Vinnur Clinton?
Ekki verður annað sagt en að kosningabarátta Trumps gangi illa.
Hann hélt sig geta grætt á því að þykjast mýkjast í innflytjendamálum en uppskar bara reiði stuðningsmanna á borð við Söru Palin og Önnu Coulter. Hillary hefur nokkuð stöðugt 5-7% forskot og dreifast atkvæðin með þeim hætti að hún er af Real Clear Politics talin sæmilega örugg með 272 kjörmenn. Lítum á dreifingu kjörmanna í kosningunum 2012: Obama fékk 332 kjörmenn, Romney 206 (sjá kort Real Clear Politics). Ef litið er á kortið má sjá að Hillary gæti tapað fimm af þeim ríkjum sem Obama vann en unnið samt: Óhió, Flórída, Maine, Nevada, og Iowa. Þá fengi hún 271 kjörmann, Trump 269. Hún gæti meir að segja unnið þótt hún fengi færri atkvæði en Trump. En munið að tveir og hálfur mánuður er heil eilífð í pólitík. Julian Assange gefur í skyn að hann hafi undir höndum mjög skaðvænlegar upplýsingar um Hillary sem hann hyggst gera heyrinkunnar innan skamms. Spurningin er hve mikið er að marka hann. Honum virðist uppsigað við núverandi stjórn BNA og vill kannski hefna sín á flokksystur Obama. Alla vega hefur Hillary marga fjöruna sopið og væri vís með að snúa sig út úr mögulegum wikileaks-vanda. Það þótt Assange og kó hefðu í raun og veru sannanir fyrir einhverjum misgjörðum hennar. Hún er vissulega ekki nógu öflugur frambjóðandi, tækifærissinnuð og hefur sýnt dómgreindarleysi í tölvupóstsmálum. En mjög margir Bandaríkjamenn eru beinlínis hræddir við Trump, því er líklegt að Hillary vinni.
Af tvennu illu er hún skárri kosturinn.
Athugasemdir