Almannatengslafyrirtækinu KOM var falið að boða fjölmiðla á kynningarfund um skýrslu nefndar Eyþórs Arnalds um rekstur Ríkisútvarpsins í síðustu viku.
Samkvæmt ársreikningi KOM fyrir árið 2014 er Magnús Ragnarsson, sem hætti sem aðstoðarmaður Illuga í menntamálaráðuneytinu sama ár, stjórnarmaður í fyrirtækinu. Þá er hann stjórnarformaður þess samkvæmt gildandi skráningu í hlutafélagsskrá.
Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill og áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum sem gegndi um tíma starfi aðstoðarmanns Bjarna Benediktssonar á síðasta kjörtímabili, sendi út fréttatilkynninguna um kynningarfundinn fyrir hönd nefndarinnar.
Eyþór Arnalds segir í samtali við Stundina að nefndinni hafi sjálfri verið falið að standa að kynningu á efni skýrslunnar. Fyrirtækið KOM hafi verið fengið til verksins, enda sé það með aðsetur í sömu byggingu og Eyþór starfar, og menntamálaráðuneytið greiði fyrir þjónustuna.
Kynningin vandlega skipulögð
Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, gerði kynningu RÚV-skýrslunnar að umtalsefni í pistli um helgina. „Á fimmtudag var kynnt skýrsla um RÚV. Í aðdragandanum var upplýsingum úr henni lekið í valda fjölmiðla og kynning hennar vandlega skipulögð af almannatengslafulltrúa sem vinnur mikið fyrir helstu leikendur í Sjálfstæðisflokknum,“ skrifaði hann.
Athugasemdir