Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Ávarp á Austurvelli

Það er rífandi gangur í endurskipulagningu bankakerfisins.

Fjármálaráðherra talar um ”ánægjulegan lokahnykk á vel heppnuðu söluferli“.

Hverjir voru valdir til að kaupa bréfin í Íslandsbanka á undirverði?

Hér eru nokkrir nýir eigendur Íslandsbanka:

 • Einn er nýkominn af Kvíabryggju, dæmdur fyrir umboðssvik o.fl.
 • Annar fékk átta mánaða dóm, einnig fyrir umboðssvik o.fl.
 • Enn annar er með Interpol á hælunum, hann var stjórnarformaður Glitnis í hruninu og þurfti að horfa á eftir bankastjóra sínum og mörgum öðrum starfsmönnum í steininn og hann hefur nú réttarstöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á Samherja vegna meintra lögbrota í Namibíu og víðar.
 • Einn hrunverjinn enn fékk að auki nýlega á sig kæru fyrir kynferðisofbeldi.
 • Enn annar (faðir fjármálaráðherrans) forðaði 500 mkr. út úr Sjóði 9 í Glitni til Flórída þrem dögum fyrir þjóðnýtingu bankans meðan aðrir viðskiptavinir bankans brunnu inni með allt sitt og sonurinn seldi allt sitt í Sjóði 9 í sömu svifum.
 • Einn kaupandinn enn er eigandi dagblaðs sem mærir Pútín og Trump á víxl.
 • Og svo eru þarna ýmsir aðrir minni spámenn úr hópi hrunverja.

Þarna er sem sagt rjómi rjómans í viðskiptalífinu – crème de la crème eins og Frakkar myndu segja.

Fjármálaráðherra er upphafssmaður og aðalarkitekt þessarar ósvinnu.

Saksóknarar þurfa að athuga hvort hann hefur gert sig sekan um brot gegn ákvæðum hegningarlaga um umboðssvik, sömu ákvæðum og leiddu til fangelsisdóma yfir fjölmörgum bankamönnum eftir hrun, einnig tveim þeirra sem eru nú aftur orðnir eigendur banka í boði ráðherrans.

Við fjármálaráðherra vil ég segja þetta:

Það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem þú ert viðriðinn bankarán og þið feðgar. Segðu af þér. Snautaðu heim til þín.

Við forsætisráðherra vil ég segja þetta:

Þetta gerist alltsaman á þinni vakt, þú ert veizlustjórinn. Sjáðu sóma þinn í að segja þig frá þessu bankasöluhneyksli og rifta sölunni.

Ef nýja stjórnarskráin væri nú í gildi frekar en í gíslingu gerspilltra stjórnmálamanna hefði þetta hneyksli trúlega ekki komið upp því þá hefðu þau vitað að þau mættu ekki halda kaupendalistanum leyndum. Þau reyndu að leyna listanum, en tilraunin mistókst. Þess vegna stöndum við hér.

Endurglæpavæðingu bankakerfisins verðum við að stöðva, strax.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Edda Ögmundsdóttir skrifaði
  Þakka fyrir sannorða grein
  0
 • Sigmundur Guðmundsson skrifaði
  ALLIR ættu að lesa bókina "Hinir ósnertanlegu" !!!!

  http://herdubreid.is/hinir-osnertanlegu/

  "130 milljarðar voru afskrifaðir hjá fjölskyldufyrirtækjum Bjarna Benediktssonar"

  "Benedikt Sveinsson tók yfir á annað hundrað milljónir af einkaskuldum sonar síns, meðal annars vegna veðmála"

  "Í miðju Hruni var Bjarni ennþá að færa stórfé úr landi til að borga fyrir fasteignabrask á Flórida"

  Síðar var Bjarni Ben gerður að fjármálaráðherra í þrígang !!!
  3
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu