Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Blóðvöllur

Úkraína er stórt land, næstum sex sinnum stærra en Ísland að flatarmáli, og á sér mikla og langa sögu sem markast meðal annars af því að úkraínska þjóðin hefur aldrei fengið að búa við boðlegt stjórnarfar, ekki frekar en Rússar.

Rússar hafa löngum neytt aflsmunar gagnvart Úkraínu, ekki aðeins með harðstjórn og tilheyrandi áþján þegar landið var hluti Sovétríkjanna 1922-1991, þar með talin skipuleg hungursneyð 1932-1933 sem kostaði milljónir Úkraínumanna lífið, heldur einnig nú aftur með árásarhernaði á fölskum forsendum þótt Úkraína hafi tekið sér sjálfstæði við hrun Sovétríkjanna 1991.

Innrásinni virðist ætlað að beygja Úkraníumenn til undirgefni við Rússa. Pútín forseti Rússlands viðurkennir í rauninni ekki tilverurétt Úkraínumanna sem sjálfstæðrar þjóðar með eigið land, sögu og tungu líkt og Kínverski kommúnistaflokkurinn viðurkennir ekki heldur Taívan sem sjálfstæða þjóð. Þessi skoðun Pútíns forseta er ekki bundin við hann heldur er hún útbreidd ef ekki allsráðandi meðal yfirstéttar Rússlands.

Þessi skoðun er ekki heldur bundin við Úkraínu, heldur markar hún einnig að einhverju leyti afstöðu Pútíns og yfirstéttarinnar nú sem fyrr til Eystrasaltsríkjanna. Rauði herinn felldi fjórtán Litháa og særði mörg hundruð í örvæntingarfullri tilraun til að koma í veg fyrir útgöngu Litháens úr Sovétríkjunum 1991.

Það gerðist þó ekki fyrr en 2016 að saksóknari í Litháen ákærði 67 Rússa, þar á meðal varnarmálaráðherrann fyrrverandi, fyrir brot gegn mannkyni og stríðsglæpi í „réttarhaldi aldarinnar“ sem Litháar kalla svo, og voru flestir þeirra fundnir sekir. Ráðherrann var dæmdur til tíu ára fangavistar, en Rússar neituðu að framselja hann. Fyrir frumkvæði Jóns Baldvins Hannibalssonar þáverandi utanríkisráðherra varð Ísland fyrst fullvalda ríkja til að viðurkenna sjálfstæði Litháens 1991.

Vytautas Landsbergis, fyrsti forseti Litháens eftir sjálfstæðistökuna 1991, lýsir réttarhaldinu sem einu allra fyrsta réttarhaldinu þar sem kommúnisminn sjálfur, hugmyndafræði hans og framkvæmd, er dreginn fyrir dóm og getur orðið fyrirmynd handa Rússum sjálfum, segir Landsbergis. Mikhail Gorbachev, síðasti aðalritari Sovézka kommúnistaflokksins, sver af sér allar sakir, en ekki hefur enn tekizt að sanna hver fyrirskipaði árás Rauða hersins og morðin fjórtán í Vilníus 1991. Ég man lítilsvirðinguna gagnvart Eystrasaltsríkjunum sem skein úr munni Gorbachevs þegar þau voru að reyna að kasta af sér hlekkjunum. Hann var settur til hliðar.

Víst er það rétt að í Úkraínu er ýmislegt og hefur verið fjarri því að vera eins og það á að vera. En nú er ekki rétti tíminn til að tala um það. Ef drykkjumaður verður fyrir stórfelldri líkamsárás, þá fer jafnan vel á að geyma frekari bindindispredikanir yfir honum þar til hann hefur jafnað sig eftir árásina. Sama máli gegnir nú um Úkraínu. Ég ætla því ekki að svo stöddu að eyða orðum að spillingunni þar sem er mikil, þótt hún sé nú samkvæmt mælingum Transparency International nokkru minni en hún var fyrir tíu árum og einnig ívið minni en í Rússlandi.

Þegar Úkraína tók sér sjálfstæði 1991 var mannfjöldinn þar 52 milljónir. Nú er hann 44 milljónir. Átta milljónir manns hafa horfið til annarra landa síðustu 30 ár (og það áður en flóttamannastraumurinn hófst eftir innrás Rússa fyrir viku). En það má kalla eðlilegt eða að minnsta kosti skiljanlegt í landi sem losnaði undan langvarandi oki erlends valds og meðfylgjandi farbanni.

Svipað gerðist í Eystrasaltríkjunum. Samanlagður fólksfjöldi Eistlands, Lettlands og Litháens hefur skroppið saman um fjórðung frá því að þau endurheimtu sjálfstæði sitt 1991, eða úr átta milljónum manns í sex. Sumir líkja fólksfækkuninni við blóðtöku, en aðrir fagna því að allt þetta fólk skuli hafa haft tök á nýta sér nýfengið ferðafrelsi. Skiptar skoðanir um þessa fólksflutninga kallast á við ólíkar meiningar um mannfækkun í sveitum.

Hvað sem því líður búa öll Eystrasaltlöndin þrjú nú við betri lífskjör en Rússland eins og þau eru mæld með kaupmætti landsframleiðslu á mann. Þau stungu Rússland af.

Sumir gera lítið úr þessum árangri Eystrasaltsríkjanna og halda því fram að fjárstyrkir Evrópusambandsins til þeirra séu lykillinn að auknum kaupmætti. Hitt er þó sönnu nær að aginn og hugarfarið sem fylgja aðild að ESB, krafan um og þörfin fyrir að taka upp betra og heilbrigðara búskaparlag með lýðræði og mannréttindi að leiðarljósi eru lykillinn að velgengni þessara landa síðan þau endurheimtu sjálfstæði sitt 1991.

Myndin sýnir þróun kaupmáttar þjóðartekna á mann í Rússlandi, Hvíta-Rússlandi og Úkraínu, sem er aðeins hálfdrættingur á við Rússland. Takið einnig eftir því að Rússland hefur að heita má staðið í stað í efnahagslegu tilliti frá 2012 og tekið sáralitlum framförum frá 2007. Úkraína hefur staðið í stað frá 2007 og Hvíta-Rússland frá 2012. Ekki bara það: Úkraína er eina landið í þrenningunni þar sem kaupmáttur landsframleiðslunnar 2020 var minni en hann var við hrun Sovétríkjanna 1991. Í því ljósi þurfum við að skoða áhuga almennings og stjórnvalda í Úkraínu á aðild að ESB.

Heimild: Alþjóðabankinn.

Það er að vísu annað mál, en eins og ég benti á í grein minni Verðbólgan birtist aftur hér í Stundinni um daginn (19. febrúar), þá var kaupmáttur landsframleiðslu á mann á Íslandi minni 2020 en hann var 2007.

 

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni