Á Alþingi Íslendinga situr hópur fólks sem væri í flestum tilfellum í siðuðu samfélagi búið að segja sig frá störfum vegna vanhæfis byggðu á sjúklegum kvillum eins og til dæmis græðgi og valdafíkn, auk allra þeirra spillingarmála sem sömu einstaklingar tengjast beint og óbeint.
Það gríðarstóra siðferðilega verkefni sem nú blasir við og varðar alþingismenn með einum eða öðrum hætti, er ekki við hæfi að fela þeim hinum sömu á hendur. Þeir sem skapa vandann eru tæpast hæfir til að leysa úr honum.
Stjórnarfar sem byggir á nýlendumenningu og þrælahaldi liðinna alda er augljóslega ekki góður grunnur til að byggja siðað samfélag á.
Alþingismenn, ég óska þess að þið sýnið nú fordæmi um vilja til breyttra stjórnarhátta (í heiminum) með því að segja ykkur frá störfum.
„Alþingismenn – ég óska þess að þið segið ykkur frá störfum.“
Samhliða því óska ég þess að þið biðjið namibísku þjóðina opinberlega afsökunar og endurgreiðið þá fjármuni sem arðránselítan hefur líklegast stolið þaðan – í mínu nafni sem Íslendings. (Frysting eigna Samherja og Þorsteins Más Baldvinssonar er líklegast vel við hæfi til að eiga fyrir endurgreiðslu ránsfengs og alls þess kostnaðar sem málinu fylgir.)
Þetta fjallar ekki eingöngu um LÍÚ, SFS, SA, siðspillt stjórnmálafólk og venslafólk þeirra eða það að þurfa að ræða enn einu sinni hversu siðlausir stjórnarhættir viðgangast á Íslandi. Þetta fjallar um mennsku og fátækt vegna arðráns og spillingar. Þetta fjallar um manneskjur sem góðvinir sjávarútvegsráðherra kalla „letingja“.
Alþingismenn – ég óska þess að þið segið ykkur frá störfum. Arðránssiðferðið sem hér birtist gerist á vakt ykkar allra. Harmurinn sem hér hefur afhjúpast í krafti íslensks stjórnkerfis og í siðleysinu sem þar býr, kallar á auðmýkt.
Þjóðin er fyrir löngu búin að samþykkja nýja stjórnarskrá sem hefði mögulega getað komið í veg fyrir slíka mannvonsku sem birtist í þessu máli.
Sem betur fer eigum við á Íslandi enn fólk sem ber virðingu fyrir sjálfu sér, öðru fólki og náttúruperlunni sem okkur var fengin til umsjár. Á Íslandi býr enn fólk með siðferðilegt þrek sem er betur til þess fallið að greina hvernig megi takast á við það siðferðilega hrun sem nú afhjúpast – handan græðgi og fíknar.
Um hið augljósa þarf vart að vera barátta.
Það að 1% mannfólks stýri 99% af verðmætum jarðarinnar (þ.m.t. mannauð) í krafti fjármagns er siðlaust kerfi sem byggir á siðlausu stjórnarfari mannvonskunnar.
100% siðleysi varðar okkur öll.
Við erum jafn fámenn nú þegar við arðrænum fátæka þjóð og þegar við sigrum landsleiki.
Athugasemdir