Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hannes um Popper. Síðari hluti: Stjórnspekin

Kaflinn batnar mikið þegar Hannes víkur að þeim kenningum sem Popper setti fram í bók sinni The Open Society and its Enemies. Þær kenningar eru stjórnspekilegar og því nálægt sérsviði Hannesar.  

Opna samfélagið og Platon, meintur óvinur þess

Popper hélt því fram að frá örófi alda hafi vinir og óvinir hins opna, frjálsa samfélags barist. Hinir stjórnlyndu fylgismenn lokaða samfélagsins hafi trúað á söguhyggju, hugmyndina um lögbundna framrás sögunnar.

En Hannes ræðir þá kenningu lítið, í umfjöllun sinni um Platongagnrýni Poppers nefnir hann ekki að Popper telur sig sjá söguhyggju í verkum Platons.

Vandinn er sá að Grikkir höfðu enga hugmynd um sögulega framvindu, Popper treður Platoni í kerfi sitt. Hann gaf sér að söguhyggja væri upphaf alls alræðis.

Svo hamast Popper við að gera Platon að kynþáttahatara sem hafi talið að verndararnir í fyrirmyndarríkinu væri æðri kynstofn (Popper 1962a: 140-141, 148-149 og víðar).

En í Ríkinu segir að ef sonur verkamanns hafi gull eða silfur í sálinni þá eigi að hækka hann í tign, gera að verði eða verndara (heimspeking). Öfugt eigi börn verndara og varða að lækka í tign ef þau hafi einungis járn í sálinni (Platon  1991b: 289 (415a-c) og 303 (423 c-d).

Popper er alls ekki fyrsti fræðimaðurinn sem ber alræðishyggju á Platon en sá fyrsti  sem borið hefur söguhyggju og rasisma á hann. 

Til dæmis lét R.H.S. Crossman Platon vakna til lífsins á fjórða tug síðustu aldar í bók sinni Plato Today. Hann lét Platon kynna sér vestræn samfélög, Sovétríki Stalíns og Þýskaland Hitlers. Hið síðastnefnda hugnaðist honum best.

Spurningin er hvaða skoðanir Platon yfirleitt hafði. Hann segir ekkert beinum orðum en gerir Sókrates yfirleitt að mögulegri málpípu sinni, margar af samræðum hans eru án eiginlegrar niðurstöðu.

Sumir telja að hann hafi verið að leika sér að hugmyndum eða jafnvel hæðast að fylgismönnum skyldra hugmynda (samkvæmt Eyjólfi Kjalari 1991: 9-77).

Hver veit, ég er ekki læs á forngrísku og dæmi ekki um málið. En mér finnst marxískur fnykur af kenningunni um baráttu hinna góðu afla opins samfélags við hina illu fylgjendur lokaða samfélagsins.

Í mínum huga er saga hugmyndanna  ein allsherjar óreiða, leiðarhnoða sem fylgir engri átt.

Marx og söguhyggjan

Það er alla vega meira vit í að bera söguhyggju á Karl Marx eins og Popper gerir.  

Það kemur reyndar ekki skýrt fram hjá Hannesi að Popper viðurkennir að Marx hafi alls ekki verið alger nauðhyggjumaður.

En hann heldur því fram að menn geti ekki verið raunverulegir marxistar nema að vera sögulegir nauðhyggjumenn, sem sagt söguhyggjumenn. Söguhyggja sé ávísun á alræði, segir Popper. En er það rétt?

Í  fyrsta lagi má telja furðulegt að Popper gagnrýni John Stuart Mill fyrir söguhyggju en hrósi honum jafnframt fyrir frjálslyndi (t.d. Popper 1957: 71-72). Sem sagt, Popper segir í einni setningu að söguhyggja sem slík sé alræðisvaldur, í hinni setningunni talar hann eins og söguhyggja Mills sé stikkfrí.

    Í öðru lagi er ekki síður undarlegt að Popper skulu  varla nefna söguhyggju frjálshyggjumannsins Herberts Spencers. Spencer taldi að sagan lyti ófrávíkjanlegum lögmálum, frjáls markaður myndi sigra hvað sem tautaði og raulaði.

Hvorki ríki né einstaklingar ættu að styðja þurfamenn, komandi kynslóðir myndu þakka okkur ef við sæjum til þess að þeir dræpust úr hor og fjölguðu sér ekki  (Spencer 1851: 264). Stalín og Hitler hefðu ekki getað orðað þetta betur!

Samt  væri fáránlegt að kenna Spencer við alræðisstefnu þótt öfgafrjálshyggja hans hefði í framkvæmd vel getað leitt til auðdrottnunar eða hrunríkis (e. failed state).

Ekki verður  franski frjálslyndissinninn Condorcet heldur kenndur við alræði en hann  var upphafsmaður sögulegrar nauðhyggju.  Hvað sem tautaði og raulaði myndi frelsið sigra að lokum, sagan lyti ófrávíkjanlegum lögmálum, mun Condorcet hafa sagt  (samkvæmt Quinton 1975: 157).

Í þriðja   lagi er engan veginn gefið að söguhyggjumaðurinn hljóti að telja rétt að fórna mönnum á altari sögulegra lögmála. Hann gæti fullt eins sagt að vegna þess að sögulegri framvindu verður ekki breytt sé engin ástæða til að færa slíkar fórnir.

Þannig hugsaði jafnaðarmaðurinn Karl Kautsky sem mun hafa sagt það  tímaeyðslu að standa fyrir byltingum með tilheyrandi blóðsúthellingum. Sósíalisminn myndi sigra hvað sem tautaði og raulaði (um Kautsky, sjá t.d. Kolakowski 2005: 388-400).

Í fjórða lagi bendir fátt til þess að nasistar hafi trúað á sögulega nauðsyn, gagnstætt því sem Popper hélt. Þeir höfðu yfirleitt ekki heildstætt hugmyndafræðikerfi, t.d. enga ákveðna efnahagsstefnu, heimspeki- eða trúarstefnu, hvað þá kenningu um sögulega nauðsyn.

Burðarásirnir eru hatur á Gyðingum, rasismi,  dýrkun á Hitler, þýsk þjóðremba/heimsvaldastefna, stríðshyggja   og andúð á lýðræði og kommúnisma, allt með frekar ófræðilegum hætti. 

Hatur Hitlers á Gyðingum kemur víða fram í Mein Kampf, þeir hafi aldrei skapað eiginlega menningu og ávallt lifað sníkjulífi á öðrum. Þeir látist vera trúflokkur en séu í reynd sérstakur  kynþáttur  (Hitler 1943: 329-344).

Almennt kynþáttahatur kemur líka fram í skruddunni, finna má drög að fræðilegum rasisma en án tilvísunar til sögulegrar nauðsynjar  (Hitler 1943: 311-315).

Andúðin á marxisma leikur stórt hlutverk, marxisminn ógni  menningu og framtíð mannkyns enda sé hann gyðinglegrar ættar (Hitler 1943: 69 og víðar). Jafnaðarstefna sé sama gyðingalega markinu brennd (Hitler 1943: 43-44 og víðar).

Svo fær lýðræðið eða alla vega þingræðið falleinkunn. Meirihlutaræði telur Hitler mjög af hinu illa  (Hitler 1943: 85-100, 411-414, 661). Gegn lýðræðinu teflir hann  foringjahyggjunni (Hitler 1943: 661-662).

Samt er skrudda Hitlers að miklu leyti ófræðileg, mikið rúm fer í sjálfsævisögu höfundar, allra handa bölv og ragn,   og yfirlit yfir sögu nasistaflokksins.

Engin kenning um sögulega nauðsyn er sjáanleg í þessu andstyggilega riti (ég hef ekki lesið það nærri allt en gúglað ólesnu hlutana, ekki eitt orð um sögulega nauðsyn er að finna í skruddunni). 

Hins vegar gerði Alfred Rosenberg  tilraun til að skapa eins konar nasíska söguskoðun en nóta bene eftir að nasistar höfðu náð völdum og komið á alræðiskipan (Rosenberg 1934).

En Hitler mun hafa haft lítinn áhuga á þessum pælingum Rosenbergs (samkvæmt Quinton 1975: 155).

Eins og Martin Kitchen segir: „Rosenberg‘s unreadble works remained unread“ (Kitchen 1976: 28).

Það er sem sagt til alræðisstefna (nasisminn) sem ekki byggir á söguhyggju og söguhyggja sem ekki er af alræðistagi (Mill).

Ekki verður séð að alræðisstefna hljóti að byggja á söguhyggju, ekki heldur að alræðisstefna sé byggð inn í söguhyggju.

Tekið skal fram að ég er enginn sérstakur aðdáandi marxisma en nenni ekki að rekja gagnrýni mína á hann hér. Henni geta menn kynnst í tveimur greinum eftir mig, Stefán  2011b:  397-422 og Stefán  2013: 39-49.

Vanþróun á Vesturlöndum.  

Víkjum aftur að Hannesi. Hann tekur sigrihrósandi undir þau orð Poppers að efnahagsþróun vestrænna ríkja hafi afsannað spásögn Marx um aukna fátækun verkalýðsins.

Vandinn er sá að þróun síðustu áratuga í Bandaríkjunum og víðar sýnir hið gagnstæða, raunlaun á unna klukkustund standa í stað eða lækka, hinir ríki verða miklu ríkari og samþjöppun auðmagns vex.

Hálfgildings einokunarfyrirtæki ríkja í lykilgreinum hins hnattræna efnahagslífs, nægir að nefna risana í Kísildal. Marx hefði ekið sér af ánægju hefði hann vitað af þessari vanþróun.

En hún gæti auðvitað átt sér aðrar rætur en þær sem Marx nefnir. Popper hefur réttilega bent á að röklega séð geti óendanlegur fjöldi kenninga skýrt sama ferli eða sama ástand. En í reynd komi aðeins fáeinar kenningar til greina.

Paul Krugman skýrir vanþróunina með því að repúblikanar  og sumir demókratar hafi einfaldlega notað pólitísk völd sín til að ýta undir rassinn á auðkýfingum og veikja verkalýðsfélög og réttindi launafólks (t.d. Krugman 2007).

Hugsanlega má samþýða þessa kenningu marxismanum en Krugman gerir ekki ráð fyirr því að orsakanna megi leyti í þróun framleiðsluafla eins og alvöru marxisti hlýtur að gera.

Í ofan á lag getum við ekki útilokað að frjálshyggjuhagfræðingar lumi á einhverri þokkalega  góðri skýringu á þessum ósóma.

Sem yfirlýstur andstæðingur hugmyndafræðikerfi gef ég mér ekki fyrirfram hvaða skýringar séu bestar.

Nálgast ber stjórnmál með ekki ósvipuðum hætti og vísindi, tækifærisstefna er dyggð, upplýst dómgreind skal ráða því hvaða stefna sé best hverju sinni. Lágmarka ber hugmyndafræðiþáttinn í hugmyndum manna um pólitík.

Var Popper frjálshyggjumaður?

Það er engan veginn ljóst að Popper hafi verið frjálshyggjumaður. Hannes viðurkennir reyndar að hann hafi haft sósíaldemókratískar hneigðir er hann reit Open Society and its Enemies.

Þar segir hann að frelsi hins óhefta markaðar geti leitt til þversagna, frelsi  þeirra sem efnahagsmáttinn hafa (e. the economic strong)  til að kúga hina veiku. (Popper 1962b: 124) Hann segir  beinum orðum:

“...the principle of non-intervention of an unrestrained economic system must be given up; if we wish freedom to be safeguarded, then we must demand that the policy of unlimited economic freedom economic freedom be replaced by the planned economic intervention of the state (Popper 1962b: 125).

Skrítinn frjálshyggjumaður atarna. Eða er það furða þótt sumir frjálshyggjumenn af skóla Ayn Rand formæli honum og gefi í skyn að hann sé nánast sósíalisti? (Martinsen  2003: 166-190).

Það er vissulega rétt hjá Hannesi að Popper nálgaðist frjálshyggju með árunum. Samt gagnrýnir Jeremy Shearmur, frjálshyggjumaður og hjálparhella Poppers, hann fyrir að vera of gagnrýninn á hugmyndina um frjálsan markað.

Hann segir um Popper: "I think that he can only be called a liberal if one also notes the strong Kantian and 'republican' tenor of his thought" (Shearmur 2008: 52).

Sem fyrrum aðstoðarmaður Poppers ætti Shearmur að vita hvað hann syngur. 

„Allar vildu meyjarnar eiga hann“, kratar, íhaldsmenn og frjálshyggjumenn hafa vitnað fjálglega í Popper. Enda segir William Gorton  réttilega að finna megi jafnt kratíska sem frjálslynda og íhaldssama þætti í stjórnspeki hans (Gorton án ártals).

Réttast er að kenna Popper við frjálslyndisstefnu, ekki frjálshyggju. Þar er hann í góðum félagsskap með John Stuart Mill og vinstrianarkistum: Fylgismenn frjálslyndis en ekki frjálss markaðar.

Meðal erlendra þjóða þykir sjálfsagt að greina milli frjálshyggju og frjálslyndis. Á ensku er talað annars vegar um liberals (frjálslynda), hins vegar classical liberals og libertarians, frjálshyggjumenn.

Á norsku er talað um liberalere annars vegar, markedsliberale hins vegar.

Eðlilegt er að sami greinarmunur verði gerður á íslensku, annars verður umræðan fátæklegri en ella.

Lokaorð. 

 Tekið skal fram að ég hef enga trúa á söguhyggju en kenning Poppers um hana er meingölluð.  Hún er ekki endilega alræðiskyns og til er alræði sem ekki á  sér rætur í henni.

Hvað sem því líður verður vart séð að Popper hafi verið hreinræktaður frjálshyggjumaður, fremur frjálslyndissinni, jafnvel hægrikrati.

Umfjöllun Hannesar um Marx og Popper er vel frambærileg. En eins og frjálshyggjumönnum er títt þá hefur Hannes leiða hneigð til bókstafstrúar, ekki síst á rit Poppers.

Marxistar og markaðsdýrkendur eiga bókstafstrúnna sameiginlega. Margt er líkt með skyldum.

Heimildir:

 Eyjólfur Kjalar Emilsson 1991: “Inngangur” Platon: Ríkið. Fyrra bindi.  Reykjavík: HÍB, bls.  9-77.

Gorton, William án ártals: „Karl Popper Political Philosophy“. Internet Encyclopedia of Philosophy, https://iep.utm.edu/popp-pol/

Hannes H. Gissurarson 2021: 24 Liberal Conservative Thinkers. Part II. New Directions

https://newdirection.online/2018-publications-pdf/ND-ThinkersVol2-2020f.pdf

Hitler, Adolf  1943: Mein Kampf. München: Zentralverlag der NSDAP. https://archive.org/details/Mein-Kampf2 

Kitchen, Martin 1976: Fascism. London: MacMillan Press. 

Kolakowski, Leszek 2005: Main Currents of Marxism (þýðandi P.S. Falla). New York og London: W.W. Norton & Co.

Krugman, Paul  2007: The Conscience of a Liberal. London og New York: W.W. Norton & Co.

Martinsen, Vegard 2003: Fornuft, egoisme og kapitalisme. Essays om Ayn Rand. Ósló: Kontekst forlag.

Platon 1991a: Ríkið. Fyrra bindi  (þýðandi Eyjólfur Kjalar Emilsson). Reykjavík: HÍB.

Platon 1991b: Ríkið. Síðara bindi  (þýðandi Eyjólfur Kjalar Emilsson). Reykjavík: HÍB.

Popper, Karl  1957: The Poverty of Historicism. London: Routledge & Kegan Paul.

Popper, Karl 1962a:  The Open Society and its Enemies. Volume I: Plato. London: Routledge.

Popper, Karl 1962b:  The Open Society and its Enemies. Volume II: Hegel and Marx. Princeton, New Jersey: Princeton University Press.

Quinton, Anthony 1975: “Karl Popper (b. 1902): Politics without Essences”, í Anthony de Creespigny  og Kenneth Minogue: Contemporary Political Philosophers. London: Methuen, bls. 147-167.

Rosenberg, Alfred 1934: Der Mythus des 20. Jahrhunderts. Eine Wertung der seelisch-geistigen Gestaltenkämpfe unserer Zeit. München: Hoheneichen-Verlag, https://archive.org/details/Rosenberg-Alfred-Der-Mythus-Text  

Shearmur, Jeremy 2008: "Popper's Critique of 'Free-Market Ideology", Policy Vol 24, No 3, bls. 51-54.

Spencer, Herbert 1851: Social Statics: or, The Conditions essential to Happiness specified, and the First of them Developed. London: John Chapman. The Online Library of Liberty, (http://files.libertyfund,org/files/273/Spencer)

Stefán Snævarr 2011b: „Marx í boði banka.  Um Kommúnistaávarpið“, Skírnir, bls. 397-422.

Stefán Snævarr 2013: „Marx og Engels: Þjóðir og alþjóðaremba“, Þjóðmál, nr. 2, 9. árg, 2013, bls. 39-49.

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu