Ísland, afleitt afland?
Eins og æði margir aðrir Íslendingar sat ég agndofa og horfði á Kastljós í gær.
Aflandsmálin verða æ ískyggilegri, fjöldskylda Dorrietar Moussief er sögð hafa átt aflandsfélag og hlýtur það að hafa áhrif á forsetakosningarnar.
Athyglisvert er hve margir framsóknarmenn eru flæktir í aflandsmál. Framkvæmdastjóri flokksins, Hrólfur Ölvisson, er sagður hafa átt aflands-félag. Einnig er sagt að Landsbankinn hafi stofnað aflands félag fyrir Finn Ingólfsson og fleiri, lánað þeim fé til þess. Féð er svo sagt hafa verið notað til að kaupa hlutabréf í Landsbankanum. Sé þetta rétt verður ekki annað séð en að um innherjaviðskipti sé að ræða.
Ég er lítið fyrir pólitískan kórsöng, var ekki með í útrásarhalelújakórnum, og hef ekki viljað orga með í ónýtaíslands-kórnum.
En eftir uppljóstranir síðustu vikna er freistandi að kalla Ísland „afleitt afland“.
Athugasemdir