"...og þá fyrst og fremst til Snorra..." Hannes G um Snorra S
Ég hef áður nefnt bók Hannesar Gissurarsonar Twenty-Four Conservative-Liberal Thinkers.
Í henni vinnur hann það glæsta afrek að gera frjálshyggjumann úr heilögum Tómasi frá Akvínó og heilagan mann úr frjálshyggjumanninum Hayek.
Snorri Sturluson kemur einnig við sögu en um hann orti nafni Hannesar, Hannes Hafstein:
„Þegar hnígur húm að þorra
oft ég hygg til feðra vorra
og þá fyrst og fremst til Snorra
sem framdi Háttatal“
Gissurarson yrkir kannski ekki beint um meginsnillinginn. Samt er hann býsna skáldlegur í umfjöllun sinni um hann.
Á blaðsíðu 14 í fyrra bindinu upplýsir hann lesandann um að Haraldur hárfagri hafi komið á nýjum sköttum í Noregi og allmargir Norðmenn flúið til Íslands undan skattpíningunni. Hvaða heimildir hefur Hannes fyrir þessu?
Núlátinn sérfræðingur í fornnorrænni sögu sagði mér að ekkert skattakerfi hafi verið til í Noregi á níundu öld enda landið vægast sagt vanþróað.
Hvorki Landnáma né Ari fróði nefna sköttun sem orsakavald þess að Ísland byggðist úr Noregi. Ari nefnir reyndar að Haraldur hárfagri hafi óttast að landauðn yrði ef menn héldu áfram að flytja úr landi og látið útflytjendur borga landaura (í fyrsta kafla Íslendingabókar).
Landnáma segir að Björn hinn austræni hafi ríkt yfir Suðureyjum en neitað að borga Haraldi skatt. Fyrir vikið hafi konungur hrakið hann frá völdum (Landnáma H13).
Sérfræðingur um forníslenskar bókmenntir sagði mér að goðsögnin um skattpíningu sem upphaf Íslands byggðar hafi orðið til á nítjándu öldinni. Snorra megi kannski túlka í þessa átt en það sé engan veginn öruggt.
Alla vega var mun skemur liðið frá landnámi er Ari reit Íslendingabók og því eðlilegar að treysta honum frekar en Snorra.
Reyndar er alls ekki víst að Haraldur hárfagri hafi nokkurn tímann verið til og hafi hann verið til er ekki gefið að hann hafi ríkt yfir öllum Noregi. Skrif Hannesar um þessi mál eru því ærið skáldleg.
Hannes kokgleypir þeirri staðhæfingu Snorra að Haraldur hafi skattpínt Norðmenn (bls 18). Snorri skrifar:
“Haraldr konungr setti þann rétt allt þar, er hann vann ríki undir sik, at hann eignaðist óðul öll ok lét alla búendr gjalda sér landskyldir, bæði ríka og óríka“ (í sjötta kafla Haraldar sögu hárfagra).
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir að djákni hafi verið á Myrká, drepist og gengið aftur með látum. Varla er blessaður maðurinn að ljúga á prenti.
Að gamni slepptu þá er samt ýmislegt bitastætt í umfjöllun Hannesar um Snorra. Alla vega er sú tilgáta hans umhugsunarvekjandi að Snorri hafi verið íhaldsamur fulltrúi þeirra sem andæfðu miðstýringu. Hvað það varðar mætti telja hann íhalds-frjálshyggjumann.
En kannski var hann bara talsmaður höfðingjaveldis, kannski er íhalds-frjálshyggja aðallega höfðingjaspeki.
Athugasemdir