Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti, segir Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, hafa tekið sér það hlutverk að vera „gæslumaður ríkisstjórnarinnar“ með því að passa upp á að vilji meirihluta þingsins liggi fyrir áður en hann samþykkir beiðni forsætisráðherra um þingrof. „Mér sýnist svo að forseti taki sér það hlutverk að gæta hagsmuna meirihluta þingsins vegna þess að hann telur að forsætisráðherra hafi ekki stuðning á bakvið þessa tillögu um þingrof, eins og hann bera hana fram. Það er í meira lagi óvenjulegt og ég held það hæfi ekki almennilega að vísa til sögunnar í þessu sambandi vegna þess að, eins og ég hef nefnt hér fyrr, þá er búið að breyta stjórnskipan okkar þannig að þingið sjálft getur tekist á við afleiðingar þess ef forsætisráðherra gengur fram gegn vilja meirihluta þingsins. Þannig að þótt að þing yrði rofið þá myndi þingið sitja áfram og takast á við pólitískar afleiðingar af þessari mjög svo óvenjulegu tillögu sem kemur fram hjá forsætisráðherra,“ sagði Björg í viðtali við RÚV í hádeginu.
Hún sagði jafnfram að forseti hafi með þessu stigið með mjög afgerandi hætti inn á pólitískan vettvang. „Ég þekki ekki dæmi þess að forseti hafi formlega og með rökstuddri afstöðu hafnað tillögu forsætisráðherra um þingrof,“ segir Björg.
Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur sagði jafnframt að Ólafur Ragnar hafi tekið rétta ákvörðun með því að hafna beiðni Sigmundar Davíðs, því hann hafi ekki vitað hug Bjarna Benediktssonar í málinu. „Mér finnst illskiljanlegt, miðað við þær upplýsingar sem við höfum, að Sigmundur hafi tekið þessa miklu áhættu að segjast á Facebook fyrir framan alþjóð að hann sé að fara til Bessastaða að rjúfa þing, eins og hann segir það, og ætlast svo til þess að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti til tuttugu ára, muni segja já og amen.“
Athugasemdir