Stjúphvolpurinn og Feita fressið
Einhverjir lesenda muna sjálfssagt eftir sögunum um stjúphundinn sem ég sagði á eyjublogginu.
Nú er hann dauður en í stað hans kominn bæði stjúphvolpur og akfeitur köttur. Hér verður sagt frá fyrstu fundum þeirra félaga.
Stjúphvolpurinn: Ég er bara þriggja mánaða gamall og veit ekki mikið um lífið, (við köttinn) þú ert skrítnasti hundur sem ég hef séð, sílspikaður og segir „mjá“.
Feita fressið: Í fyrsta lagi er ég ekki feitur, ég er bara með þykkan feld. Í öðru er ég hreint ekki hundur heldur köttur, öðru nafni kisa.
Stjúphvolpurinn: Vá, ég hef aldrei heyrt talað um ykkur ketti. Segðu mér meir um ykkur.
Feita fressið: Uuuu…sko...við erum æðstu skepnur jarðarinnar og vorum skapaðir af kattagyðjunni Bastet sem skóp menn og hunda til að þjóna okkur. Auktu nú leti mína sporum og sæktu mér úrvals kattafóður, hvolpþjónn!
Stjúphvolpurinn: Ég hlýt að verða að gera þar sem þú býður, ó vitri köttur, ó vísa kisa.
Ég: Hlustaðu ekki á helvítis þvættinginn í kattaræskninu, þetta lýgur meir en það mígur. Engin skepna var sköpuð til að þjóna annarri skepnu, reyndu að skilja það (þó mátt þú þjóna mér endrum og eins).
Stjúphvolpurinn: Hmmm, ég vil helst ekki þjóna kisunni, þess vegna trúi ég því sem þú segir.
Feita fressið: Fokk!
Ég: Hættiði nú þessari vitleysu það er kominn matmálstími og þið fáið ágætis fóður báðir tveir. Gjöriði svo vel!
Stjúphvolpurinn og Feita fressið: Húrra fyrir fóðrinu!
Svo hámuðu þeir matinn í sig, stukku svo upp í sófa og lögðust hlið við hlið og fengu sér vænan blund.
Athugasemdir