Fyrsti leikur Íslands verður 14. júní á móti Portúgal og í borginni Saint Étienne. Borgin á uppruna sinn að rekja til klausturbyggðar á tólftu öld sem síðar varð að bæ þekktum fyrir vopnaframleiðslu og kolanámur. Það er ekki tilviljun að leikir fari fram þar, fótboltaklúbbur bæjarins er einn sá stærsti í Frakklandi og hefur unnið frönsku deildina tíu sinnum. (Það er kannski ekki skrítið að Étienne hafi orðið mikilvæg fyrir knattspyrnu í Frakklandi, fótboltaklúbburinn Arsenal var stofnaður af verkamönnum sem unnu í vopnaverksmiðjum og Liverpool, Manchester og önnur bæjarfélög á Englandi sem eiga góð lið, gamlir verkamanna- og kolanámubæir líka).
Ráfi maður um í borginni má sjá margar fallegar byggingar. Hægt er að taka sporvagninn framhjá La Martre eða dómkirkjunni og njóta þannig arkitektúrs gamla bæjarins. Nútímalistasafnið þykir einnig vera nokkuð gott á franskan, og þar með alþjóðlegum, mælikvarða. En sennilega, ef heimsókn á námuverkamannasafnið eða vopnaframleiðslusafnið heillar ekki, er best að fara í útsýnisferð og skoða annaðhvort Alpana eða gömlu kastalana í nágrenninu. Chateau de Rochetaillée þykir býsna flottur.
Lyon er í klukkustundarkeyrslu frá Saint Étienne og umtalsvert stærri borg. Þar eru enn glæsilegri byggingar, fleiri veitingastaðir og söguminjar. Það væri hægt að gera margt vitlausara en að leigja hjól fyrir alla fjölskylduna og kanna þannig það helsta í héraðinu eftir að Íslendingar gjörsigra Portúgal, 3-0.
Athugasemdir