Marx 200 ára (f. 5 maí 1818)
Karl Heinrich Marx (1818-1883) var byltingarsinnaður hugsuður. Heimspekingarnir hafi hingað til aðeins reynt að skýra heiminn: „Það sem máli skiptir er að breyta honum“ (Marx (1968a): 328). Kenningar hans áttu ekki bara að lýsa heiminum, heldur líka vera tæki til að breyta honum með því að bylta samfélaginu.
Virkni og vinna
Maðurinn væri virkur í eðli sínu, í lífi sínu stundaði hann efnaskipti við náttúruna. Virkni birtist fyrst og fremst í vinnu. Hún sé ekki aðeins tæki manna til að lifa af heldur séu menningin og samfélagshættirnir afsprengi hennar. Eins og það væri ekki nóg segir Marx að vinna í víðri merkingu orðsins veiti okkur þekkingu á heiminum, t.d. með vinnu þeirri sem fram fer í tilraunastofum. Sannleikurinn sýnir sig í virkni (Marx (1968a): 325-328). Vinnan sé hreyfiafl sögunnar og skapi allan auð með fulltingi náttúrunnar. Mannkynssagan sé ekkert annað en sagan um það hvernig maðurinn hafi breytt heiminum og sjálfum sér í krafti vinnunar (Marx (1970): 197). Marx var hugsuður vinnunar.
Díalektík firringarinnar, firring díalektíkurinnar
Önnur meginstoð hinnar marxísku hugsunar er hugmyndin um díalektik sem Marx fékk í tannfé frá heimspekingnum Hegel. Díalektík má kalla „kenninguna um einingu andstæðna“. Hvarvetna (alltént í mannheimum) má sjá andstæður sem togast á, á endanum samþættast þær. Fyrst kemur tesa, svo andstæða hennar anti-tesa, samþættingurinn er synþesa sem einatt varðveitir það besta úr báðum. Sé efnisheimurinn tesan þá er virkni mannsins anti-tesan, þekkingin synþesan. „Allt er í heiminum hverfult“, allt er breytingum undirorpið en hið díalektíska mynstur megi finna í þeim öllum. Friedrich Engels hélt því fram að náttúruferli væru líka díalektísk (Engels (1970). Ekki er víst Marx hefði samþykkt það, reyndar hefði honum mögulega þótt lítið til koma minnar skissukenndu lýsingar á díalektíkinni. Þriðja meginstoðim er hugmyndin um firringu sem líka er ættuð frá Hegel. Marx hélt því fram að hingað til hafi vinnan verið firrt, því valdi sérhæfing vinnunar sem aftur hafi átt þátt í að skapa stéttskiptingu. Firringin birtist í því að menn sjái ekki hvernig einstök störf séu þættir í efnahagslegri heild sem einkennist af kúgun yfirstéttar á undirstétt. Verkaskiptingin milli starfa hugar og handa eigi þátt í að gera marga menntamenn að hughyggjumönnum. Þeir þekki ekkert annað en starf hugans og haldi því að hann sé almáttugur. Firringin birtist líka í framandleika, heimurinn og samfélagið virðast illskiljanleg, samfélagið virðist óbreytanlegt, kúgun undirstéttanna ill örlög sem engin geti gert neitt við. Vinnan í stéttarsamfélagi er firrt vegna þess að alþýða manna skapar auð sem ekki tilheyrir henni, hún er firrt afurðum sínum. Vinnan í slíku samfélagi efli firringuna með þeim hætti að stritandi alþýða skapi þann auð sem drottnar yfir henni. Sú yfirdrottnun sé forsenda firringarinnar (Marx (1970) og víðar). Virkni þyrfti með til að upphefja firringuna. Bylta yrði samfélaginu og verkalýðurinn gæti gert sósíalíska byltingu (t.d. Marx og Engels 2008: 223). Firringin er á vissan hátt upphaf að díalektísku ferli, ferli stéttkúgunar. Annað slíkt ferli (byltingin) mun eyða henni.
Efnishyggja og mannkynssaga
Fjórða meginstoðin er efnishyggjan með höfuðáherslu á þátt efnahagsins í sögulegri framþróun. Efnisheimur og efnahagslíf skapa og móta vitundina. Verund trompar vitund þótt vitundin geti líka haft viss áhrif á verundina (Marx (1968b): 238-243). Marx greindi milli efnahagsgrunnar og yfirbyggingar en ríkisvaldið og ríkjandi hugmyndir telur hann hluta af henni. Vitund okkar og menning séu afurðir efnahagslífs og efnisheims. Efnahagsgrunnurinn hafi tvo meginþætti, framleiðsluöfl og framleiðsluafstæður. Framleiðsluöfl eru tækni, náttúruauðlindir og atvinnuhættir, framleiðsluafstæður í megindráttum kerfi eignarhalds á framleiðslutækjum. Þegar til langs tíma er litið ákvarða framleiðsluöflin framleiðsluafstæðurnar og efnahagsgrunnurinn yfirbygginuna þótt margháttuð víxlhrif séu milli þeirra. Öll saga sé saga um stéttarbaráttu og ríkið aðallega tæki ríkjandi stétta (t.d. Marx og Engels (2008). Söguleg framþróun er díalektísk í eðli sínu, framleiðsluöflin eru tesan, framleiðsluafstæður anti-tesan, efnahagskerfið synþesan. „Ár vas alda“ þegar menn lifðu á steinaldarstigi í litlum samfélögum án ríkisvalds. Svo fátæk voru þessi samfélög að ekki var rúm fyrir yfirstétt sem lifði á vinnu annarra. Eftir nokkur millistig varð til samfélag sem byggði á þrælkun fjölda manns. Þrælaskipulagið skapað æði mikinn auð sem fámenn yfirstétt gat lifað á. Ríkisvaldið varð til enda sé það afurð stéttskiptingar. Að lokum hætti þetta skipulag að vera í samræmi við þróun framleiðsluafla og nýtt samfélag með nýjum framleiðsluafstæðum verður til, lénsveldið. En eins og aðrar samfélagsgerðir býr kerfi framtíðarinnar í lénsveldinu í kímformi. Þegar lénsveldið var ekki lengur í samræmi við framleiðsluöfl óx kapítalisminn og tók við af því. Í kapítalismanum eru kapítalistarnir tesan, verkamenn anti-tesan, synþesan er stéttlaust samfélag. Einnig er díalektisk mótsögn milli framleiðsluaflanna sem eru félagsleg í eðli sínu en framleiðsluhættirnir eru í mynd einkaeignakerfisins, synþesan er sósíalisminn. Til að gera langa sögu stutta þá mun kerfinu fyrr eða síðar taka að hnigna, sú hnignun mun birtast í æ aukinni samþjöppun auðmagns og æ dýpri kreppum. Verkalýðurinn mun að líkindum gera uppreisn, taka völdin og koma á sósíalismi þar sem verkamenn hafa völdin (Marx er ekki alveg viss um að þetta myndi gerast, kannski yrði heimurinn villimennsku að bráð). Það kerfi mun hverfast í ríkisvaldslausan kommúnisma þar sem allir menn stjórna efnahagslífinu í sameiningu (ríkisvaldið mun hverfa um leið og stéttirnar hverfa). Kommúnisminn mun verða allsnægtarsamfélag þar sem menn verða fyllilega frjálsir. Marx taldi þó að þetta þróunarmynstur hæfði fyrst og fremst vestrænum samfélögum. Í Austurlöndum hefði löngum verið við lýði asískir framleiðsluhættir sem urðu til í fljótasamfélögum. Í slíkum samfélögum hefði verið þörf á sterku ríkisvaldi sem gat stjórnað áveitum. Alvaldir konungar ríktu þar með fulltingi skrifræðis en vart væri hægt að tala um yfirstétt sem ríkti í krafti eignar sinnar. En þessi samfélög væru dæmd til að staðna (Marx (1968b): 238-243).
Auðmagnsins aðskiljanlegustu náttúrur
Raunar var Marx aðallega upptekinn af kapítalismanum. Það er ekki furða þótt margir (þar á meðal undirritaður) hafi fengið endurnýjaðan áhuga á Marx eftir alþjóðakreppuna 2008. Borgaralega þenkjandi fræðimenn höfðu sumir sagt að útilokað væri að kreppur myndu eiga sér stað í hinu fullkomna kerfi kapítalismans, svo öflug væru hagstjórnartækin orðin. En kreppan skall samt á. Í ofan á lag varð ljóst að tekjum og eignum væri æ ójafnar skipt víða um lönd, ekki síst vestur í Bandaríkjunum. Þess utan hafa raunlaun á hverja unna klukkustund lítið hækkað á undanförnum áratugum þrát fyrir talsverðan hagvöxt (t.d. Krugman (2007), Piketty (2014).
Staðfestir þetta spádóma Marx? Það er ekki gefið að hans kenningar skýri þessa þróun vel. Eins og aðrir sígildir hagfræðingar greindi Marx á milli notagildis og skiptagildis hluta. Plógur hefur m.a. það notagildi að plægja má með honum jörðina og sá. Í markaðssamfélögum getur plógurinn líka haft skiptagildi, það er hægt að selja hann fyrir peninga eða skipta á honum og einhverju öðru, t.d. hrífu. Marx segir að vinnan og náttúrauðlindir skapi allan auð. Þegar til langs tíma er litið ráðist vöruverð af vinnumagninu sem þarf til að framleiða vöruna. Það þýðir að þótt framboð og eftirspurn virðist ráða vöruverði á tilteknu stuttu tímaskeiði þá er það vinnumagnið sem á endanum ákvarðar það (þessi kenning kallast „vinnugildiskenningin“). Varan vinnuafl sé engin undantekning, verð hennar ráðist af kostnaðnum við að fæða og klæða verkamenn. Þann kostnað greiði atvinnurekandinn sem laun en verkamaðurinn skapi meiri verðmæti en sem launum hans nemi. Því sé hann arðrændur, atvinnurekandinn hirðir gildisaukann (ágóðann af framleiðslunni og/eða þann hluta framleiðslunnar sem ekki fer í að endurframleiða vinnuaflið og halda tækjakosti við).
Hvernig má reikna framlag vinnunar? Það vill Marx gera með því að ákvarða þjóðfélagslega nauðsynlegt vinnumagn, þ.e. þann fjölda vinnstunda sem þarf til að framleiða tiltekna vöru. Þjóðfélagslega nauðsynlegur vinnutími er sá vinnutími sem þarf til að framleiða tiltekna vöru vöru með bestu tækni á tilteknum tíma (Marx (1969): 53). Vandinn er sá að það er ekkert áhlaupaverk að sannreyna þessa kenningu. Hugtök á borð við „meðalhæfni“, „besta tækni“, „tiltekinn tími“ eru býsna teygjanleg. Eða hvenær byrjar og endar tiltekinn tími? Hvernig á að reikna meðalhæfni? Birtist meðalhæfni í meðaltalsframleiðni? Ef svo er, á þá að deila heildarframleiðni með samanlagðri framleiðni allra verkamanna? Eða ber kannski að nota aðra meðaltalsútreikninga, t.d. finna miðlínu (e. median) framleiðni? Ekki bætir úr skák að þekking er mikilvægasta framleiðsluaflið, menn bæta kjör sín með viti fremur en striti. Vægi þekkingar hefur aukist mjög í kapítalísku samfélagi. Skal staðhæfing nú rökstudd með dæmum: Heimspekingar og stærðfræðingar á borð við George Boole og Gottlob Frege lögðu grundvöllinn að stærðfræðilegri rökfræði. Löngu seinna varð þessi rökfræði nauðsynlegt tæki til gerðar tölvuforrita. Um hinn efnahagsleg kraft sem í tölvum býr þarf ekki að fjölyrða. GPS-tækin eru líka mjög hagkvæm en án afstæðiskenningar Einsteins hefðu þau aldrei komist á koppinn. Án eðlisfræðikenninga um öreindir væri ekki hægt að kljúfa öreindakjarna og því ekki byggja kjarnorkuver. Hversu varasöm sem slík ver kunni að vera þá er efnahagslegt mikilvægi þeirra augljóst. En hvernig á að mæla þann mögulega félagslega nauðsynlega vinnutíma sem þurfti til að skapa þessar kenningar? Eða til að uppgötva að þær hefðu tæknilegt og efnahagslegt gildi? Eða þann mögulega félagslega nauðsynlega vinnutíma sem þurfti til að finna upp ljósaperuna? Uppfinningin verður ekkert verri þótt ekki hafi tekið nema örstund að finna hana upp. Eða jafnvel heila æfi, vinnustundirnar skipta litlu máli. Kenningin um þjóðfélagslega nauðsynlegan vinnutíma er því illprófanleg og lítt sannfærandi.
Var Marx svo skyni skroppinn að hann teldi að auðmagn væri ekki framlegðarþáttur? Sá hann ekki að miklu skiptir fyrir efnahagslífið að skynsamlega sé fjárfest? Honum var fullkunnugt um það. En hann taldi að auðmagnið væri eingöngu frosin vinnu verkamanna fyrri tíma. Meinið er að erfitt er að sjá annað en að sumir auðmagnseigendur séu beinlínis framleiðnir í krafti þess að eiga auðmagn. Henry Ford var vissulega varasamur náungi en hann var snjall verkfræðingur og gat framkvæmt hugmyndir sínar vegna þess að hann átti bílaverksmiðjur í tugatali. Áður en lengra er haldið má nefna að kenning Marx um gildisauka og arðrán er ekki algerlega óprófanleg. Af henni leiðir röklega kenning um aukna lífræna samsetningu auðmagnsins og hana má kannski prófa. Inntak þeirrar kenningar er að hlutfall fastaauðmagns aukist á kostnað breytilega auðmagnsins. Fastaauðmagn er það auðmagn sem bundið er í framleiðslutækjum og slíku, launakostnaður er breytilegt auðmagn. Þegar til langs tíma er litið aukist hlutur hins fyrrnefnda á kostnað hins síðarnefnda, launakostnaður verði hlutfallslega minni miðað við verðmæti sem bundinn eru í framleiðslutækjum og öðrum dauðum hlutum. Þegar til lengdar lætur leiði þetta til fallandi gróðahlutfalls en gróðahlutfall má reikna með því að deila summu fasta- og breyti-auðmagns í gildisaukann. Þetta þýðir að það verður æ erfiðara fyrir kapítalistana að græða því vinnan ein skapi arð, ekki fastaauðmagnið. Það leiði m.a. til aukinnar samþjöppunar auðmagns, smáfyrirtæki fari á hausinn unnvörpum vegna þess hve erfitt verður að græða fé. Til að bæta gráu ofan á svart verða æ dýpri efnahagskreppur, kreppur séu offramleiðslukreppur, vegna arðránsins verður stöðugt erfiðara að selja vörur því hinir arðrændu verkamenn hafi ekki ráð á að kaupa þær. Hinir fáu kapítalistar sem eftir eru hamist við að þrýsta laununum niður en slíkt hljóti að kalla á harkaleg viðbrögð verkamanna. Fyrr eða síðar geri verkamenn byltingu. En ekki verður séð að sagan staðfesti spásögn Marx, vinstrisinnaðir fræðimenn á borð við Joan Robinson og Thomas Piketty segja að hlutfallið hafi haldist nokkuð jafnt síðan á dögum Marx (Robinson (1962): 98) (Piketty (2014): 52). Athugið að Marx gerir ráð fyrir að hægt sé að komast fyrir um hinar sönnu uppsprettur auðs, rétt eins og frjálshyggjumenn, „margt er líkt með skyldum“. Hinir síðarnefdnu telja uppsprettuna aðallega vera að finna í einkaframtaki og auðmagni, Marx í vinnu og náttúru. En eins og sjá má er illmögulegt að finna hinar einu sönnu uppsprettur auðs. Þess utan kunna að vera ýmsar aðrar skýringar en marxískar á auknum ójöfnuði, skýringar sem eru jafnvel betri en þær marxísku. Paul Krugman telur að aukin ójöfnuður vestanhafs eigi sér fyrst og fremst pólitískar rætur. Repúblikanar og jafnvel demókratar hafa áratugum saman ýtt undir rassinn á ríkisbubbum og auðfyrirtækjum (Krugman 2007). Er ég að segja að hinar marxísku hagfræðingar séu úreltar? Svarið við því er að það er afar erfitt að afgreiða kenningar sem úreltar (Halldór Benjamín ástundar slíka afgreiðslu sem reyndar er vinsæl iðja meðal jafnt marxista sem frjálshyggjumanna). Jafnvel í náttúruvísindum gerist að kenningar sem taldar voru afsannaðar og úreltar komi aftur í nýjum myndum. Kenningin um að ljósið væri eindafyrirbæri var talin afsönnuð en kom tilbaka að nokkru leyti í nýjum búningi sem Albert Einstein sneið henni. Kannski er hægt að blása nýju lífi í hagfræðikenningar marxismans. Bæta má við að hagfræðikenningar almennt eiga við prófanleikavanda að stríða, það gildir ekki síst um hagfræðikenningar frjálshyggjumanna (sjá Stefán Snævarr (2011): 45-69). „Sælt er sameiginlegt skiptbrot“.
Lokaorð
Svo hljómar viðlagið í texta Ólafs Hauks Símonarsonar um Karl Marx: „Það verður enginn eftir, það er alveg satt, það verður enginn eftir nema Karl Marx“. Auðvitað verða margir aðrir eftir aðrir en Marx, t.a.m. þeir Krugman og Piketty. En margt má læra af Karli Marx, t.d. finnst undirrituðum kenning hans um þátt virkni í þekkingaröflun mjög til fyrirmyndar. Og hversu gallaðar sem kenningar hans um auðmagnið kunni að vera þá kenndi hann okkur að varast vald auðsins. Hvað sem því líður er best að trúa sem fæstu og vera efins um ágæti pólitískra kennikerfa.
Heimildir:
Friedrich Engels (1970): Anti-Dühring. Herr Eugen Dührings omvälving av vetenskapen (þýðandi óþekktur). Stokkhólmur: Arbetarkulturs forlag.
Paul Krugman (2007): The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.
Karl Marx (1968a): «Greinar um Feuerbach», Úrvalsrit. 1 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 325-328.
Karl Marx (1968b): «Drög að gagnrýni á þjóðhagfræði», (þýðandi Hjalti Kristgeirsson).Úrvalsrit. 1 bindi. Reykjavík: Heimskringla, bls. 238-243.
Karl Marx (1969): Das Kapital. Kritik der politischen Ökonomie. Erster Band, í Karl Marx, Friedrich Engels: Werke. Band 23. Berlin: Dietz Verlag.
Karl Marx (1970): Ökonomisch-philosophische Manuskripte. Leipzig: Reclam.
Karl Marx og Friedrich Engels (2008): Kommúnistaávarpið (þýðandi Sverrir Kristjánsson) Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag (upprunalega gefin út 1948).
Thomas Piketty (2014): Capital in the Twenty-First Century (þýðandi Arthur Goldhammer). Cambridge, Mass og London: Belknap.
Joan Robinson (1962): Economic Philosophy. Penguin: Harmondsworth.
Stefán Snævarr 2011: Kredda í kreppu. Frjálshyggjan og móteitrið við henni. Reykjavík: Heimskringla.
Athugasemdir