í því ævintýri.
Í staðinn fór Katrín með stuðningi Svandísar Svavarsdóttur og Steingríms J. sömu leið og Jón Baldvin 1991 – auðveldu leiðina í faðm Sjálfstæðisflokksins af því hann á að vera stór og sterkur og stöðugur.
Það hefði verið virkilega gaman að fylgjast með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur undanfarin tvö ár ef hún hefði haft þetta pólitíska hugrekki. Hún hefði getað nýtt sína meintu hæfileika sem mannasættir og málamiðlari til að halda ólíkum flokkum hamingjusömum meðan þeir gerðu í sameiningu langþráðar breytingar á samfélaginu án þrúgandi spilltrar nærveru Sjálfstæðisflokksins.
Hrokafyllri
En hún hafði því miður ekki það hugrekki og í staðinn leikur Sjálfstæðisflokkurinn enn lausum hala, orðinn hrokafyllri en nokkru sinni fyrr, því hann gerir sér nú grein fyrir því að jafnvel hinni meinti „höfuðandstæðingur“ hans, sem VG þóttist vera, mun ekki hrófla við honum og þeirri valdapólitík og hagsmunagæslu sem hann gengur út á.
Á námskeiðum um hjásögu eftir 50 ár eða svo er ég smeykur um að litið verði á ríkisstjórnarmyndunina 2017 sem misheppnað tækifæri til að gefa upp á nýtt í íslensku samfélagi.
Í staðinn sitjum við uppi með sömu hundana og venjulega en auðstéttin hefur öll tromp á hendi. Þökk sé VG.
Athugasemdir