Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Lögfestum þjóðarviljann

12

Síðustu daga hef ég að marggefnu tilefni rakið mörg dæmi af íslenzkri stjórnmálaspillingu, enda er spilling nú í fyrsta sinn til umræðu í aðdraganda alþingiskosninga. Fjögur framboð til Alþingis af tíu mæla gegn spillingu: Píratar, Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Hin framboðin sex ýmist þræta fyrir spillinguna eða þegja um hana. Aðeins 22% fylgismanna Sjálfstæðisflokksins telja spillingu vera frekar mikið eða mjög mikið vandamál í íslenskum stjórnmálum borið saman við 53% til 94% stuðningsmanna annarra flokka (Framsókn 53%, Píratar 94%). Nýju stjórnarskránni er ætlað að skera upp herör gegn spillingu.

Lögfesting nýju stjórnarskrárinnar sem 67% kjósenda samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 og hafa ítrekað lýst óbilugum stuðningi við í skoðanakönnunum æ síðan myndi slá margar flugur í einu höggi. Hún myndi eins og hendi væri veifað tryggja jafnt vægi atkvæða og fullt gjald fyrir kvótann og jafnframt skapa skilyrði til að ráðast gegn rótum spillingarinnar ásamt ýmsum öðrum réttarbótum og aukinni umhverfisvernd. Fimm framboð af tíu mæla fyrir nýju stjórnarskránni: Píratar, Samfylkingin, Sósíalistaflokkurinn, Flokkur fólksins og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn. Hin framboðin fimm eru ýmist andvíg nýju stjórnarskránni eins og útgerðin hafi gleypt þau með húð og hári eða þau slá úr og í.

Tryggjum lögfestingu nýju stjórnarskrárinnar í kjörklefanum 25. september. Setjum spillingaröflin til hliðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni