Fjölmargir Íslendingar hafa síðustu tvo daga deilt viðvörun um innbrotsþjófa sem dulbúa sig sem starfsmenn frá hitaveitunni til þess að fá aðgang að heimilum fólks. Mynd af mönnunum tveimur er deilt með viðvöruninni:
„AÐVÖRUN þessir tveir aðilar eru að banka uppá hjá fólki og biðja um að lesa af hitaveitu mælunum ALLS EKKI HLEYPA ÞEIM INN þeir eru ekki frá hitaveitunni endilega að deila !!!!!“
Aðvöruninni hefur verið deilt 1.700 sinnum á Facebook og hefur samhljóða frétt verið birt á vefnum Menn.is, þar sem Reykvíkingar varaðir við því að hleypa þeim inn til sín.
Mennirnir tveir eru hins vegar ekki innbrotsþjófar, heldur aðalpersónurnar í kvikmyndinni Home Alone, eða Aleinn heima, sem var sýnd í Sjónvarpinu síðastliðið laugardagskvöld.
Undrast trúgirni fólks

Viðvörunin var upphaflega birt í gríni á Facebook-síðu Þrastar Njáls. Þröstur hafði horft á Home alone í Ríkissjónvarpinu kvöldið áður og í kjölfarið ákveðið að skrifa grínfærslu á Facebook.
Hann undraðist viðbrögðin. „Vá, var að fara yfir allar þessar deilingar og fólk er greinilega ekki að fatta að þetta er the wet bandits úr Home alone,“ segir hann undir færslunni.
Engu að síður hefur fólk haldið áfram að deila viðvöruninni bæði á Facebook og svo munnlega.
Þá birti vefsíðan Menn.is viðvörunina og myndina „til varúðar“ og fékk yfir 1.600 deilingar á fréttina.

Falskar fréttir breyta lýðræðinu
Falskar fréttir á Facebook hafa verið mikið í umræðunni frá því að þær höfðu áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Mánuðina fyrir kosningar var meiri virkni (e. engagement) við deilingar á fölskum fréttum um Hillary Clinton og Donald Trump en deilingar viðurkenndra fréttamiðla. Meðal fimm vinsælustu fölsku fréttanna á Facebook var að Wikileaks hefði birt gögn sem sýndu að Hillary Clinton hefði selt vopn til ISIS, að Frans páfi hefði lýst yfir stuðningi við Donald Trump og að alríkislögreglumaður sem kom að lekanum á gögnum úr tölvupóstum Hillary Clinton hefði fundist látinn við grunsamlegar aðstæður.
Athugasemdir