Stjórnmálaflokkur sem hafði á stefnuskránni að hækka lágmarkslaun, auðlindagjaldog skatt á fyrirtæki vann sögulegan stórsigur í kosningum í Kanada í fyrradag.
Úrslitin hafa valdið ugg meðal samtaka atvinnurekenda, en vekja fögnuð meðal verkalýðshreyfingarinnar.
Framsóknar- og íhaldsflokkur við völd í 44 ár
Um var að ræða kosningar til ríkisþingsins í Alberta-ríki í Kanada. Með kosningunum lauk 44 ára samfelldri valdatíð Framsóknar- og íhaldsflokksins (Progressive Conservative Party) í ríkinu. Framsóknar- og íhaldsflokkurinn galt afhroð, en Nýi lýðræðisflokkurinn (New Democratic Party), vann stórsigur og hlaut 53 þingsæti af 87. Í síðustu kosningum fékk flokkurinn aðeins fjögur þingsæti.
„Þeir kusu ekki bara nýtt andlit, heldur nýja nálgun“
Nýi lýðræðisflokkurinn hafði á stefnuskránni að hækka lágmarkslaun í ríkinu úr 1.100 krónum á tímann í rúmlega 1.600 krónur á tímann.
„Við munum sjá breytingar á skattastefnunni, við munum sjá breytingar á stefnu sem varðar lágmarkslaun og málefnin sem tengjast auðlindarentu og orkugeirann. Þetta er ekkert til að óttast. Við eigum að fagna þessu, enda er þetta einmitt það sem íbúar í Alberta kusu. Þeir kusu ekki bara nýtt andlit, heldur nýja nálgun,“ sagði Gil McGowan, forseti Verkalýðssamtaka Alberta í samtali við Globe and Mail.
Athugasemdir