Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var þingkona Sjálfstæðisflokksins í 14 ár, gegndi varaformannshlutverki í flokknum og var menntamálaráðherra á miklum örlagatímum. Eins og frægt er orðið lét hún af varaformennsku og vék tímabundið af þingi árið 2010 í kjölfar umfjöllunar og umræðu umkúlúlán eiginmanns hennar hjá Kaupþingi. Þorgerður gaf ekki kost á sér til frekari starfa á Alþingi árið 2013 en var ráðin til Samtaka atvinnulífsins sem forstöðumaður nýs mennta- og nýsköpunarsviðs. Nú sækist hún aftur eftir þingsæti en fyrir nýjan flokk: Viðreisn. Stundin ræddi við hana um skilnaðinn við Sjálfstæðisflokkinn, bréfin frá freku köllunum, uppgang öfgaafla í Evrópu, það hvort talsmönnum fyrirtækjarekenda sé treystandi til að standa vörð um almannahagsmuni á Alþingi og hvort búrkubann geti samræmst kröfunni um frjálslyndi.
Fór sjálf í endurmenntun
Hvernig leggst í þig að vera aftur á leið í stjórnmálin?
„Það leggst vel í mig að vera komin aftur í pólitíkina. Ég viðurkenni alveg að hafa saknað stjórnmálanna þótt margir hvái og finnist það skrýtið. En mér finnast stjórnmálin heillandi þrátt fyrir ýmsar skuggahliðar þeirra og þegar horft er yfir flokkana sem nú bjóða fram er ljóst að það er gott fólk í þeim öllum. Mig langar að fá tækifæri til að vinna með þessu fólki og ég held að nú sé einstakt tækifæri í stjórnmálunum, bæði til að stokka upp og líka til að sýna meiri aga og meiri samvinnu, skapa frið í stað þess að heyja stríð. Annars er engin spurning að það var rétt ákvörðun að hvíla mig á þessu í nokkur ár. Ég þurfti á sjálfsrýni að halda. Í stað þess að kalla eftir því að aðrir færu í endurmenntun gerði ég það bara sjálf og hafði gott af því. Í millitíðinni hef ég unnið mikið með fullorðinsfræðslu og símenntun, ég hef kynnst fyrirtækjunum og verkalýðshreyfingunni og séð að sem betur fer liggja hagsmunirnir meira saman en hitt, það er fleira sem sameinar en sundrar. Og það er ótrúlegt hvað hægt er að gera þegar fólk vinnur saman.“
Hefur þín sýn á stjórnmálin breyst í grundvallaratriðum þau ár sem þú hefur staðið utan þings?
„Það má segja að ákveðnar hugmyndir og hugmyndafræði hafi skerpst enn frekar. En grunnhugsjónin um frjálst opið samfélag sem tryggir öllum jafnan rétt til menntunar og velferðar er sú sama. Nú þegar ég kem inn aftur, þá kallar það á gagnrýni og annað sem getur verið erfitt en þetta er eitthvað sem ég þarf bara að taka. Svo er dýrmætt frelsi fólgið í því að það sé ekki alltaf einhver sem leggur höndina á öxlina á manni og segir: „Þorgerður Katrín, svona höfum við alltaf gert þetta og þessu er ekki hægt að breyta.“ Þetta gildir til dæmis um auðlindamálin. Ég talaði ekki sérstaklega fyrir markaðsleið þegar ég var á þingi, en ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að greiða eigi fyrir aðganginn að okkar sameiginlegu auðlindum, bæði í sjávarútvegi og annars staðar. Fyrsta grein fiskveiðistjórnunarlaganna um sameign þjóðarinnar er grundvallarlagagrein. Sú leið sem hingað til hefur verið farin í sjávarútvegsmálum hefur byggt upp öfluga atvinnugrein en ekki stuðlað að sátt, hana vantar og það þarf að laga. Þeir stjórnmálaflokkar sem skilja þetta ekki dæma sig að einhverju leyti úr leik.“
Og telurðu að sú útfærsla uppboðsleiðar sem Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur talað fyrir sé besta leiðin til að tryggja almenningi aukna hlutdeild í auðlindarentunni sem skapast í sjávarútvegi?
„Já, bæði þarf að huga að nýliðun í sjávarútveginum en ekki síður að almenningur fái aukna hlutdeild í auðlindarentunni. Það hefur sýnt sig að núverandi fyrirkomulag felur í sér ákveðið óöryggi fyrir atvinnugreinina því það er háð duttlungum stjórnmálanna hve hátt auðlindagjaldið er hverju sinni. Þá er hætt við því að þetta fari bara eftir því hvernig kaupin gerast á eyrinni í stjórnmálunum. Það er miklu eðlilegra að markaðurinn sjálfur ráði verðinu; þá er það hátt þegar eftirspurnin er mikil og lægra þegar hún er minni. Þetta er heilbrigðari nálgun en sú sem nú ræður för og hún mun skila meiri tekjum í ríkissjóð. Við í Viðreisn viljum ræða umbætur í sjávarútvegi af yfirvegun. Við viljum ekki stilla útgerðarmönnum upp sem andstæðingum þeirra sem vilja breytingar. Það er þeirra hagur að fá stöðugleika til langs tíma í greinina og þeir hljóta að átta sig á því að þeir verða að taka þátt í því að breyta kerfinu.“
En er ekki leiðin ykkar ósköp svipuð þeirri sem Samfylkingin talaði alltaf fyrir, semsagt fyrningarleiðinni?
„Samfylkingin talaði fyrir ekki ósvipaðri leið og lagði fram þingmál strax eftir hrun og svo aftur nokkrum árum seinna. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar mikið uppnám er í þjóðfélaginu megi ekki breyta og kollvarpa öllu í einhverri geðshræringu. Fólk nær ekki yfirvegun og yfirsýn yfir málin þegar allt er í uppnámi, og mér fannst kjörtímabil vinstri stjórnarinnar ekki heppilegur tími til að fara í slíkar breytingar. Enda voru önnur risamál á dagskrá hennar. Nú er hins vegar lag og mikilvægt að vinna að þessum breytingum sem fyrst.“
Athugasemdir