Ástæða þessa að kennarar í Melaskóla leggjast svo hart gegn því að Dagný Annasdóttir skólastjóri snúi aftur til starfa úr leyfi sínu er gífurleg óánægja með starfshætti hennar. Hún er sögð vanhæf til skólastarfs, stýri skólanum af vankunnáttu, og sumir kennarar upplifi einelti af hennar höndum. Dagný er sögð hafa stýrt skólanum á máta sem þekkist ekki í öðrum skólum. Hún er jafnframt gagnrýnd fyrir að hafa ekki kynnst börnum sem ganga í skólann líkt og tíðkast meðal skólastjóra. Skólastjórnun hennar hafi einkennst af stefnuleysi.
Allt þetta kemur fram í máli kennara við Melaskóla sem þar hefur starfað um árabil. Kennarinn, sem baðst undan því að vera nafngreindur, segir í samtali við Stundina að óánægja kennara sé mjög almenn, það sé helst þeir kennarar sem nálgist eftirlaunaaldur sem hafi ekki skrifað undir ályktunina. Þeir vilji ekki segja upp störfum þegar svo stutt sé í eftirlaun. Þar með sagt sé ekki sagt að þeir kennarar séu ósammála meirihluta kennara. Þrjátíu kennarar hafa hótað að segja upp störfum komi Dagný aftur til starfa og er það meirihluti kennara skólans.
Ekki náðist í Dagnýju við vinnslu fréttar en þess má geta að í frétt Vísis í desember neitaði hún alfarið að tjá sig um málið.
Athugasemdir