Ein frægasta saga af ferðalagi vestrænna manna til Afríku átti sér stað fyrir 145 árum, þegar fréttamaðurinn Henry Stanley fann loks hinn fræga Dr. Livingstone.
David Livingstone kom fyrst til Afríku árið 1840 með tvö markmið: Að kanna álfuna og koma á endalokum þrælahalds. Skrif hans og fyrirlestrar í Englandi kveiktu síðar áhuga almennings á „Álfunni myrku“ og áttu eftir að gera Livingstone að þjóðhetju og lifandi goðsögn.
Árið 1864 ferðaðist Livingstone aftur til Afríku og hóf könnunarleiðangur í gegnum miðja álfuna með það fyrir stafni að finna upptök árinnar Níl. Mánuðir urðu að árum og lítið sem ekkert heyrðist frá landkönnuðinum fræga. Kjaftasögur fóru á kreik um að Livingstone væri haldið föngnum eða hann jafnvel látinn. Dagblöð birtu fyrirsagnir eins og „Hvar er Livingstone?“ Almenning þyrsti í fréttir af þjóðhetjunni sinni. Árið 1871 hafði forvitnin borist yfir Atlantshafið til Ameríku og Henry Stanley, blaðamanni New York Herald, var gert að fara til Afríku og finna Livingstone.
Athugasemdir