Hegel 250 ára
Heimspekingurinn Georg Wilhelm Friedrich Hegel (1770-1831) var í heiminn borinn á þessum degi fyrir tvö hundruð og fimmtíu árum.
Hann er einn frægasti og umdeildasti heimspekingur allra tíma, aðdáendurnir töldu hann mesta speking sögunnar, andstæðingarnir svindlara og frelsisfjanda.
Ein af ástæðunum var sú að hann skrifaði einatt með all torræðum hætti. Aðdáendurnir töldu það merki um dýpt hans, andstæðingarnir að framsetningin væri óskýr því hugsunin væri það líka.
Ef til vill hafa báðir u nokkuð til síns máls, stundum er torræðnin ávísun á dýpt, stundum óskýra hugsun
En ekki hyggst ég ígrunda þessa kenningu hér heldur benda á að Hegel skrifaði líka texta sem eru alþýðlegir og auðskiljanlegir. Þeir sem vilja kynna sér speki hans gætu byrjað á þeim og fikrað sig áfram í átt að hinum torskildu.
Ögn um hluta af meginkenningum hans.
Lítum snögglega á meginkenningar hans en stiklum þó á stóru, engin ástæða er til að þreyta lesendur með því alflóknasta við kennismíðarnar. Hegel var hughyggjumaður, hann taldi að hvaðeina væri af andanum fætt.
Mannkynssagan væri sagan um það hvernig vægi andans ykist stöðugt, réttara sagt að máttur andans sýndi sig æ betur.
Allt væri breytingum undirorpið en þær væru ekki tilviljunarkenndar heldur lytu lögmálum sem Hegel kenndi við díalektík, þ.e. kenningin um einingu andstæðanna.
Hvarvetna megi sjá andstæður, tesur og anti-tesur sem síðan rynnu saman í synþesu sem samþættaði það helsta úr báðum.
Listasagan og Hegel.
Þetta sést hvað skýrast í kenningum Hegels um sögulega þróun listarinnar en hún sýnir líka hvernig vægi andans eykst (kenningunum má kynnast í fyrirlestrum hans um fagurfræði sem er tiltölulega auðskildir).
Listasagan skiptist í þrjú meginstig, fyrsta gerð listar hafi verið táknræn list, þá hafi sígild list komið og loks sú rómantíska.
Dæmi um táknræna megi finna í list fornegypta. Í þeirri list megi finna togstreitu milli anda og efnis en efnið beri andann nánast yfirliði því mannskepnan hafi enn verið á heldur lágu andlegu stigi.
Listamönnunum hafi ekki tekist að tjá sértæka hugsun vel í listinni og orðið að nota tákn fyrir sértök. Þannig tákni myndir af ljónum sértakið um styrk.
Þetta ofurveldi efnisins komi fram í því að byggingarlist hafi verið helsta listgreinin, byggingarnar þungar og miklar. Byggingar séu einatt byggðar til að fullnægja efnislegum þörfum.
En musteri séu af andlegra tagi en flestar byggingar, smám saman hafi goðastytturnar í musterinu orðið mannlegri, gagnstætt hinum fornu styttum af goðum sem voru hálfir menn, hálfir dýr (dýrin einatt tákn fyrir eitthvað).
Það gerist á sígilda skeiðinu í Grikklandi hinu forna. Grikkir gerðu styttur af goðum sem höfðu mannslíkama. En mannslíkaminn sé andlegasti efnishlutur sem til, við tjáum hugsanir og tilfinningar með skrokkunum.
Grikkir gerðu styttur af fullkomnum mannslíkönum en fullkomnun sé andlegur eiginleiki. Í þeim og annarri grískri list hafi andinn og efnið náð jafnvægi, andstæðurnar samþættust.
En ekkert stendur kyrrt í veröld Hegels, vandinn sé sá að andinn sé óendanleg huglægni, hugurinn sé ekki bundinn efninu og því ekki takmarkaður eins og efnishlutir. Hið óendanlega væri ekki hægt að sýna í listaverki sem jú sé efnishlutur og því takmarkaður.
Gagnstætt grískri goðatrú liti kristnin á Guð sem óendanlegan anda. Það sem Hegel kallar „rómantíska list“ er list kristinnar menningar.
Hin rómantíska list leitist við að tjá huglægni og einlægni, sálarlífið. Andinn hafi unnið sigur á efninu. En öll list þurfi að tjá sig í efnishlutum og að tjá hin óendanlega anda í þeim sé ekki mögulegt.
Listin hafi nefnilega takmarkanir, í hinni rómantísku list upphefjist listin með díalektískum hætti. Andstæðurnar list og heimspeki sameinist að nokkru leyti í nýrri synþesu. Réttara sagt þurfi heimspeki til að leysa þann vanda sem þessi gerð listar lendir, þeim að andinn og efnið séu ekki í jafnvægi í rómantískum listaverkum.
Heimspekin er meginburðarás andans að hyggju Hegels. Hann hefði örugglega botnfílað konseptlíst sem jú er öldungis abstrakt og því þrælandleg.
Heimspekingurinn Arthur Danto (1924-2013) gerði sér mat úr þessu. Í frægri grein og bók, The End of Art, sagði hann að Hegel hefði haft á réttu að standa. Konseptlistin væri öldungis andleg, með henni lyki listinni á vissan hátt, hún yrði að hluta heimspekileg rétt eins og Hegel spáði.
Lokaorð
Drögum saman meginatriðin: Hverfiás listasögunnar, já mannkynssögunnar sé andstæðan milli efnis og anda. Fyrstu tilraunir listamanna til að sætta þessar andstæður misheppnuðust, táknræna listin hafi verið í of miklum mæli á valdi efnisins.
Í vissum skilningi takist grískum listamönnum að sameina andstæðurnar, ná jafnvægi og með því skapa fullkomna list. En þegar dýpra sé skyggnst höfðu andstæður efnis og anda ekki verið sættar, hið óendanlega við andann hafi ekki verið tjáanlegt í efnishlutum þar eð efni er í eðli sínu endanlegt, takmarkað.
Kristin, rómantísk list er andlegri og tjáir hið innra líf. En vandi hennar er sá að andstæðurnar hafa ekki náð sáttum, andinn yfirgnæfir í rómantískri list.
Heimspekin ein getur sætt þessar andstæður enda sé listin að verða æ heimspekilegri.
Höfum ekki fleiri orð um afmælisbarnið en óskum því til hamingju með daginn. Ég væri vís með krota aðeins meira um karlinn í tilefni stórafmælisins.
PS Þessi færsla er að nokkru útdráttur úr því sem ég skrifaði um listspeki Hegels í bók minni Kunstfilosofi (Listspeki) sem norska Fagbokforlaget gaf út árið 2008.
Athugasemdir