„Það loga kerti víða í Hafnarfirði, sendum ljós og styrk til drengsins og fjölskyldu hans.“ Þetta skrifar Harpa Einarsdóttir fatahönnuður á Facebook-síðu sína í dag um slysið sem varð í Hafnarfirði í gær þar sem ungir bræður voru hætt komnir eftir að hafa lent í læknum við Reykdalsstíflu. Drengirnir eru fæddir árin 2002 og 2005, en yngri bróðurnum er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans. Eldri bróðirinn komst til meðvitundar í gær eftir lífgunartilraunir.
Harpa segist ganga framhjá þessum stað á næstum hverjum degi og hún hafi oft velt fyrir sér hversu hættuleg stíflan sé. Dóttir Hörpu, Hrafnhildur Sunna, og skólafélagar hennar í Lækjaskóla horfðu á atburðarásina frá upphafi til enda frá skólanum, sem er nærri slysstaðnum. Að sögn Hörpu var vinkona Sunnu, sem er í tíunda bekk, ein þeirra sem dró annan drenginn á þurrt.
Athugasemdir