Skýr markmið um bætta þjónustu, aukna skilvirkni, hagkvæmni og mælanlegan árangur ættu að vera ófrávíkjanleg skilyrði þegar hugað er að flutningi ríkisstofnana. Óásættanlegt er að líta aðeins til dreifingar opinberra starfa.
Þetta er mat Ríkisendurskoðunar að því er fram kemur í skýrslu sem hún skilaði Alþingi í dag. Þar er fjallað um ákvarðanatöku, undirbúning og framkvæmd flutninga fimm ríkisstofnana á milli landshluta á árunum 1999-2007 en jafnframt vikið stuttlega að flutningi Fiskistofu á yfirstandandi kjörtímabili.
Í kaflanum um flutning Fiskistofu er vísað til álits umboðsmanns Alþingis um málið og dregin sú ályktun „að litlum tíma hafi verið varið til undirbúnings sem var að ýmsu leyti ábótavant“. Bent er á að umboðsmaður Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að upplýsingagjöf sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til starfsmanna Fiskistofu um fyrirhugaðan flutning höfuðstöðvanna hefði ekki verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.
Athugasemdir