Stundin.is var valinn vefmiðill ársins á Íslensku vefverðlaununum 2015, sem afhend voru á föstudagskvöld við hátíðlega athöfn.
Í rökstuðningi dómnefndar kom fram að vefmiðilinn hefði haft áhrif á aðra vefmiðla og þjóðfélagsumræðu:
„Sá vefur sem varð fyrir valinu sem besti vefmiðillinn kom fram á sjónarsviðið með ferskum blæ og hefur haft mikil áhrif á aðra vefmiðla og þjóðfélagsumræðu. Efnið er fjölbreytt og forvitnilegt og sett fram á læsilegan hátt. Uppsetningin og notkun á „responsive“-veftækni er vel hugsuð og útfærslan er áhugaverð. Uppbygging og flæði á vefmiðlinum er gott og skipulag hans skýrt. Þessir eiginleikar gera það að verkum að vefmiðillinn er auðlesinn og mjög þægilegur í notkun.“
Íslensku vefverðlaunin hafa verið haldin árlega frá árinu 2000 og er markmið þeirra að „verðlauna þá sem vinna góða vinnu innan vefiðnaðarins og upphefja þau góðu verkefni sem eru unnin“.
Besti íslenski vefurinn í öllum flokkum var valinn miðasöluvefurinn tix.is.
Verðlaunahafar í öllum flokkum
- Aðengilegasti vefurinn: Öryrkjabandalag Íslands
- Vefmiðill: Stundin
- Non-profit vefur: Bréf til bjargar lífi, Amnesty á Íslandi
- Opinber vefur: Ísland.is
- App / Vefapp: Quizup.com
- Markaðsherferð á netinu: Innrifegurd.bluelagoon.is
- Þjónustusvæði starfsmanna: Flugan-innri vefur Isavia og dótturfélaga
- Þjónustusvæði viðskiptavina: Netbanki Landsbankans
- Einstaklingsvefur: Ólafur Arnalds
- Fyrirtækjavefur - lítil og meðalstór fyrirtæki: Tix miðasala
- Fyrirtækjavefur - stærri fyrirtæki: Meniga
- Val fólksins: Nordic Visistor
- Frumlegasti vefurinn: Ljósleiðarinn
- Besta hönnun og viðmót: VÍS
- Besti íslenski vefurinn: Tix
Athugasemdir