Það er nokkuð merkilegt að keyra um borgina og spá í hvað varð um allar hverfissjoppurnar sem voru til á tuttugustu öldinni. Sjoppur eins og Blái Turninn, STÁ, Fröken Reykjavík, King Kong og James Bönd eru núna ekki lengur til staðar og hefur mörgum hverjum verið breytt í íbúarhúsnæði, gistiheimili eða hárgreiðslustofur.
Sjoppan var til þjónustu reiðubúin á hverjum degi til kl. 23.30 og gegndi hlutverki eins konar félagsmiðstöðvar, þar sem maður gat rölt við á kvöldin, ef ekki bara til þess að kaupa sér bláan ópal og kók í gleri, spilað í spilakassa, hitt kunningja eða nágranna sína. Á flestum stöðum var ekkert mál að fá skrifað, og sums staðar voru sígarettur seldar í stykkjatali. Sjoppurnar voru einnig leiksvið fyrir alvöru unglingadrama, enda frábær vettvangur fyrir unglinga að hangsa án eftirlits, fikta við að reykja og reyna við hitt kynið.
Athugasemdir