Hörður Þórhallsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, er ekki lengur skráður til þátttöku á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Í frétt á Kjarnanum er haft eftir Herði að hann sé ekki landsfundarfulltrúi né hafi hann sóst eftir að verða slíkur. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, skrifaði leiðara í gær þar sem hann vísaði meðal annars í frétt Stundarinnar um málið. Hörður kom því á framfæri við Kjarnann í dag að frétt Stundarinnar væri ekki rétt og var leiðaranum breytt í samræmi við þá ábendingu.
Stundin sagði frá því í síðustu viku að Hörður væri skráður til þátttöku á landsfund en hann hafði skráð sig til þátttöku á Facebook-viðburði á vegum Sjálfstæðisflokksins. Áður hafði hann fullyrt í samtali við Stundina að hann hefði engin tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.
Hann hefur nú afskráð sig af mætingarlista á landsfundinn. Í texta með viðburðinum segir að aðildarfélög og fulltrúaráð flokksins skipi landsfundarfulltrúa og að allir sjálfstæðismenn geti sóst eftir seturétti. Þeim sem hafa skráð sig til þátttöku á viðburðinum ætti því að vera ljóst að til þess að mæta á landsfund þurfi þeir að vera skráðir í Sjálfstæðisflokkinn og skipaðir landsfundarfulltrúar.
Stundin hafði samband við Hörð og bað um nánari útskýringar. Hann sagðist ekki vilja svara blaðamanni símleiðis og bað um að fá sendar spurningar með smáskilaboðum á farsíma.
Athugasemdir