Þessi færsla er meira en ársgömul.

Hlutleysi Austurríkis

Eftir síðari heimsstyrjöldina lýsti Austurríki yfir varanlegu hlutleysi og batt hlutleysið í stjórnarskrá. Heimamenn túlka hlutleysisyfirlýsinguna á tvo vegu. Sumir segja að Austurríkismenn hafi sjálfir átt frumkvæði að hlutleysisyfirlýsingunni, en aðrir segja að þeim hafi verið nauðugur sá kostur enda fór Rauði herinn ekki frá landinu fyrr en 1955, tíu árum eftir stríðslok. Í þessu felst að breyta þyrfti austurrísku stjórnarskránni til að opna landinu leið inn í Nató kysi austurríska þjóðin að fara þá leið. Ekkert slíkt stendur þó til að svo stöddu. Hlutleysið stóð auðvitað ekki í vegi fyrir inngöngu Austurríkis í ESB 1995 þótt Rússum væri þá ekki skemmt.

Finnar og Svíar lýstu einnig yfir hlutleysi eftir stríð. Svíar höfðu fylgt hlutleysisstefnu frá því snemma á 19. öld og hurfu ekki frá henni fyrr en 2009 þegar þeir gerðu ýmsa varnarsamninga við ESB og önnur Norðurlönd. Finnar teljast hafa verið hlutlausir síðan 1955 þegar Rauði herinn hvarf á brott frá Finnlandi og Finnar gengu í SÞ. Hvorki Svíar né Finnar hafa bundið hlutleysistefnu sína í stjórnarskrá. Þeir gætu því gengið í Nató ef þeir vildu án þess að breyta stjórnarskrám sínum fyrst og gengu báðar þjóðirnar ásamt Austurríki inn í ESB 1995. Innganga í Nató er nú rædd af meiri alvöru en áður í báðum löndum.

Og nú ræða menn austurrískt hlutleysi handa Úkraínu, jafnvel á samningafundum stríðandi fylkinga. Hugmyndin er sú að Úkraníumenn taki Austurríki sér til fyrirmyndar og lýsi yfir varanlegu hlutleysi, helzt í stjórnarskrá. En slík breyting er þeim vandkvæðum bundin að 2019 bættu Úkraínumenn í aðfaraorð stjórnarskrár landsins texta sem lýsir vilja til inngöngu í bæði ESB og Nató. Á það hefur verið bent að aðfaraorðin séu ef til vill ekki bindandi í sama lagalega skilningi og megintexti stjórnarskrárinnar og því þurfi kannski ekki að breyta stjórnarskránni. Á móti kemur að vilji Úkraínumanna til að ganga í ESB og Nató var skýr 2019 þegar stjórnarskrá landsins var breytt og hann er enn skýrari nú þegar þjóðin verst árásarher Rússa. Við bætist að margir efast um heilindi Rússa. Úkraína hefði trúlega verið fús til að lýsa yfir varanlegu hlutleysi líkt og Austurríkismenn hefðu Rússar óskað eftir því og sækja um inngöngu í ESB. Rússar þurftu því ekki að ráðast inn í Úkraínu.

Vonir standa nú til að hægt sé að semja frið á þessum austurrísku nótum. Úkraínumönnum þykir auðvitað hart að þurfa að semja við Rússa eftir allt sem á undan er gengið, en ríkisstjórn landsins virðist þó skilja að stundum þarf að gera fleira en gott þykir. Ógerlegt er að svo stöddu að spá fyrir um framhaldið. Úkraínumenn kysu helzt og flest okkar hinna vestar í álfunni að stríðinu lyki með stjórnarskiptum í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi frekar en í Úkraínu.

Hingað heim. Sjálfstæðismenn fóru fremstir í flokki þeirra sem héldu því fram eftir stríð að Íslandi dygði ekki aðild að Nató heldur þyrfti hér einnig að vera varnarlið. Kommarnir og margir aðrir sögðu nei, varnarþörfin er fyrirsláttur, þið viljið hafa herinn bara til að græða á honum. Íhaldið hrópaði að kommunum á móti: Rússadindlar! Þetta reyndist þó rétt hjá kommunum eins og kom á daginn þegar Bandaríkin hurfu með sveitir sínar frá Íslandi 2006 gegn mótmælum ríkisstjórnarinnar. Þá reyndist ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2007 ekki hafa neina áætlun til vara um varnir landsins, ekkert plan B. Ísland hefur því verið varnarlaust frá 2006 sem er einsdæmi um fullvalda ríki í okkar heimshluta ef Kostaríka er undan skilin.

Ekki bara það. Varla hafa menn gleymt því þegar seðlabankastjóri Sjálfstæðisflokksins reyndi að selja Ísland í hendur Pútíns eftir hrun til að komast hjá að þiggja bjargráð AGS — og forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins sagði ekki múkk. Skjölin eru til.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni