Frá og með nóvembermánuði mun prentútgáfa Stundarinnar koma út tvisvar í mánuði í stað einu sinni. Ákvörðun um aukna útgáfutíðni tekur mið af spurningakönnun meðal áskrifenda sem send var með tölvupósti í lok október. Um 1.500 áskrifendur svöruðu könnuninni og töldu 86 prósent svarenda að hæfilegt væri að útgáfudögum Stundarinnar yrði fjölgað.
Stundin heldur enn úti daglegum fréttaflutningi á fréttavef Stundarinnar, sem er að hluta lokaður öðrum en áskrifendum.
Samhliða tvöföldun útgáfudaga hækkar verð á prentáskrift, sem innifelur vefáskrift, úr 950 kr. í 1.350 kr. á mánuði. Þá fer vefáskrift úr 750 kr. í 950 kr. á mánuði.
Einnig kom fram í áskrifendakönnuninni að rúmlega 90 prósent svarenda kváðu líklegt að þeir myndu mæla með Stundinni við ættingja eða vini. Um 80 prósent svarenda töldu að Stundin væri betri en meðaltölublað annarra prentmiðla, en 15 prósent að þau væru svipuð.
Þegar nánar var spurt út í ánægju eða óánægju með efni blaðsins sögðust 94 prósent svarenda telja að vel tækist til með rannsóknarblaðamennsku í Stundinni.
Þegar opinna spurninga var spurt um hvaða efni viðkomandi þætti áhugaverðast voru svörin fjölbreytileg. „Mér finnast rannsóknargreinarnar alltaf áhugaverðastar. Og pistlarnir,“ sagði einn svarandi. „Mikilvægt að halda málum sem varða hagsmuni almennings á lofti, að mikilvæg málefni verði ekki svæfð. Haldið vöku ykkar og verið umfram allt málefnaleg og rökvís,“ sagði annar áskrifandi.
„Blaðið er gott í heildina, mætti skipta því í tvö blöð, þá hálfsmánaðarlega. Þetta er svo mikið efni, takk,“ sagði enn annar.
Margar gagnlegar ábendingar, gagnrýni sem hvatningar, bárust í opnum spurningum í könnuninni sem verða nýttar af ritstjórn til áframhaldandi þróunar á prent- og vefútgáfu Stundarinnar. „Þið eruð mikið með neikvæðar fréttir og prentaða útgáfan er mjög stór þannig að maður skoðar aldrei allt blaðið,“ kom fram í máli eins. „Haldið áfram á þessari braut það eru ekki margir óháðir fréttamiðlar á Íslandi í dag,“ sagði annar. „Haldið áfram gagnrýninni umræðu um spillingu og valdhroka,“ sagði sá þriðji. Og enn annar: „Ef þið hættið að verða óháður miðill segi ég áskriftinni upp á stundinni :)“
Ritstjórn Stundarinnar þakkar gagnleg svör í spurningakönnun til áskrifenda. Könnunin verður endurtekin á næstu misserum til hliðsjónar við gæðastjórnun og framþróun miðilsins.
Athugasemdir