Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Umsögn um ríkistunguákvæði

Tilburðir þingflokka við endurskoðun stjórnarskrárinnar afhjúpa fyrirlitlega spillingu Alþingis eina ferðina enn.

Fyrst var auðlindaákvæði sem 83% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012 úrbeinað í þeim auðsæja tilgangi að festa í sessi óbreytt ástand fiskveiðistjórnarinnar til að tryggja hag útvegsmanna og erindreka þeirra meðal stjórnmálamanna gegn vilja fólksins í landinu.

Þá voru umhverfisverndarákvæðin í frumvarpi Stjórnlagaráðs frá 2011 sem 67% kjósenda lýstu sig fylgjandi í þjóðaratkvæðagreiðslunni með líku lagi veikt og þynnt.

Nú tekur steininn úr þegar þingflokkar koma sér saman um nýtt ákvæði um íslenzku sem ríkismál Íslands, atriði sem enginn ágreiningur hefur verið um. Stjórnlagaráð valdi tungunni hinn virðulegasta stað í nýju stjórnarskránni í aðfaraorðunum sem leggja línurnar að öllu sem á eftir kemur. Þau hefjast svo:

"Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu."

Með þessu móti var talið óþarft að hafa sérstakt ákvæði í frumvarpinu um tunguna.

Ákvæði 6. greinar um jafnræði hnykkir á stöðu tungunnar en þar segir: "Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti." Í þessu felst vernd tungunnar einnig sem táknmáls, sem og réttarvernd þeirra sem eiga sér önnur móðurmál.

Tillaga þingflokkanna um nýja grein hljóðar svo: "Íslenska er ríkismál Íslands og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda. Íslenskt táknmál er tungumál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Skal ríkisvaldið styðja það og vernda."

Þessi tillaga er óþörf enda bætir hún engu efnislega við frumvarp Stjórnlagaráðs sem lagt var í dóm kjósenda 2012. Tillögunni er bersýnilega ætlað að slá ryki í augu fólksins í landinu með því að búa til ágreining sem enginn hefur verið um þetta atriði til að dreifa athyglinni frá spilltri þjónkun Alþingis við harðsvíraða sérhagsmunahópa, einkum í sjávarútvegi.

Framferði Alþingis í stjórnarskrármálinu allar götur frá 2013 lýsir grófu virðingarleysi þingmanna gagnvart lýðræðislegum stjórnarháttum og þeim 115.890 kjósendum sem greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem Alþingi efndi til 2012. Framferði Alþingis lýsir einnig grófu virðingarleysi þingmanna gagnvart stjórnarskrárferlinu sjálfu sem hófst 2009 og hefur vakið athygli og aðdáun víða um heim sem eitt lýðræðislegasta ferli við endurskoðun stjórnarskrár í gjörvallri sögu stjórnskipunarréttar.

Alþingi grefur með framferði sínu undan trausti og þá um leið undan áliti Íslands úti í heimi.

Birt í samráðsgátt stjórnarráðsins 18. maí 2020.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni