Þessi færsla er meira en 2 ára gömul.

Úkraína og Þórarinn Hjartarson

Játað skal að ég var ögn ósanngjarn í garð  Þórarins Hjartarsonar  í nýlegri færslu. Ég sagði að hann hefði lofsungið Pútín með sama ákafa og ýmsir hægriöfgamenn en Þórarinn er  langt til vinstri.

Þórarinn og Pútín.

Það er orðum aukið. Réttara er að hann ber blak af Pútín og reynir að gera Vesturlönd ábyrg fyrir innrásinni (sem hann reyndar fordæmir).

Hann staðhæfir að Pútín hafi ekki haft áhuga á að fara í stríð við Úkraínu!!!!!!! Bíddu við, hvers vegna hefur Pútín vart getað opnað skoltinn án þess að tala Úkraínu niður og  segja þjóðina rússneska og landið gerviland?

Hvers vegna hefur hann safnað ógrynni fjár í sarpinn til að verjast mögulegum refsiaðgerðum nema af því að hann hefur lengi haft innrás í huga?

Fé þessu hefði verið betur varið til að bæta kjör fátækra Rússa, er ekki sósíalistinn Þórarinn fátæklinganna megin í tilverunni?

Hann skrifar  í illa duldum hrifningartóni um að Pútín hafi náð tökum á olígörkum,  reist Rússland við og hætt þjónkun við Bandaríkin.

Ekki eitt orð um að mannfýlan er orðin hreinræktaður einræðisherra,  sem ber ábyrgð á stríðsglæpum, ekki bara í Úkraínu heldur líka í Tséténu og Sýrlandi.

Þórarinn segir að Rússar veiti Sýrlendingum „duglegan  stuðning“. Ekki ein setning um að dugnaðurinn fólst í því að leggja Aleppó algerlega í rúst og styðja einræðisherrann og fjöldamorðingjann Assad.

Ekkert um það hvernig Pútín og honum vinveittir ólígarkar hafa látið greipar sópa um auðæfi Rússlands. Í  ævisögu Pútíns eftir rússnesku blaðakonuna Masha Gessen er vitnað í speking sem áætlaði árið 2007 að eigur Pútíns næmu 40 milljörðum dollara.

Finnst sósíalistanum Þórarni slík auðsöfnun á kostnað almennings vera í himnalagi?  Til að bæta gráu ofan á svart  segir Þórarinn  að hvorugan stríðaðilann í Úkraínu  beri að styðja.

Vinstrimaðurinn Þórarinn vill sem sagt ekki að við styðjum baráttu einhuga þjóðar fyrir frelsi og sjálfstæði. Hafi einhvern tímann verið til sannur alþýðuher þá getur hann að líta í Úkraínu. 

Gagnstætt meintum alþýðuher Maó Zedong, sem var kúgunartæki kommúnískrar elítu,  en Þórarinn var löngum í félagsskap Maóista.

Vill ekki Þórarinn fara til fundar við úkraínska flóttamenn og segja þeim að barátta þeirra hafi ekki verið neitt skárri en innrás rússneska morðhersins?

Vill hann ekki líka segja þeim að Úkraínuher og hinn fasíska Azovsveit hafi háð stríð gegn austurhéröðunum?

Pútín segir það og þá er það satt. Það getur ekki verið satt að rússnesku fasi..ég meina alþýðulýðveldisherinn í Donbass herji á Úkraínu og sé leppur Moskvuvaldsins. Og að það sé einræði á þessum rússnesku yfirráðasvæðum, gagnstætt restinni af Úkraínu.

Svo minnst sé á fasista þá er sagt að Wagnerherinn rússneski sé skírður í höfuðið á tónskáldinu vegna þess að hann var í uppá haldi hjá Hitler.

Sagt er líka að téður her taki þátt í innrásinni.

Hvað Donbass varðar þá munu tvær milljónir manna hafa flúið þaðan til annarra héraða  Úkraínu. Má ekki segja að flóttafólkið greiði með fótunum atkvæði gegn aðskilnaðarsinnum?

NATÓ aftur.

Hvað um það, Þórarinn skrifar um sum mál af talsverðri þekkingu og er eitt og annað sem hann segir umhugsunarvekjandi.

Hann heldur því fram að Bandaríkin hafi ávallt notað NATÓ sem tæki til heimsveldisbrölts og vitnar í Pentagon-gögn því til staðfestingar.

Það er vissulega umhugsunarvekjandi.  En í fyrsta lagi er engan veginn gefið að Pentagongögnin lýsi  stefnu Bandaríkjanna, kannski lýsa þau bara óskum Pentagonmanna.

Í fjömiðjusamfélagi eins og því bandaríska kljást ýmsir hópar um völd og áhrif, þingið, forsetinn, herinn, fjársterkir lobbíistar og venjulegir kjósendur. Þeir síðarnefndu kusu yfir sig forseta, Donald Trump, sem var ekki beint í því að efla NATÓ, öðru nær. 

Í öðru lagi hefur hið meinta heimsveldisbröl  ekki tekist ýkja vel þar eð langur vegur er frá því að Bandaríkin ráði öllu í NATÓ.

Hefðu vilji þeirra náð fram að ganga þá væri Úkraína löngu gengin í NATÓ. Frakkar og Þjóðverjar vildu það ekki og fengu vilja sínum framgengt.

Þá hefðu  NATÓ-ríkin Tyrkland og Ungverjaland ekki  neitað að taka þátt í refsiaðgerðunum gegn Rússlandi.  Drottnari Ungverja, Orban, heimilar ekki flutning vopna til Úkraínu gegnum ungverskt land enda kallar þessi dverg-Pútín Zelenskí  "óvin sinn".

Einnig hefðu Frakkar og fleiri NATÓ ríki ekki getað gagnrýnt innrásina í Írak. 

Af hverju geta hinir meintu drottnarar NATÓ, Kanarnir, ekki neytt Tyrkland, Frakkland  og Ungverjaland til að dansa eftir sinni pípu?

Og ef Bandaríkin drottna yfir öðrum NATÓ ríkjum má spyrja hvers vegna þeir „leyfðu“ Moskvukommum að setjast í ríkisstjórn á Íslandi árið 1956,  stjórn sem ætlaði að skvera Kanahernum úr landi.

Hvers vegna komst de Gaulle upp með að draga franska herinn út úr NATÓ? Hvar var alveldi Ameríku þá?

Þórarinn vitnar grimmt í herská skrif Brzezinski rétt eins og hann hlyti að vera fulltrúi bandarískra stjórnvalda.

Þegar Brzezinski segir árið 1997 að mikilvægt sé að koma í veg fyrir að nýtt heimsveldi rísi í Evrasíu kann hann að hafa í huga slæma reynslu af yfirgangsveldum á því svæði, rússneska keisaradæminu og Sovétríkjunum.

Það er ekki hægt að gefa sér að hann hafi verið að mæla með heimsvaldastefnu á þessum slóðum. 

Kannski var hugmynd hans ekki arfaslæm, kannski hefðu Kanar getað komið í veg fyrir hið pútínska heimsvaldasinnaða einræði hefðu þeir farið að ráðum Brzezinskis.

Þórarinn tuðar einhver ósköp um meinta útþenslustefnu NATÓ sem auðvitað sé ástæðan fyrir innrás Rússa.

Hann virðist ekki skilja að ríki Mið- og Austur-Evrópu vildu ólm ganga í NATÓ vegna skiljanlegs ótta við Rússa.

Þótt einhverjir vestrænir ráðamenn hafi sagt Rússum árið 1991 að NATÓ yrði ekki stækkað þá höfðu þeir ekkert umboð til þess, NATÓ ríkin verða að samþykkja  einróma að veita nýjum löndum aðild.

Það er ekki einu sinni víst að James Baker, utanríkisráðherra BNA, hafi lofað þeim þessu. Bandarísk fræðikona mun segja í ný útkominni bók að Baker hafi bara spurt hvort Rússar væru tilbúnir til að samþykkja sameiningu þýsku ríkjanna gegn því að NATÓ færði ekki út kvíarnar. 

Hún mun segja að Gorbasjov staðfesti þetta. 

Og eins og áður er fátt sem bendir til þess að Bandaríkin ráði öllu í NATÓ  þótt valdamikil séu. Ef þau ráða ekki ríkjum Vestur-Evrópu má telja ósennilegt að þau hafi getað þvingað hin fornu kommúnistaríki til að ganga í bandalagið.

Bara ef um slíka þvingun hafi verið að ræða er vit í að tala um útþenslu NATÓ. Sönnunarbyrðin hvílir á Þórarni.

Sönnunarbyrðin hvílir líka á honum er hann geipar um staðgenglastríð, hvaða sönnun hefur hann fyrir því að Úkraína gangi erinda Bandaríkjanna?

Ef þau gátu ekki komið í veg fyrir að kommúnistar tækju sæti í íslenskri ríkisstjórn og de Gaulle dragi sig út úr NATÓ má telja ólíklegt að þau geti sagt  Úkraínumönnum fyrir verkum.  

Hann fordæmir Maidan-uppreisnina enda Pútín henni andsnúinn. Ekki eitt orð um að Janúkovitsj var gjörspilltur valdníðingur sem hafði fyrirgert trausti þjóðarinnar, líklega hefði hann komið á einræði ef alþýðan hefði ekki risið gegn honum.

Þórarinn segir hróðugur að bandarískur ráðherra hafi margheimsótt Úkraínu á meðan á Maidan-uppreisninni stóð og dælt fé í uppreisnarmenn. Þetta telur Þórarinn sönnun um heimsveldasinnuð áform Kana.

En getur hann sannað það? Getur verið að Bandaríkin hafi einfaldlega viljað styðja lýðræðisöflin? Nú eða verið sumpart lýðræðisins megin, sumpart viljað efla eigin völd.

Víkjum aftur að NATÓ.   Spyrja má hvers vegna bandarískum  hermönnum og herstöðvum hefur fækkað svo mjög í Evrópu á stækkunarskeiðinu, minnumst þess að herstöðin í Keflavík var lögð niður 2006.

Og hvers vegna eru útgjöld Evrópuríkjanna til varnarmála svona lítil? Hafi NATÓ ætlað sér að gera Rússum mein þá hefði hið gagnstæða verið uppi á teningnum.

Einnig vita NATÓ leiðtogar að Rússar hafa gjöreyðingarvopn, að þrýsta hressilega á þá  getur þýtt kjarnorkustríð.  

Flest bendir til þess  að NATÓ standi undir nafni, sé varnarbandalag, ekki árásarfélag.

Vissulega má velta fyrir sér hvort Serbía,   Afganistan og Líbía segi aðra sögu. NATÓ hóf loftárásir á Serbíu án umboðs S.Þ. og tók þátt í Afganistan-stríðinu.

En loftárásirnar komu alltént í veg fyrir þjóðarbrotshreinsun og áttu þátt í að fella einræðisherra. Þátttakan í Afganistan-stríðinu var réttlætt með því að þaðan hefði verið ráðist á eina aðildarþjóðina.

Alla vega hafði þessi þátttaka þær jákvæðu afleiðingar að staða kvenna batnaði mjög (skylt er að gera þess að innrás Sovétmanna hafði líka þessar jákvæðu afleiðingar).

Um loftárásirnar á Líbíu er það að segja að þótt markmiðið kunni að hafa verið göfugt þá voru afleiðingarnar skelfilega. Alla vega hljóta þessar aðgerðir NATÓ að draga úr trú manna á að það sé varnarbandalag.

En ég tel að aðgerðirnar séu undantekningar sem sanni regluna, alla vega bendir ekkert til þess að stækkun NATÓ ógni Rússlandi. Vesturveldin hafa vissulega sýnt Rússum hroka og jafnvel tillitsleysi en það er ekki það sama og hernaðarógn.

Þórarinn líkir viðbrögðum Rússa við úkraínskum  NATÓ tilburðum við möguleg viðbrögð Bandaríkjamanna við því að Mexíkó og Kanada gengu í „austræna bandalagið og lúta herstjórn þess“. Þeir myndu ekki sætta sig við það fremur en Rússar við NATÓ inngöngu Úkraína, segir hann hróðugur.

En samlíkingin er villandi því eins og áður segir er ekkert sem bendir til þess að NATÓ ríkin lúti bandarísku valdi.

Eins og segir í fyrri færslu hafa Mexíkóar oft ögrað Bandaríkjamönnum án þess að þeir brygðust verulega illa við, t.d. þegar Lazaro Cardenas forseti þjóðnýtti bandarísk olíufyrirtæki (skylt er að geta þess að Kanar óðu ansi hressilega yfir Mexikóa fyrir mexíkósku byltinguna en það breyttist síðar).

Í dag neitar núverandi vinstristjórn í Mexíkó að taka þátt í efnahagsaðgerðunum gegn Rússlandi. Er þetta bandarísk leppstjórn?

Eins og segir í fyrri færslum  er utanríkisstefna Bandaríkjanna engan veginn hafin yfir gagnrýni, ekki skal innrásin í Írak varinn, hvað þá sprengjuregnið yfir Víetnam.

Hér skal vísað til fyrri færslna þar sem talinn er kostur og löstur á bandarískri utanríkispólitík. Einnig leitaðist ég við  að hrekja kommakenninguna um hana sem heimsvaldasinnaða þótt margt megi ljótt um hana segja.

Ég benti á að Bandaríkin hefðu getað gert Vestur-Evrópu og Japan að leppríkjum sínum eftir síðari heimsstyrjöldina en gerðu það ekki.

Og svínbeygt Breta, Frakka og Þjóðverja eftir þá fyrri en létu það eiga sig og hófu einangrunarstefnu, skrítið heimsveldi. Það að Bandaríkin verða heimsveldi eftir 1941 má hugsanlega skýra sem viðbragð við yfirgangi nasista og Sovétríkjanna.

Það er alla vega ekki verri skýring en hvaða marxíska heimsvaldakenning sem vera skuli.

Talandi um slíkar kenningar þá lumar Þórarinn á einni laufléttri samsæriskenningu: Allt Úkraínumálið sé  bara sjónarspil og liður í tilraun hinna voða vondu Kana að spilla fyrir samvinnu Rússa og Þjóðverja en hún gæti gert út um  tilraunir þeirra til að ná tökum á Evrasíu.

Þjóðverjar séu keppinautar Bandarikjamanna á efnahagssviðinu og því vilji hinir djöfullegu Kanar veg þeirra sem minnstan (þetta gefur hann í skyn en segir ekki beinum orðum).

En hvers vegna stuðluðu Kanar þá að enduriðnvæðingu Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöldina?

Á hvaða sviðum keppa þeir? Ekki á hátæknisviðinu, þar hafa Bandaríkin yfirburði. Ekki á sviði trausts og endingargóðs iðnvarnings, þar skákar enginn  Þjóðverjum. 

Meðan ég man: Hvar eru heimildirnar fyrir þessari samsæriskenningu? 

Ég gæti fullt eins staðhæft að innrás Rússa sé af efnahagstoga. Pútín vilji ná undir sig hinum frjósömu ekrum Úkraínu og neongasi sem mikilvægt er fyrir tölvuiðnað. Úkraína framleiðir 50% af öllu slíku gasi, væri ekki veigur í því fyrir einræðisherrann? Gæti hann notað það til að setja þumalskrúfu á Vesturveldin.

En ég staðhæfi þetta EKKI af þeirri einföldu ástæðu að ég hef engar sannanir fyrir þessu. Fremur en Þórarin. 

Meðan ég líka man: Ef allt Úkraínuvesenið er liður í heimsvaldabrölti Bandaríkjanna,  sem vilja ná tangarhaldi á Evrasíu, hvers vegna var Trump þá svona hliðhollur Pútín? 

Bandaríkin eru hið tvíbenta heimsveldi, upp á sitt besta vörður frelsis og lýðræðis, upp á sitt versta yfirgangsamt stórveldi. 

Þórarinn segir hróðugur að Bandaríkin hafi ráðist 55 inn í önnur ríki og talar eins og það sanni hve vond og heimsvaldasinnuð þau séu.

En innrásir og íhlutanir Bandaríkjamanna hafa verið af ýmsu tagi, sumar af hinu illa, aðrar af hinu góða.

Kanar björguðu Suður-Kóreumönnum frá þeim skelfilegu örlögum að verða þrælar kommúnistastjórnarinnar í Norður-Kóreu. En sprengdu hið síðarnefnda aftur á steinöld, Víetnam var ekki skár leikið.

Kanar björguðu Bosníumúslimum með því að láta sprengjuflugvélar sínar bomba vígahreiður Serba sem skutu á almenning í Sarajevó. 

Þeir losuðu Afgani við Talibanaeinræðið um tuttugu ára skeið, stuðluðu að bættri stöðu kvenna o.s.frv. S.Þ. sagði að 75% af mannfalli óbreyttra borgara í Afganistanstríðinu hefði verið af völdum Talibana.

Finnst Þórarni rangt að bæta stöðu kvenna og vernda óbreytta borgara gegn leyniskyttum?

Þórarinn frá Tjörn yrkir.

Þegar talið berst að sögu Rússlands breytist Þórarinn í sagnfræðiskáldið Þórarinn frá Tjörn. Hann skáldar um stríð Rússa síðustu tvö hundruð árin, þau  hafi verið varnarstríð.

Sovétríkin lögðu ríki austanverðrar Mið-Evrópu undir sig og gerðu að leppríkjum sem hlýddu þeim í einu öllu. Jafnvel þótt að tilgangur hafi verið sá að verjast innrás frá vestri (sem er engan veginn ljóst) þá voru þetta ekkert annað en beinir landvinningar heimsveldis.

Eða voru innrásirnar  í Afganistan, Tékkóslóvakíu og Ungverjaland varnarstríð?

Var útþensla keisaraveldisins á nítjándu öld varnarstríð? Keisararnir lögðu undir sig gífurleg landflæmi í Evrasíu, 1828 Armeníu og norðurhluta Aserbaísjan, 1858-60 hluta af Kínaveldi, 1866 Úsbekistan, 1876 Kirgistan og hluta af Tadsíkistan, restin var hertekin nokkrum árum síðar.

Eða var íhlutun keisarastjórnarinnar í Ungverjalandi 1849 varnarstríð? Frjálslyndir og þjóðernisstinnaðir Ungverjar höfðu risið gegn Habsborgarakeisara og voru við það að vinna sigur.

Þá bað keisarann starfsbróður sinn í Rússlandi um aðstoð. Rússar réðust inn í Ungverjaland og brutu niður uppreisnina. Þetta var aldeilis varnarstríð í lagi!

Rússar frömdu nánast þjóðarmorð á Sirkissum, þjóð sem bjó í Kákasusfjöllum, nálægt Svarta hafinu. Þeir réðust inn í lönd Sirkissa og háðu stríð við þá um hundrað ára skeið 1763-1864.

Þá ráku þeir restina af þjóðinni til Tyrklands, rússneskir landnemar tóku landið yfir. Þetta kemur m.a. fram í þætti Veru Illugadóttur um Sirkissastríðin á RÚV en einnig hér á Wikipediu

Að flytja heilu þjóðirnar nauðungarflutningum er gamall rússneskur ósiður. Stalín stundaði hann í gríð og erg, flutti meðal annars Krímtatara og Tséténa austur á bóginn, þá sem lifðu flutningana af.

Þannig varð Krímskaginn rússneskur, með nauðungarflutningum fyrri íbúa. Sumir segja líka að Rússavæðing Austur-Úkraínu hafi verið afleiðing af stefnu Stalíns.

Hvað um það,  var þátttaka Rússa í fyrri heimsstyrjöld bara varnarstríð gegn Miðveldunum eins og Þórarinn ímyndar sér?

Solsentísin segir svo frá í skáldsögunni Ágúst 1914 að stríðið hafi m.a. þjónað þeim tilgangi að leiða athygli rússnesks almennings frá ömurlegu ástand innanlands.

Einnig má ætla að Rússar hafi af gömlum vana haft landvinninga í huga. Sumir telja að þeir haft augastað á Konstantínópel (nú Istanbul) er þar sat patríark rétttrúnaðarkirkjunnar.  

Einhvers staðar las ég að enginn Rússakeisari hafi verið talinn maður með mönnum nema að þenja ríkið út, helst sem mest. 

Kannski er rússneska heimsveldið líka tvíbent, annars vegar er ofsóknarbrjálæðið, hins vegar ofbeldishneigðin og drottnunargirnin.

Alla vega er fáfræði sagnfræðingsins Þórarins um rússneska sögu átakanleg.

Lokaorð.

Bandaríkin og Vesturveldin eru hreint ekki hafin yfir gagnrýni en umfjöllun Þórarins um þau er meingölluð.

Hann er að mörgu leyti hallur undir einræðisherrann og fjöldamorðingjann Pútín og afsakar gjörðir hans með marxísku snakki.

Að marxismanum slepptum er boðskapur Þórarins all líkur boðskapi hægriöfgamanna á borð við Tucker Carlson og fylgismanna  hins þýska AfD.

Er Þórarinn stoltur af að vera sama sinnis og þessir hægriöfgamenn?

Er hann stoltur af því að hafa verið í félagsskap maóista sem tignuðu tvo af mestu fjöldamorðingjum sögunnar, Maó og Stalín?

En Þórarinn má eiga að hann er fróður um margt þótt hann fari misvel með fróðleikinn.

Honum er margt til lista lagt, hann hefur samið lög og sungið inn á kassettur, jafnvel plötur. Ég átti eitt sinn upptöku  með honum.

Hann söng bráðfallegt lag sitt við kvæði úr Gunnlaugs sögu Ormstunga sem hefst á orðunum „Brámáni skein brúna“. Ef til vill ætti hann að halda sig við tónlistina.

Lofsöngur hans um Pútín er rammfalskur.

Athugasemdir (4)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • Jónsson Höskuldur skrifaði
    Já .þeir lainast víða Staínistar og Rúsadindlarnir .

    Og oft er sttut í faismann hjá svoleiðis mönnum .

    Hvað Nató varðar er allt í laegi að gagnrina árasarstofnun pentagon en sem betur fer ráða BNA menn ekki öllu i verndarbandalaeginu Nató.

    þó svo að BNA noti Notó í sinni heimsvalda stefnu þíðir það ekki að hugmyndafraeði Nató sem varnarbandalag.

    Og þar ráða allar þjóðir jafnt eins og menn vita sem hugsa rökrétt .

    Er samt ekki neinn sérstakur aðdáandi Nató enfda ekki Nató sinni og verð aldrei ,

    Það er nefnilega ekki sanfaerandi að vera friðarsinni og vera HLINTUR NATÓ
    0
  • SVS
    Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
    Bætti þessu við: Einnig hefðu Frakkar og fleiri NATÓ ríki ekki getað gagnrýnt innrásina í Írak.

    Eins og segir færslunni halda þeir Þórarinn og Pútín að Bandaríkin drottni yfir NATÓ en ég kem með fjölda dæma um hið gagnstæða.
    0
  • Gerdur Ragnarsdottir skrifaði
    Frábær grein, þakka þér fyrir. ;)
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni