HUNDASAMTÖL. SKRIF MÍN OG BÓK ÞRÁINS BERTELSSONAR.
Mér brá í brún þegar ég las bók Þráins Bertelssonar, Hundalíf með Theobald en hún kom út í fyrra.
Bókin er ekki eilítið lík Samræðum við Stjúphundinn, löngum bálki sem birtist í bók minni Bókasafnið árið 2017 (bls. 157-204) og byggði að miklu leyti á bloggfærslum á eyjublogginu 2010-2013.
Hið líka.
Í báðum bókum tala maður og hundur saman um lífið og tilveruna. Báðir textarnir samanstanda af stuttum «sögum» þar sem samtölin eru í fyrirrúmi, sögurnar enda einatt með smá glettni.
Í báðum textum er hundurinn ögn naív og afar krúttlegur en ansi fyndinn og nokkuð útsmoginn.
Í báðum textum snúast samskipti manns og hunds að verulegu leyti um göngutúra.
Báðir textar eru myndskreyttir, mínir með teikningum Þorgríms Kára Snævarr, hans með ljósmyndum af hundinum (í færslunni getur að líta eina af myndum Þorgríms Kára af Stjúphundinum, birtist á blaðsíðu 197 í Bókasafninu).
Í bók Þráins ræða hundur og maður um þá staðhæfingu Sókratesar að hann vissi það eitt að hann ekkert vissi (bls. 60). Hundurinn snýr út úr henni með fyndnum hætti, með sama hætti snýr Stjúphundur minn út úr þeirri staðhæfingu Sókrateser að hægt sé að kenna dyggð.
Svona mælir hundur Þráins, Theobald: „-Ég tek undir með þessum þarna Sókratesi sem sagði: „Það eina sem ég veit er að þú veist ekki neitt“ (Hundalíf með Theobald, 2020, bls. 60).
Í minni bók segir Stjúphundurinn: „Sagði ekki Sókrates að kenna mætti dyggð? Hugrekki er dyggð, það hlýtur að mega kenna þér að verða hugrakkur“ (Bókasafnið, 2017, bls. 191). Sjá menn skyldleikann?
Tökum heilt samtal úr bók minni (Bókasafnið, 2017, bls. 160):
SAMTAL VIÐ STJÚPHUND MINN UM ÞEKKINGU
Stjúphundur: Veistu hvað?
Ég: Nei, ég veit ekki hvað.
Stjúphundur: Ég held ég sé all ógnvekjandi voffi.
Ég; Bíddu nú við, ef þú með „ógnvekjandi voffi“ meinar „vinalegur og krúttlegur hvutti“ þá má kannski taka þessa staðhæfingu alvarlega.
Stjúphundur: Æ, þú tekur mig aldrei alvarlega, á hverjum morgni þegar blaðberinn kemur þá gelti ég eins og vitlaus og það bregst ekki að hann lætur sig hverfa. Hann hlýtur að vera skíthræddur við mig.
Ég: Ég er ansi hræddur um að þú hafir misskilið eitthvað, hann snýr við því hann hefur lokið erindi sínu.
Stjúphundur: Ertu alveg viss, ertu viss um að hann myndi ekki brjótast inn ef ég gelti ekki á hann?
Ég: Ég er alveg viss.
Stjúphundur: En geturðu yfirleitt sannað slíkar staðhæfingar með öruggri vissu?
Ég: Tja strangt tekið ekki.
Stjúphundur: Svo ég gæti haft á réttu að standa?
Ég: Vissulega, en ég er nokkurn veginn viss um að við viljum báðar fara út að ganga.
Stjúphundur. Voff, voff, gerum það endilega!
Og við skelltum okkur út.
Það sem skilur
Vissulega er textarnir líka að ýmsu leyti ólíkir, textar mínar eru, eins og sést að ofan, smáleikrit, textar Þráins yfirleitt ekki, þó er eitt smáleikrit í bókinni „Póstþjónusta í dvergabyggð“ (Hundalíf með Theobald, 2020, bls. 64).
Auk heldur eru samræðustef hans ögn jarðbundnari en mín og hann skrifar meira um raunverulegt líf sitt og hundsins en ég.
Í ofan á lag er náttúrufegurð í fyrirrúmi hjá Þráni, ekki mér. Einnig skal viðurkennt að bók hans er bráðskemmtileg og velskrifuð (mín vonandi líka).
Tekið skal fram að ég er ekki að ásaka hann fyrir eitt eða neitt, vel má vera að við höfum einfaldlega fengið sömu hugmyndina, óháðir hvor öðrum. Hugsa snillingarnir ekki líkt?
En við erum tæpast þeir einu sem sett hafa saman samræður hunds og manns. Mér var nýlega bent á bók John Steinbecks Travels With Charley og las ég hana í vikunni.
Í henni má finna fáein stutt samtöl (2-3) höfundar við hundinn Charley en hann var ferðafélagi Steinbecks í mikilli Ameríkureisu. En samtölin skipta litlu máli fyrir megininntak frásagnarinnar og eru lítt heimspekileg, gagnstætt minni bók og bók Þráins.
Alla vega tel ég ólíklegt að Þráin hafi lesið bók mína enda var hún þöguð í hel.
En hann gæti hafa hraðlesið bloggin á sínum tíma, gleymt þeirra gjörð en eitthvað af inntakinu valdið ómeðvituðum áhrifum.
En þetta eru hreinar getgátur, fyrir þeim hef ég engar sannanir, kannski er þetta helber þvæla.
Lokaorð.
Hvað sem því líður vil ég að það verði fært til bókar að ég birti heimspekilegar hundasamtalssögur all nokkru áður en Þráinn birti sínar.
Og að sumt í bók hans líkist mínum skrifum ansi mikið.
Svo orti Davíð Stefánsson: „Fáir njóta eldanna,
sem fyrstir kveikja þá“.
Athugasemdir