Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Milli skers og báru

Mongólía liggur klemmd milli tveggja stórvelda, Kína og Rússlands, en er eigi að síður lýðræðisríki. Stundum er sagt að dragi hver dám af sínum sessunauti, en það á ekki við um Mongólíu, strjálbýlasta land heims ef Grænland eitt er undanskilið.

Kommúnistaflokkur Kína sýnir þessa dagana sitt rétta andlit með yfirgangi sínum gagnvart íbúum Hong Kong í blóra við samning Bretlands og Kína frá 1984 með uppáskrift Sameinuðu þjóðanna um „eitt land, tvö kerfi“. Framferði kínversku einræðisstjórnarinnar gagnvart Hong Kong og ítrekaðar hótanir hennar gagnvart Taívan vitnar um einstrenging og ofstæki. Þjóðverjar sjá að sjálfsögðu ekkert athugavert við sjálfstætt Austurríki í næsta nágrenni sínu, þótt Hitler og hyski hans litu málið öðrum augum og legðu Austurríki undir sig 1938. Með líku lagi ætti kínverska stjórnin að líta frelsi og lýðræði í Hong Kong og Taívan evrópskum augum nútímans, láta þau afskiptalaus og leyfa fólkinu þar að lifa lífinu eftir eigin höfði. Það er ekki þægilegt fyrir Mongóla að deila 4.600 km landamærum með svo yfirgangssömum granna, en þeir fá samt að vera í friði og eiga margháttuð vinsamleg samskipti við Kína.

Það er ekki heldur þægilegt fyrir Mongóla að eiga 3.500 km löng landamæri að Rússlandi, þjófræðisríki þar sem fámenn klíka stelur öllu steini léttara og meintir andstæðingar stjórnarinnar eru stráfelldir, að vísu ekki með stíflueyði, heldur geislavirku hágæðaeitri auk byssukúlna með gamla laginu. Ólíkt Kínverjum hafa Rússar ekki gætt þess að nútímavæða efnahagslífið í landi sínu með því að skjóta nýjum stoðum undir efnahaginn og reyna að framleiða vörur og þjónustu sem annað fólk kærir sig um að kaupa, en þetta hafa Rússar vanrækt. Þeir hafa einblínt á olíugróðann og standa því frammi fyrir miklum vanda nú þegar olíuverð á heimsmarkaði er hrunið (og var jafnvel neikvætt um tíma: olíufélög þurftu að borga með „seldri“ olíu því allar birgðageymslur voru sneisafullar). Haldist olíuverð lágt mun lífskjörum Rússa hraka, hugsanlega til langframa ef lægðin á olíumörkuðum heimsins verður langvinn. Það gæti gerzt ef rafvæðing og aðrar ráðstafanir gegn hlýnun loftslags draga til muna úr eftirspurn eftir eldsneyti. Mongólar leita nú leiða til að skjóta nýjum stoðum undir efnahagslífið í landi sínu frekar en að reiða sig um of á kenjóttar auðlindir náttúrunnar.

Mongólar framleiða kvikmyndir sem vakið hafa athygli víða um lönd. Túndran er falleg umgjörð um vel sagðar sögur ekki síður en til dæmis eyðimörkin, frumskógurinn eða þéttbýlar borgir. Ein þessara mynda heitir Sagan um kameldýrið grátandi og fjallar um hirðingjafjölskyldu sem verður fyrir því óláni að ein kýrin eignast kálf sem er albínói og hún hafnar afkvæmi sínu. Fjölskyldan er harmi slegin því líf hennar snýst um hjörðina. Faðirinn og elzti sonurinn bregða á það ráð að fara ríðandi margar dagleiðir í næsta kauptún, sem er bara tjaldbúð, og nota tækifærið til að kaupa sér sjónvarpstæki, en tilgangur ferðalagsins var að fá tónlistarmann til að fylgja þeim heim til að leika á tveggja strengja langspil fyrir móðurina sem hafði hafnað kálfi sínum. Þegar móðirin heyrir tónlistina, fellir hún tár og tekur kálfinn í sátt. Og feðgarnir fara áhyggjulausir inn í hús að horfa á sjónvarpið.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Loka auglýsingu