Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Kosningaklúðrið og nýja stjórnarskráin

Í grein hér í Stundinni 19. júlí 2020 rifjaði ég upp hversu ríkt tillit Stjórnlagaráð tók með glöðu geði til gamalla og góðra tillagna sjálfstæðismanna um breytingar á stjórnarskránni.

Tillögum sjálfstæðismanna árin eftir lýðveldisstofnunina 1944 lýsti Bjarni Benediktsson síðar forsætisráðherra vel á fundi í landsmálafélaginu Verði í janúar 1953 (sjá Morgunblaðið 22.-24. janúar 1953, endurprent í ritgerðasafni Bjarna, Land og lýðveldi 1965, I., bls. 177–202).

Ég rakti í grein minni í fyrra tillögur sjálfstæðismanna lið fyrir lið og lýsti því hvernig Stjórnlagaráð hefði komið þeim haganlega fyrir í frumvarpi sínu, þar á meðal tillögum þeirra um ákvæði um forsetakjör, staðgengil forseta í förföllum, afnám Landsdóms, skipun ráðherra og lausn þeirra, gjaldtöku aðeins skv. fjárlögum, Hæstarétt, mannréttindi, sjálfstjórn sveitarfélaga, kosningalög (jafnt vægi atkvæða!) og einfaldari endurskoðun stjórnarskrárinnar.

Ég gaf mér ekki rúm í stuttri blaðagrein til að rekja allar 20 breytingatillögur sjálfstæðismanna og sleppti því nokkrum þeirra úr upptalningunni, einkum þeim sem höfðu síðar ratað inn í lög og einni enn um úrskurði um lögmæti kosninga sem Stjórnlagaráð tók einnig upp í frumvarp sitt.

Bjarni Benediktsson lýsir tillögu sjálfstæðismanna um úrskurði um lögmæti kosninga svo að „hæstarétti í stað Alþingis verði falið að skera úr um kjörgengi þingmanna og lögmæti kosninga. Veitir slíkt aukna tryggingu fyrir réttdæmi í þessum efnum.“

Stjórnlagaráð orðaði tillögu sína svo:

„Alþingi kýs landskjörstjórn til þess að úrskurða um gildi forsetakosningar, kosninga til Alþingis svo og þjóðaratkvæðagreiðslna. Landskjörstjórn gefur út kjörbréf forseta og alþingismanna og úrskurðar hvort þingmaður hafi misst kjörgengi. Um störf landskjörstjórnar fer eftir nánari fyrirmælum í lögum. Úrskurðum landskjörstjórnar má skjóta til dómstóla.“

Væri nýja stjórnarskráin orðin að lögum svo sem hún hefði átt að verða eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 væri nú engum vafa undirorpið að hægt væri að vísa ágreiningi um lögmæti alþingiskosninga og kjörbréfa til innlendra dómstóla sem bæri að úrskurða um ágreininginn.

Hvað sem því líður er víst að hægt er að skjóta slíkum ágreiningi til Mannréttindadómstóls Evrópu þar eð Ísland hefur tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar um mannréttindi fyrir augliti umheimsins, skuldbindingar sem trompa úrelt innlend lög og úrelta stjórnarskrá. Svo er fyrir að þakka hnattvæðingu laga og réttar sem er einmitt ætlað að vernda almenning gegn lögleysum innlendra stjórnarvalda þegar á þarf að halda.

Íslendingar geta ekki verið þekktir fyrir að reyna að skjóta sér undan fjölþjóðlegum skuldbindingum sínum.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Hjörtur Hjartarson skrifaði
    sumir stjórnarþingmenn hafa reynt að klína norðvestur klúðrinu og eftirmálum þess á úrelta stjórnarskrá, en stjórnarþingmenn bera einmitt ábyrgð á að ekki hafi verið gerðar umbætur þar á
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni