Dómstóll í Stavangri í Noregi dæmdi í gær Íslendinginn Kaj Anton Arnarsson til 26 mánaða fangelsisvistar. Það þótti sannað að Kaj Anton hafi misþyrmt tveggja ára íslenskum dreng hrottalega á heimili drengsins og fyrir utan það í október í fyrra. Kaj Anton hefur lýst yfir sakleysi sínu en hann hefur setið í fangelsi frá því hann var handtekinn eða í um átta mánuði.
„Barnið hafi dottið tvisvar á sama stað, á sama þröskuldi, tvo daga í röð.“
Samkvæmt heimildum Stundarinnar mun lögfræðingur hans áfrýja dómnum í Stavangri en ekki liggur fyrir hvort millidómsstigið í Noregi komi til með að taka málið til meðferðar eða hvort það fari beint til hæstaréttar þar í landi. Samkvæmt sömu heimildum gæti Kaj Anton, ef dómurinn yrði staðfestur, fengið þyngri dóm en aðstandendur litla drengsins sem var misþyrmt sögðu refsinguna „hlægilega“ í samtali við Stundina í gær.
Áverkarnir koma ekki heim og saman við frásögn Kaj Antons
Ekkert þeirra fékk að vera við dómsuppkvaðningu, þess í stað fékk móðir drengsins símtal þar sem henni var tjáð að Kaj Anton hafi verið fundinn sekur og þá upphæð sem drengurinn hafi fengið í miskabætur.
Blaðamaður Stundarinnar hefur fjallað ítarlega um málið frá því það kom upp í október í fyrra og meðal annars greint frá forsögu þess á vefnum. Samkvæmt dómsskjölum eru upplýsingar sem fram komu í fréttinni á pari við það sem fór fram í dómssalnum. Þar hélt Kaj Anton því meðal annars fram að barnið hafi dottið tvisvar, mögulega þrisvar. Það hafi gerst út frá einhverri tegund eltingaleiks þar sem barnið hljóp undan Kaj Antoni. Barnið hafi dottið tvisvar á sama stað, á sama þröskuldi, tvo daga í röð.
Áverkarnir, samkvæmt læknum og starfsfólki sjúkrahússins sem bar vitni fyrir dómnum, komu ekki heim og saman við frásögn Kaj Antons en áverkarnir sem barnið hlaut eru í líkingu við það sem börn á hans aldri hljóta í alvarlegum bílslysum.
Athugasemdir