so. koma sér áfram með því að setja fæturna fram fyrir sig á víxl (þó þannig að hæll fremri fótar nái niður áður en tær aftari fótar fara á loft), vera fótgangandi, fara á fæti.
Við byggjum hús úr steypu eða timbri, ferðumst um í misstórum stálhlunkum og klæðum okkur í léttar brynjur úr dúni eða ull áður en við stígum út í veðrið. Tími inniverunnar er runninn upp. En það má ekki hindra okkur í að ganga, sem er okkur lífsnauðsynlegt, eins og matur, svefn og skáldskapur.
Ef þér líður einhvern tímann illa skaltu stíga út í rokið, segir amma meðan hún saxar engifer til að setja undir ostinn á brauðið. Og þegar ég stend hér í norðanáttinni finn ég að ekkert er gegnheilt, hvorki ég né ljósastaurinn sem ég rígheld í. Rokið hreyfir við innsta kjarna, minnsta atómi. Hristir upp í öllu.
Björk skrifaði einu sinni að hún gengi úti í náttúrunni til að semja. Hún minnist þess að hafa sungið sem barn á göngu sinni í skólann í morgunmyrkrinu. Sigurður Pálsson skrifaði um að reika (no. flanerí) sem gengur út á það að týnast í fjöldanum án þess að glata tengslum við sjálfan sig. Gönguferð án fyrirheits. Að leyfa göngutúrnum að þróast svo að hið óvænta og stórkostlega í hversdagsleikanum birtist.
Sonur minn er nýbyrjaður að ganga. Með hverju skrefi uppgötvar hann eitthvað nýtt. Sjálf hef ég aldrei gengið eins mikið um hverfið mitt og eftir að ég átti hann. Við mætum öðrum foreldrum með vagna, kinkum kolli í sameiginlegum, þöglum skilningi um svefnlitlar nætur, um opna lófa.
Við göngum til að hugsa, til að hlusta, til að mæta áskorunum. Það gerist eitthvað þegar við förum út, stígum út í rokið. Við göngum með verkefni, krefjandi samtöl, lög sem við vitum ekki enn hvernig enda og hugmyndir. Göngum á hljóðið. Göngum á lyktina. Göngum og vandamálin leysast. Við stígum út og allt byrjar að hreyfast. Eitthvað gerist í hvert einasta skipti.
Athugasemdir