Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Orrustan við Kadesh og kosningarnar vestanhafs

Orrustan við Kadesh og kosningarnar vestanhafs

Árið  1274 fyrir okkar tímatal: Faraó Egypta, Ramesses II, heldur með fjórum herfylkjum norður í átt að borginni Kadesh í Sýrlandi. Hann taldi Hittítakonunginn Muwatalli II orðinn helst til uppvöðslusaman á þeim slóðum þar sem leppríki Egypta var að finna. Njósnurum Muwatallis tókst að blekkja Egypta, telja þeim trú um að Hittítaherinn væri ókominn til Kadesh. Fullviss um það þeysti faraóinn norður, fremur fáliðaður,  en Hittítaherinn beið hans og hófst nú hin hrikalegasta fólkorrusta. Eftir mikið japl, jaml og fuður komst allur Egyptaher til Kadesh, þar átti sér stað mesta stríðsvagnaorrusta allra tíma. Áhöld eru um hvor hafi haft betur, flestir telja að þeir hafi skilið jafnir. Alla vega varð endirinn sá að Egyptar og Hittítar sömdu fríð og er friðarsamningurinn enn varðveittur. En Ramesses eignaði sér sigurinn eins og sjá má af lágmyndum á veggjum mustersins í Abu Simbel, þar gekk ég um fyrir nokkrum árum og var það áhrifamikil reynsla.

Orrustan vestanhafs

Sagan endurtekur sig einatt, Donald nokkur Trump eignar sér nú sigur í nýafstöðunum kosningum. En skynsamlegar er að segja að jafntefli hafi orðið, rétt eins og við Kadesh forðum. Sjaldgæft er að flokkur sitjandi forseta bæti við sig í Öldunmgardeildinni eins og repúblikanar gerðu nú. En sá hængur er á að þeir sigruðu aðallega í fámennum sveitaríkjum. Líklega þarf að telja á ný í Flórída, svo mjótt var á muninum. Og Beto O‘Rourke var hársbreidd frá því að fella fýlupokann Ted Cruz í Texas, hver hefði trúað því? Mikilvægar fyrir Demókrata er þó að þeir fengu meirihluta í Fulltrúadeildinni og geta notað hann til að þjarma að Trump (það gefur honum reyndar færi á að skella skuldinni á þá fyrir allt sem miður fer). Ekki ber heldur að vanmeta þá staðreynd að demókratar náðu sjö ríkisstjóraembættum af repúblíkönum, og hin þeldökka Stacey Abrams veitti frambjóðanda repúblikana í Georgíu harða samkeppni. Á móti kemur að repúblikanar unnu ríkisstjórnarkjör í tveimur stórríkjum, Óhio og Flórída.

Lokaorð

Í egypska safninu í Kaíró sá ég múmíu Ramesses II, hins mikla faraós. Trump minnir fremur á illgjarnan múmínálf en múmíu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni