Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Forsetaframbjóðendur: „Ég hef séð barn kveðja foreldra sína“

Sjúkra­húsprest­ur­inn Vig­fús Bjarni Al­berts­son hef­ur skap­að sér gott orð­spor, bæði með þægi­legri og frið­sælli nær­veru sinni, en einnig vegna oft á tíð­um ró­tækr­ar fram­göngu sína inn­an þjóð­kirkj­unn­ar.

Sjúkrahúspresturinn Vigfús Bjarni kom óvænt inn í umræðuna um forsetakosningarnar í sumar, þegar í ljós kom að nokkur hundruð manns höfðu skorað á hann í framboð. Kom sú áskorun Vigfúsi mikið á óvart, en eftir að hafa lagt höfuðið í bleyti ásamt konunni sinni ákvaðu þau þó að bregðast við kallinu, og fara í ferðarlag. Eins og Vigfús orðar það sjálfur „ákváðum við að líta á þessar kosningar sem vegferð, en ekki baráttu.“

Hann er einkabarn foreldra sinna, Alberts Ríkarssonar kennara og Elínar Vigfúsdóttur snyrtifræðings. Segir hann í gríni að þau hafi bara þorað í eitt barn: „Þetta var alveg nóg verkefni fyrir þau.“ Ólst Vigfús upp hjá þeim, en var einnig mikið norður á jörð afa síns og ömmu, á bænum Laxamýri, norður í Þingeyjasýslu. „Þannig ég mótaðist bæði af bæ og í borg, og það er umhverfi sem hefur haft mikil áhrif á mann.“

Gekk hann í grunnskóla í Reykjavík og seinna menntarskóla. Eftir að hafa útskrifast með stúdent árið 1995 bjó hann í Danmörku í 9 mánuði, áður en hann hóf embættisnám í guðfræði. Starfaði hann þann tíma meðfram námi, bæði sumar og vetur, í lögreglunni í Reykjavík, „sem var gríðarlega góður skóli, að kynnast fólki í allskonar aðstæðum.“ Eftir að hafa klárað 5 ára embættisnám fór hann svo til Bandaríkjanna, þar sem hann sérhæfði sig í sorgar- og áfallavinnu. Hefur Vigfús svo starfað sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum frá árinu 2005.

Sérhæfður í sorg

Giftist hann konunni sinni, Valdísi Ösp Ívarsdóttur, fíknifræðing, árið 2001. Eiga þau þrjú börn saman, 18 ára stelpu og tvo drengi, 12 og 7 ára. Auk starfa sinna á Landspítalanum hefur Vigfús kennt sorgar og áfallavinnu í meistaranámi við Háskóla Íslands.

Það að sérhæfa sig í því að vera innan um fólk á erfiðustu stundum lífs þeirra er ferill sem fáir velja sér. Veikindi, andlát og sorg er eitthvað sem við reynum flest að halda sem mestri fjarlægð á, en Vigfús hefur sótt í. Segir hann vinnuna þó, þrátt fyrir allt, vera skemmtilega, í þeirri merkingu að í henni fái hann að tengjast fólki mjög náið. „Vinna með fjölskyldum sem eru að takast á við áföll, óháð lífskoðunum og viðhorfum. Það er ótrúlega dýrmætt að fá að gera það.“

Segist hann hafa ástríðu fyrir því að vera í aðstæðum þar sem fólk verður berskjaldað, því þar þurfi maður sjálfur að vera berskjaldaður. Aðstæður þar sem maður á ekki svör við öllu, og eina leiðin er að reyna að tengjast fólki. „Þetta starf krefst auðmýktar, þetta er starf þar sem krefst þess að þú sért sem eðlilegust manneskja. Það falla allar grímur. Ég nota það orðfæri oft. Þetta eru grímulaus samskipti. Fyrir þann sem þjáist og þann sem fær að standa við hliðina á honum. Það eru forréttindi.“

Vill virkja lífsskoðanir fólks

Starf Vigfúsar með lögreglunni, samhliða námi, segir hann að hafi stutt þá ákvörðun sína að fara í guðfræði, og svo þessa óvenjulegu sérhæfingu. „Mér fannst áhugavert að vera með fólki í aðstæðunum sem það er að glíma við, sem er jú stór hluti af prestavinnunni.“ Áhugi Vigfúsar á stóru spurningum lífsins hafi einnig spilað þar stórt hlutverk. Guðfræðin sé í raun þverfagleg, innihaldi meðal annars sálfræði, sögu og tilvistarspurninga heimspekinar. „Ég er svo bara mótaður af lífinu. Hafði kynnst bæði sigrum og ósigrum, og það er bara mikilvægt. Mig langaði til að dýpka þennan skilning. Ég hef þurft að glíma helling við sjálfan mig, og horft á aðra í mínu lífi þurfa að glíma við sig.“

Það kemur meira hik á tal Vigfúsar þegar hann lýsir dýptinni og fegurðinni í mannlegum samskiptum, sem fara fram á þessari bjargbrún lífs og dauða. “Þar sem maður hefur séð fólk kveðjast, gera upp hlutina, takast á við sjálfa sig, opinbera sjálfa sig, veita þeim sem eru að verða eftir von. Ég hef séð barn kveðja foreldra sína. Þetta er náttúrulega eins afhjúpaður veruleiki og getur verið, en rosalega sannur. Strípaður.”

Niðurstaða hans eftir þessa 11 ára vinnu á Landspítalanum er sú að hann hefur mikla trú á fólki. „Mér finnst öllu fólki svipa svo saman. Mér finnst ég og þú vera svo líkir. Það kemur í ljós þegar búið er að afhjúpa allt; vonir, væntingar og tilvistarlegar hugsanir fólks eru allar svo líkar. Það er kjarni, sama hvað við segjumst vera og aðhyllast. Ég vinn bara með fólki, og það skiptir ekkert máli hver lífsskoðun þeirra er. Þetta snýst ekkert um það. Ég veit ekki svarið. Þetta gengur ekki út á það að óvirða lífsniðurstöður fólk. Alls ekki. Miklu frekar að virkja hana.“

Grímulaus
Grímulaus Úr lögreglunni í prestinn. Af sjúkrahúsinu á Bessastaði.

Tíu spurningar

1. Hvað finnst þér um málsskotsrétt forseta og í hvaða tilfellum getur þú séð fyrir þér að nýta hann?

Forsetinn sem nú verður kjörinn þarf að setja sér reglu um það. Ég hef áður talað um að það ætti að miða við 15% kosningabærra manna. Þá sé almenningur búinn að tjá sig á þann hátt að hann vilji fá að kveða upp um hvernig málinn eigi að fara. En ég vona að stjórnarskrármálið þróist þannig að þetta vald fari til þjóðarinnar. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt. Ég held að ástandið eins og það er núna sé algjörlega að rökstyðja það.

2. Hvað finnst þér um stefnu stjórnvalda undanfarna áratugi varðandi stóriðju?

Ég er svo glaður með það að umhverfisvernd er að verða hin almenna skoðun. Einusinni var hún sértæk, en ég held að við séum flest orðin umhverfisverndarsinnar. Mér sýnist sem svo að við getum kannski ekki gengið mikið lengra í því að við erum með náttúruna að láni. Við séum komin alveg að ýmsum þolmörkum, ekki bara gagnvart stóriðju, en líka umgengni ferðamanna og fleira. Við þurfum að fara í mjög ákveðna vinnu í því að varðveita þetta umhverfi og þessa náttúru, sem við höfum jú að láni.

3. Finnst þér eignarréttur, eins og yfir til dæmis auðlindum og framleiðslutækjum, mikilvægur?

Það er grundvallaratriði í okkar samfélagi að það sé algjörlega skýrt að eignarréttur auðlindanna sé þjóðarinnar. Kannski er það stundum allt of óljóst, hvernig það liggur. Aftur á móti geta fyrirtæki fengið aðgang að þessum auðlindum sem við, þjóðin og næstu kynslóðir, eigum. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að árétta, einnig að náttúruauðlindir eru okkar sameiginlega eign, en ekki eign fárra fjölskyldna.

4. Hvort hallast þú frekar að auknum einkarekstri eða auknum ríkisrekstri, til dæmis varðandi heilbrigðiskerfi og skólakerfi?

Það er grundvallaratriði að allir njóti heilsu og menntunar í þessu landi. Ég vil að hún gefi öllum jöfn tækifæri. Sá rekstur sem stuðlar að því að allir fái þjónustu óháð efnahag og uppruna er hið rétta rekstrarform.

5. Ert þú fylgjandi ríkisreknum fjölmiðli?

Ég hef áhyggjur af fjölmiðlum, hvort sem þeir eru í einkaeign eða ríkiseign. Ég held að þeir séu eitt mikilvægasta aflið í hverju þjóðfélagi, til að segja sannleikann. Hvort sem það er ríkiseign eða einkaeign, sem raskar þeirri getu að segja sannleikann, hvort sem það er í krafti peninga einkaðila eða valdhafa ríkissins, þá er það alltaf hættulegt. Þannig ég er mjög feginn þeirri þróun sem hefur átt sér stað, þegar einkafjölmiðlar verða til, sem eru ekki háðir neinum annarlegum forsendum, sem segja sannleikann í samfélaginu og truflast hvorki af ríkisvaldhöfum eða peningavaldhöfum. Það er ekkert sjálfgefið að ríkisfjölmiðill sé heiðarlegri en einkafjölmiðill. En ég held það sé alveg eðlilegt að ríkið reki ekki það mikla fjölmiðla að það skaði til dæmi aðra fjölmiðlun. En heilbrigð fjölmiðlun hjálpar til við heilbrigt samfélag.

6. Telur þú að femínismi sé mikilvæg jafnréttishreyfing eða sé of öfgafullur til þess að geta komið jafnréttisbaráttu til hjálpar?

Femínismi er náttúrulega bara safnheiti. Femínisminn hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf í því að búa til betra samfélag fyrir okkur. Þannig ég er femínisti alveg eins og ég er margt annað.

7. Telur þú að múslimar séu vandamál í Evrópu, og finnst þér mikilvægt að hefta för flóttamanna um álfuna og jafnvel að koma í veg fyrir að þeir setjist að á Íslandi?

Nei. Ég tel ekki að Íslam sé vandamál í Evrópu. En aftur á móti lifum við á mikilvægum tímum til þess að skapa umburðarlyndi í öllum hópum, og virðingu. Við eigum ekki að reisa veggi og hindranir, miklu frekar að stunda brúarsmíði milli menningarheima.

8. Ert þú fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju?

Ég er fylgjandi því að þjóðin fái að kveða upp um það. Það er svo margt í samskiptum ríkis og kirkju sem bitnar á kirkjunni. Þannig ég óttast ekkert um kirkjuna, og allra síst um boðskap hennar þó það verði aðskilnaður. Ég hef meiri trúa á honum en svo að hann lifi það ekki af.

9. Hvað finnst þér best og verst í fari Ólafs Ragnars?

Það sem ég held að hafi verið best er hann stóð með þjóðinni þegar kom að Icesave málinu, og hvernig  hann fylgdi því eftir. Það er sá þáttur í hans forsetatíð sem stendur upp úr. Hann mótaði sitt embætti út frá sínum pólitíska reynsluheim. Ég hef hinsvgar saknað þess að forsetaembættið hafi ekki talað meira upphátt um grunngildin í samfélaginu okkar. Mér finnst að embættið ætti að starnda sterkari vörð um það.

10. Hver er uppáhalds íslenski forsetinn þinn?

Ég held að þjóðin hafi verið heppin með hvern þann forseta sem hún hefur komis sér á hverjum tíma, það er ekki spurning. Þau hafa öll mótað embættið mjög út frá sinni persónu, bakgrunn og reynslu. Ég akkúrat núna, í þeim samtíma sem við lifum núna þá held ég að margir horfi til Vigdísar og Kristjáns. Það er einhver sýn hjá þjóðinni að þau hafi verið forsetar fólksins. Laus við pólitískar tengingar og bakgrunn. Þannig ég ætla að nefna þau tvö, án þess að ógilda hina.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Forsetakosningar 2016

Saga af tveimur forsetum: Helgi fokking Björns. Og hnykkurinn
Karl Th. Birgisson
Skoðun

Karl Th. Birgisson

Saga af tveim­ur for­set­um: Helgi fokk­ing Björns. Og hnykk­ur­inn

Guðni Th. Jó­hann­es­son hef­ur flutt um 35 ræð­ur og er­indi frá því hann varð for­seti. Hann hef­ur not­að þau í að kveða nið­ur þjóð­rembu og forð­að­ist með­al ann­ars upp­hafn­ingu þjóð­kirkj­unn­ar. Hann sker sig frá Ólafi Ragn­ari Gríms­syni, sem í kosn­inga­bar­áttu sinni 1996 hafði sem ein­kenn­islag „Sjá dag­ar koma“ eft­ir Dav­íð Stef­áns­son, þar sem alda­löng­um þraut­um Ís­lend­inga er lýst.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár

Loka auglýsingu