Ingibjörg Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 21. október 1942 og ólst þar upp. Eftir stúdentspróf stundaði hún nám við Kvikmyndaskóla ríkisins í Moskvu og lauk Mag. art prófi í kvikmyndastjórn þaðan 1969. Hún starfaði sem aðstoðarleikstjóri við leikhúsið Teatro Estudio í Havana á Kúbu frá 1970 – 1975. Hún skrifaði og þýddi blaðagreinar, aðallega fyrir Þjóðviljann, meðan hún dvaldi í Sovétríkjunum og á Kúbu. Eftir heimkomuna til Íslands í árslok 1975 vann hún sem blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Þjóðviljanum um árabil.
Frá 1981 var Ingibjörg ljóðskáld og þýðandi að aðalstarfi, en fyrsta ljóðabók hennar, Þangað vil ég fljúga, kom út árið 1974. Ingibjörg gaf út sjö ljóðabækur, þar af tvær safnbækur, og hafa ljóð hennar verið þýdd á ungversku, þýsku, lettnesku, litháísku, búlgörsku, rússnesku, slóvakísku, ensku og Norðurlandamál.
Hún hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, meðal annars Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Menningarverðlaun DV fyrir þýðingu sína á Fávitanum eftir Dostojevskí og Íslensku þýðingarverðlaunin 2004 fyrir Fjárhættuspilarann eftir sama höfund. Þá var hún tvisvar tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, 1993 og 2004.
Ingibjörg var afkastamikill þýðandi, aðallega úr spænsku og rússnesku. Hún þýddi meðal annars skáldsögur eftir Dostojevskí og Búlgakov, fjölda leikrita eftir ýmsa höfunda og þýðingar hennar á ljóðum og smásögum spænsku- og rússneskumælandi höfunda birtust í tímaritum og voru fluttar í útvarpi.
Ingibjörg sat í stjórn Rithöfundasambands Íslands frá 1992 – 1998 og var formaður sambandsins frá 1994 – 1998. Hún var í ritnefnd Tímarits Máls og menningar frá 1977 og var aðstoðarritstjóri tímaritsins frá 1993 - 2000. Hún átti sæti í ritnefnd tímarits þýðenda, Jón á Bægisá.
Ljóðin bjarga mannslífum
Í áhugaverðum fyrirlestrinum Ingibjargar, Ljóð gripin sem hálmstrá, sem hún flutti í Norræna húsinu árið 2005 sagði hún: „Ljóðin bjarga mannslífum – þau eru gripin sem hálmstrá – þau eru nauðsynleg, þau hefja mann upp úr gráma hvunndagsins, leiða hugann að því óáþreifanlega og sálræna, þau lýsa upp myrkrið og gefa fyrirheit um litríka framtíð. Þau segja: láttu ekki hugfallast þótt myrkrið sé dimmt, einhverntíma birtir á ný.“
Hugsjónir Ingibjargar leituðu alla tíð til vinstri og fór hún meðal annars til Sovétríkjanna og svo Kúbu til þess að skerpa á þeim skoðunum. Um tíma sinn í Sovétríkjunum hafði Ingibjörg þetta að segja:
„Í Moskvu var jafnvel erfiðara að vera bóhem en í Reykjavík svo að ég varð að gefa þann draum endanlega upp á bátinn. Það var fussað og sveiað ef kvenfólk sást reykja, ég tala nú ekki um ef það sýndi sig í síðbuxum á almannafæri eða varð uppvíst að einhverjum enn svakalegri dónaskap. Allt þetta fuss, svo ekki sé minnst á ógnvekjandi mannmergðina á gangstéttum þessarar miklu borgar eða framandi tungumálið sem eftir á að hyggja kann að hafa verið það sem gerði endanlega útslagið, - allt þetta hafði lamandi áhrif á skræfuna mig svo ég steinhætti að yrkja. Ég var komin í ókunnan heim og móðurmálið dugði mér ekki lengur til að lýsa því sem bærðist innra með mér, hvað þá umhverfinu sem ég hrærðist í. Skáldgáfan lá í dvala árum saman.“
Um heimsenda og skáldskap
Ingibjörg kveður þessa jarðvist sama dag og Bandaríkjamenn kjósa sér nýjan forseta. Ýmsir hafa lýst því yfir að fari þær kosningar á hinn eða þennan veginn sé voðinn vís fyrir heimsbyggðina alla. Um þá þörf mannsins að finna sér stöðugt nýjar dómsdagsspár til þess að fárast yfir sagði Ingibjörg:
„Síðan ég man eftir mér hefur heimurinn verið að farast. Ef það var ekki atómbomban var það heimsvaldastefnan, kommúnisminn, alnæmið, ofbeldið, kapítalisminn, klámið, mansalið, eiturlyfin, gróðurhúsaáhrifin, trúarbragðaofstækið, hernaðarhyggjan, náttúruhamfarirnar, hryðjuverka-ógnin, offitan, hungrið, vatnsleysið, fuglaflensan, endalok tungunnar, dauði ljóðsins - svo ekki sé minnst á þá framtíðarsýn sem við blasir ef hvert kínverskt heimili eignast einhverntíma bíl, ísskáp og þvottavél.... alltaf vofði eitthvað yfir okkur, og vofir enn. Samt erum við hér ennþá og veröldin er ennþá fögur, farfuglarnir enn á sínu undarlega flugi og enn eru skáldin að yrkja og finna fyrir þeim „djúpa fögnuði“ sem sköpunartilfinningin vekur. Þrátt fyrir hatrið og stríðin, þrátt fyrir allt.
Eflaust gerast menn skáld af margvíslegum ástæðum, áreiðanlega eru þar fleiri kallaðir en útvaldir, og víst er til fólk sem aldrei ljær neinum skáldskap eyra, hnussar bara ef það heyrir minnst á svoleiðis þvælu. Samt sem áður getum við fullyrt að skáldskapur hefur lifað með mannkyni frá ómunatíð, lifir enn og mun lifa svo lengi sem litlar stelpur og litlir strákar eru eitthvað að gaufa alein, tala við sjálf sig og finna upp á að bulla og raða saman orðum svo úr verða sögur og ljóð.“
Athugasemdir