Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Muhammad Ali og Viktor Kortsnoj

Í síðustu viku létust tveir miklir keppnis- og uppreisnarmenn,

hnefaleikakappinn Muhammad Ali (1942-2016) og skákmeistarinn Viktor Kortsnoj (1931-2016).

Ferill Alis er flestum kunnur, hann var sennilega snjallasti boxari allra tíma, ekki ofursterkur en firnataktískur. Dansaði undan höggunum og barði frá sér á réttu augnabliki. „Flaug eins og fiðrildi, stakk eins og býfluga“, eins og hann  sagði sjálfur. Kjaftfor með afbrigðum, orðheppinn  og uppreisnargjarn. Baráttumaður fyrir réttindum blökkumanna, neitaði að gegna herþjónustu í Víetnam þótt það kostaði hann heimsmeistaratitiliinn. Turnaðist til íslam m.a. til að sýna amerískum rasisma fingurinn.

Kortsnoj var ekki síður snjall á sínu sviði, sókndjarfur skákmaður sem naut sín best í þröngum stöðum, rétt eins og Ólafur Ragnar. Meistari gagnsóknanna, „flaug eins og fiðrildi, stakk eins og býfliuga“. Hann var hársbreidd frá heimsmeistaratitlinum, einn sterkasti þeirra skákmeistara sem aldrei hafa orðið heimsmeistarar. Kjaftfor eins og Ali, ég heyrði hann eitt sinn flytja smá tölu þar sem hann hallmælti einum keppinauta sinna ákaft. Lét ekki að stjórn fremur en Ali, var fyrsti meginstórmeistari Sovétríkjanna sem flúði land. Talaði engri tæpitungu um þetta skeflilega stórveldi. Ali fékk ekki að boxa árum saman vegna ofríkis alþjóðahnefaleikasambandanna, Sovétmenn gerðu allt sem þeir gátu til að koma í veg fyrir að Kortsjnoj fengi að tefla.

Baráttujaxlar eru fallnir frá, nú sitja þeir í himnaríki andófsmanna og skemmta hvor öðrum.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni