Nemendur á kynjafræðiþingi framhaldskólanna bjuggu í dag til myllumerkið #allirgráta til þess að hefja hreyfingu sem bendir á skaðlega karlmennsku í daglega lífinu. Nú þegar hafa fjölmargir tekið þátt, meðal annars Halldór Halldórsson grínisti, Máni Pétursson útvarpsmaður á X-inu og tónlistarmaðurinn Gauti Þeyr Másson. „Ég hef átt VW Golf, Chrysler, Dodge, Subaru, Kia og ég hef grátið í þeim öllum,“ skrifar Halldór. „Ég er að gráta þarna. Hágráta meira að segja,“ segir Máni og deilir mynd af sér í faðmlögum við annan karlmann á fótboltavellinum. „Tveir þættir sem fá mig til að væta kinnarnar. Ég græt í næstum öllum flugum og græt reglulega yfir fegurð dóttur minnar,“ segir Gauti.
Skaðlegar karlmennskuhugmyndir
Breski grínistinn Josh Thomas er á meðal þeirra sem hefur vakið athygli á málinu. Hann velti því fyrir sér hvers vegna þrefalt fleiri karlar fremja sjálfsvíg en konur, því í rauninni hafa karlar það betur en konur. „Þú færð hærri laun. Þú færð karlkyns forréttindi. Feðraveldið er á þinni hlið og þú ferð ekki á túr,“ sagði hann meðal annars. Hann telur ástæðuna liggja viðteknum karlmennskuhugmyndum.
„Fram til átta eða níu ára aldurs gráta strákar jafn mikið og stelpur. Síðan er þeim kennt að hætta.“
„Fram til átta eða níu ára aldurs gráta strákar jafn mikið og stelpur. Síðan er þeim kennt að hætta. Þeir mega það ekki lengur,“ segir Thomans. „Óttinn við að virðast veikburða, kvenlegur eða hommalegur kemur í veg fyrir að karlmenn tala um tilfinningar sínar. Og síðan drepa þeir sig.“
Athugasemdir