Yfir 350 íbúar í Reykjanesbæ hafa undirritað áskorun til bæjaryfirvalda þar sem þess er krafist að fallið verði frá breytingu deiliskipulags á aðalgötu bæjarins, Hafnargötunni. Breytingartillagan er nú í hefðbundnu ferli en í henni kemur fram að eigendur lóðarinnar á Hafnargötu 12 vilja rífa allt sem þar stendur til þess að byggja þriggja hæða íbúðablokk með 77 íbúðum.
Skyndibitastaðurinn Hlöllabátar er nú til húsa að Hafnargötu 12 en sömu eigendur eru að lóðinni og skyndibitastaðnum. Íbúar telja að miðbæjarmyndinni í Reykjanesbæ stafi ógn af áformunum. Eigendurnir eru þeir Helgi Guðmundsson og Sigurður H. Garðarsson.
Samkvæmt gögnum sem Stundin hefur undir höndum tengjast þeir Helgi og Sigurður, með einum eða öðrum hætti, gjaldþroti nítján fyrirtækja. Þeir hafa áður verið til umfjöllunar í fjölmiðlum vegna þessa. Fyrsta félagið fór í þrot árið 1990, en það var fyrirtækið G. Hilmars sem áður hét Ilma hf. Félagið gekk fjórum sinnum í gegnum nafnabreytingar á þeim tæpu þremur árum sem það var í rekstri. Þar sat Sigurður í stjórn ásamt eiginkonu sinni. Aðeins sex dögum eftir gjaldþrot þess fór annað félag sem Sigurður tengdist í þrot. Það var félagið Frjálst útvarp hf. Eftir því sem árin liðu fjölgaði gjaldþrotunum.
Vafasöm viðskiptasaga vekur athygli
Fyrsta gjaldþrotið sem Helgi tengdist var sumarið 2006 en þá fór félagið Jósalir ehf. á hausinn. Helgi var skráður eigandi félagsins. Á þessum tíma, árið 2006, hafði Sigurður hins vegar komið að tíu fyrirtækjum, með einum eða öðrum hætti, sem seinna voru öll úrskurðuð gjaldþrota.
Fyrsta fyrirtækið sem þeir tengdust báðir og var úrskurðað gjaldþrota var V.Þ. eignarhaldsfélag ehf., sem var úrskurðað gjaldþrota þann 18. september árið 2013. Saman áttu þeir einnig félagið Vöruþjónustan ehf., sem fór í þrot í apríl 2015. Rétt áður en kom til gjaldþrots félagsins urðu eigandaskipti á félaginu sem fékk einnig nýtt nafn. Þann 10. nóvember fór félagið Naustir Invest ehf. í þrot, en samkvæmt skráningu var Helgi endurskoðandi félagsins þar til það varð gjaldþrota.
Vafasöm viðskiptasaga þeirra félaga hefur áður vakið athygli, en sjónvarpsþátturinn Brestir á Stöð 2 og Vísir hafa fjallað um þá Helga og Sigurð, og þær aðferðir sem þeir beita til þess að losa sig undan gjaldþrota fyrirtækjum til þess að halda óflekkuðu mannorði. Þar kom meðal annars fram að þeir félagar nýta sér þjónustu þeirra sem ganga undir viðurnefninu útfararstjórar en það eru einstaklingar sem leppa einkahlutafélög sem eru á leið í þrot. Þannig hafa Helgi og Sigurður gert samninga við meðal annars dæmda kynferðisbrotamenn sem taka það að sér að skrá sig fyrir félögunum aðeins örfáum mánuðum áður en þau fara í þrot.
Síbrotamaður tekur á sig gjaldþrot
Einn þeirra er Sigurður Dalmann, sem nýverið breytti nafni sínu í Sigurður Aron Snorri Gunnarsson. Sigurður Aron hefur frá aldamótum hlotið sex refsidóma, meðal annars fyrir rán og fíkiefnalagabrot. Þá var Sigurður Aron einnig dæmdur fyrir að brjóta gegn barni með því að sýna því klámefni og hafa uppi annars konar ósiðlega heðgun gagnvart því. Árið 2013 var hann dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn unglingi sem Sigurður Aron hafði tælt með því að gefa honum áfengi, fíkniefni, tvo bíla, skó, föt, skartgripi og tvo síma.
Á aðeins tveimur árum hefur Sigurður Aron verið prókúruhafi og stjórnarmaður í átta fyrirtækjum sem hafa farið í þrot. Eitt af þessum félögum var A.S. Gunnarsson. Nýjasta gjaldþrot Sigurðar Arons varð fyrir aðeins nokkrum vikum eða 12. janúar árið 2017.
Samkvæmt upplýsingum frá ASÍ hefur íslenskt samfélag á undanförnum árum tapað mörg hundruð milljörðum króna á kennitöluflakki sem oft er sagt þjóðaríþrótt Íslendinga.
En það er ekki aðeins vafasöm viðskiptasaga þeirra félaga sem veldur áhyggjum íbúa í Reykjanesbæ heldur líka verkefnið sjálft, teikningar sem hafa verið lagðar fram og sú staðreynd að á einni lóð á að koma fyrir 77 íbúðum á þremur hæðum. Líkt og áður kom fram er lóðin á Hafnargötu 12, aðeins nokkrum metrum frá elsta hluta bæjarins sem oftast er einfaldlega kallaður „gamli bærinn“. Á meðal þeirra sem hafa gert athugsemd við þessar fyrirætlanir er Eydís Hentze Pétursdóttir en hún býr einmitt í gamla bænum, skammt frá fyrirhuguðum framkvæmdum.
Hryllir við ferlíkinu
„Það er yfirlýst markmið framkvæmdaraðila að blokkirnar verði eins ódýrar í byggingu og mögulegt er. Það sést bersýnilega á hönnuninni, þriggja hæða steypuklumpa með einhalla þaki, sem er algert stílbrot á þessu svæði þar sem byggð þróaðist að mestu frá lokum 19. aldar og fram á fjórða áratug 20. aldar,“ segir Eydís sem hryllir við hugmyndinni um þetta „ferlíki“ svo nálægt gamla bænum.
„Framkvæmdin er á svæði eða í bæjarhluta sem nýtur mikillar sérstöðu. Í gamla bænum eru, ef mig misminnir ekki, öll friðlýst mannvirki Keflavíkur. Skammsýnissjónarmið undanfarna áratugi hafa orðið til þess að harkalega hefur verið þjarmað að sögu- og menningarminjum í gamla bænum og gamla svipmótið hefur vikið fyrir fjölbýlishúsum. Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið hins vegar, sem og íbúar, unnið ötullega að því að sporna við þeirri þróun, bæði með öflugri uppbyggingu og viðhaldi svæðisins. Þá er mikilvægt að taka það fram að þetta svæði nýtur hverfisverndar en skilmálar hennar eru meðal annars þeir að ný mannvirki skuli styðja við það svipmót sem fyrir er. Það gerðu framkvæmdaraðilarnir ekki.“
Þetta segir Eydís vera haldbær rök og þá sé ekki einu sinni verið að taka allt inn í myndina eins og til dæmis bílastæðaskort sem yrði viðvarandi vandamál ef af framkvæmdinni yrði. Hún segir gert ráð fyrir um það bil 0,7 bílastæðum fyrir hverja af þeim 77 íbúðum.
Miklar menningarminjar í gamla bænum
„En inn í þessar staðreyndir blandast að sjálfsögðu tilfinningar. Hérna í gamla bænum eru hús sem hafa ekki bara númer, heldur nöfn. Strít, Stapakot, Efri Náströnd, húsið hans Gauja, Sjóbúð, Klampenborg, Læknishúsið, Fischershús, Gamla búð, Eldhúsið, Pakkhúsið, Litlibær, Þorvarðarhús, Möllershús og svo mætti lengi telja. Íbúar í gamla bænum eru vel meðvitaðir um söguna og að þeim beri að viðhalda heimilum sínum sem menningarminjum og það gerum við líka með stolti. Ég þori að fullyrða að sá staðblær sem hér er í hverfinu er vandfundinn í stærri bæjum landsins. Hér búa ættliðir nánast hlið við hlið. Á laugardagskvöldum má oft sjá nágranna rölta milli húsa með vínglas í hendi. Við hittumst yfir kaffibollum, sláum upp tónleikum í heimahúsum á Ljósanótt, yljum okkar saman við eldstæði og grípum í gítar á sumarkvöldum í stillunni sem oftast er alger, bjóðum nágrönnum okkar í mat og grill og eldri börnin passa þau yngri. Við hjálpumst að í framkvæmdum og viðhaldi húsanna, hlaupum á milli húsa með sláttuvélar, skóflur, hefla eða hvað það nú er sem einhvern vantar. Við heilsumst, við spjöllum, við skipuleggjum saman, hlæjum saman og erum auðmjúk gagnvart hlutverki okkar sem húseigendur og íbúar á sögulegu svæði,“ segir Eydís.
Umrædd tillaga er aðgengileg á heimasíðu Reykjanesbæjar en hún er einnig til sýnis á skrifstofu bæjarfélagsins ásamt fylgigögnum til 2. febrúar. Íbúum var gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna og rennur sá frestur út 2. febrúar. Eftir því sem Stundin kemst næst er um að ræða eina umdeildustu breytingu á deiliskipulagi innan bæjarfélagsins í mörg ár.
Athugasemdir