Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Hannes um Popper. Fyrri hluti: Vísindaheimspekin

Hannes Gissurarson hefur sett saman mikið rit 24 Conservative Liberal Thinkers. Einn þessara meintu frjálslyndu íhaldsmanna er Snorri Sturluson. Deila má um hve frjótt það er að nota nútíma hugtök um menn fyrri tíma.

Restin er the usual suspects. Játað skal að ég þekki fæsta þeirra ýkja vel enda stjórnspeki ein minna aukabúgreina, listspekin aðalbúgrein.

En ég tel mig vera allvel lesinn í fræðum Karls Poppers sem ég hef reyndar skrifað ögn um, Hannes skrifar heilan kafla um hann (Hannes 2021: 249-291) .

Í þessari færslu skal gaumgæfa  skrif Hannesar um vísindaspeki Poppers, í síðari færslunni stjórnspekina.

Frægðarsögur um Popper.

Kaflinn um Popper er framan af ansi furðulegur. Hannes segir alls kyns sögur af honum og rekur samtal sitt og Poppers. Ekki er til siðs að gefa mönnum sjálfdæmi, Hannes er einn til vitnis um þetta samtal.

Hann gefur Popper hvað eftir annað sjálfdæmi, til dæmis þegar rakin er  saga Poppers um viðskipti sín við Ludwig Wittgenstein sem átt að hafa ógnað honum með skörungi (Hannes 2021: 253).

Um þennan fund þeirra Wittgensteins hefur verið skrifuð læsileg bók Wittgenstein‘s Poker eftir David Edmunds og John Eidinow. Þar kemur í ljós að viðstöddum bar ekki saman um atburðarrásina, einhverjir  þeirra sögðu að saga Poppers væri röng, Wittgenstein hafi bent á skörunginn og notað sem dæmi.

Enn skal minnt á að minnið er brigðult, kannski urðu til gerviminningar í hugum viðstaddra, t.d. huga goð-Poppers hins ginnhelga.

Afsönnunarhyggja.

Hannes bregður upp vægast sagt einfaldaðri mynd af afsönnunarhyggju Poppers og virðist telja hana guðdómlega opinberun (Hannes 2021: 251).

Hann segir sigrihrósandi að Popper hafi bent á að ekki sé hægt að sanna kenningar svo óyggjandi sé hins vegar sé hægt að afsanna þær.

En  Hannes athugar ekki að til þess að telja kenningu afsannaða verða að vera til staðfestingar (sannanir) á afsönnunartilgátunni.

Hugsum okkur að einhver segi  „kenningin um að allir svanir séu hvítir hefur verið afsönnuð“. Þetta er afsönnunartilgáta sem ekki er hægt að taka alvarlega nema til sönnunargögn sem sýni fram á að til séu svanir sem ekki eru hvítir.

Popper taldi að staðfesting ( e. verification) og tilleiðsla (e. induction) væru ekki röklega mögulegar, hins vegar væri afsönnun röklega möguleg (t.d. Popper 1959: 41). En dæmið um svaninn sýnir að annað hvort eru tilleiðsla og staðfesting röklega mögulegar eða þá skiptir sá möguleiki ekki öllu máli.

Til þess að staðfesta afsönnunartilgátuna verður að beita einhvers konar tilleiðslu. Popper tekst því ekki að hrekja staðfestingu og tilleiðslu úr ríki vísindanna (sjá Stefán 2011a: 205-234 og  Stefán 2017: 81-108).

Skylt er að geta þess að Popper gefur staðfestingu smá sjans. Telja bera kenningu styrkta (e. corroborated) ef hún gengið í gegnum margar eldskírnir afsönnunartilrauna og lifað af (Popper 1959: 265-269). 

En eftir sem áður verður tilleiðsla að koma við sögu þegar ákvarða skal hvort kenning sé styrkt. 

Hannes virðist trúaður á þá kenningu Poppers að það sem skilji vísindalegar kenningar frá óvísindalegum kenningum, þar á meðal gervivísindakenningum, sé að þær séu í hæsta máta hrekjanlegar. Því hrekjanlegri, því betri.

En kenningin um að tölvan mín sé úr grænum osti er í hæsta máta hrekjanleg en öldungis óvísindaleg. Hún er óvísindaleg meðal annars vegna þess að hún er ekki staðfestanleg, það eru ekki til neinar sannanir fyrir henni.

Auk þess bentu vísindaheimspekingar á borð við Imre Lakatos, Willard Van Orman Quine  og Thomas Kuhn á að kenningar væru ávallt hlutar af stærri kenningarheildum og ekki hægt að dæma einstakar kenningar í einangrun frá heildinni.

Lakatos sagði (að ég held með réttu) að rétt væri að vernda kenningar gegn afsönnun á æskuskeiði þeirra. Leyfa ljótum, óhrekjanlegum andarunga  að þróast og verða hrekjanlegur svanur. Auk þess hefðu  vísindaleg kennikerfi  hefðu ávallt óhrekjanlegan kjarna (Lakatos 1970: 91-197).

Thomas Kuhn.

Thomas Kuhn leit á vísindin aðallega sem kerfi breytni og hugmynda  sem hann nefndi „viðtök“ (e. paradigm). Réttmæti og ágæti kenninga væri að miklu leyti afstæð við viðtök, sérhvert viðtak hefði sinn mælikvarða á réttmæti og ágæti.

Viðtökin væru ósammælanleg (e. incommensurable) sem þýðir að þau geta ekki átt sameiginlegan mælikvarða og að ekki sé hægt með góðu móti að þýða fræðamál eins viðtaks á fræðimál annars viðtaks.

Afstæðishyggjan kemur líka  fram þegar Kuhn lýsir því hvað gerist eftir vísindabyltingu þar sem nýtt viðtak hefur tekið völdin:

„…after a revolution scientists are responding to a different world" (Kuhn 1970a: 111).

Þetta er beint og milliliðalaust andstætt kenningum Poppers sem var eindreginn andstæðingur afstæðishyggju. Að hans mati hljóta að vera til altækir mælikvarðar á ágæti kenninga.

En Hannes virðist trúa gömlu bulli úr blaðasnápnum Bryan Magee um að Kuhn hefði bara verið vísindafélagsfræðingur og enginn róttækur munur væri á hugmynd hans og Poppers um vísindi (Hannes lofar ömurlegt kver Magees um Popper).

Hannes vitnar reyndar í  Kuhn þar sem hann gefur í skyn að einhver sannleikskjarni sé í kenningum Poppers (Hannes 2021: 258) (Kuhn 1970b: 247).

En þetta sagði Kuhn í fyrirlestri þar sem hann svaraði gagnrýnir Poppers og var einkar kurteis við hann, reyndi að bera klæði á vopnin í hörðum deilum þeirra (Kuhn 1970b: 231-278).

Mér vitanlega endurtók hann ekki þetta lof um Popper. Í fyrirlestrinum segir hann að afsönnunarhyggja Poppers gæti vel mögulega hæft byltingarskeiðum í vísindum, skeiðum milli viðtaka.

En megininntakið í kenningum Kuhns er að burðarás vísindanna sé viðtakið þar sem stundað sé venjuvísindi (e. normal science) þar sem vísindamenn séu algerlega sammála um meginatriði, hafa kreddutrú á meginhugmyndum viðtaksins og séu lítt  umburðarlyndir.

Kreddutrúin og umburðarleysið  séu  jákvæð því venjuvísindamenn eyði ekki dýrmætum tíma í að deila um meginatriði heldur beini sjónum sínum að smáatriðum í viðtakinu. Þetta nostur valdi því að ágæti og gallar viðtaksins verða æ sýnilegri (til dæmis Kuhn 1970: 23-51).

Hannes virðist trúa goðsögunni um að Kuhn aðallega stundað félagsfræði vísinda, ekki heimspeki hennar (Hannes 2021: 258). En Kuhn  segir beinum orðum

“I do both history and philosophy of science” (Kuhn 1977: 4).

Enda maðurinn óvart prófessor í heimspeki.  

Það er hreinlega rangt að Kuhn hafi bara viljað lýsa vísindum, ekki verið boðandi gagnstætt Popper. Kuhn sagði beinum orðum að lýsingar og boðorð væru oft samofin, þessa visku hafði hann úr Wittgensteinsinnum:

„'Is' and 'ought'  are by no means always  so separated  as they have seemed“(Kuhn 1970a: 207).

Hið sama gildi um lýsingar og gildismat, þetta tvennt sé ekki alltaf vel aðgreinanlegt. Tökum dæmi: Að segja um hníf að hann sé ryðgaður og bitlaus er líka að dæma hann sem lélegan hníf.

Heimfært á Kuhn: Að segja um fræðigrein að hún einkennist af tímaskeiðum þar sem viðtök ríkja og tímaskeiðum þar sem byltingarvísindi eru í fyrirrúmi er bæði að lýsa fræðigreininni og að dæma hana sem  frambærilega vísindagrein.  

Enda er speki Kuhns  mjög wittgensteinsk, viðtök má kalla  „vísindalega málleiki“, samanber kenning Wittgenstein um knippi málleikja sem burðarás tungumálsins. Eðlisfræðin hefur sinn málleik sem skarast við málleikin annarra fræða sem aftur skarast við málleiki hversdagslífsins.

Málleikir þar sem boðorð eru í fyrirrúmi eru öðru vísi en málleikir þar sem lýsingar eru aðalatriðið en engin málleikur sé  öðrum æðri.

Með sama hætti eru vísindaleg viðtök ólík hver öðru en ekkert þeirra sé öðru æðra  (Stefán 2016: 59-86) (Stefán 2017: 109-134). Þessi mynd af vísindunum er gagnólík þeirri mynd sem Popper býr til.

Myndin besta?

Hvaða mynd er best?, „…sér eigi blik af daufri leiðarstjörnu?“ orti Hannes Sigfússon. Kannski er hófleg tækifærisstefna best, stundum er skynsamlegt að gera kenningar vel hrekjanlegar og prófa þær af hörku, stundum að vernda þær gegn afsönnun, stundum að leita sannanna, stundum afsannana.

Stundum marséra í takt eins og venjuvísindamenn Kuhns, stundum stunda frjálsar og opnar rökræður. Upplýst dómgreind ræður.  

Fallveltishyggja (e. fallibilism) er frekar skynsamleg stefna en spyrja má hvort afsönnunarhyggja Poppers sé ekki öfgaútgáfa af henni.

Hugtakið um fallveltishyggju var smíð ameríska heimspekingsins  Charles Sanders Peirce og kynnti hann hugtakið um fallveltishyggju og varði hana þegar árið 1868 (Peirce 1868/1958: 39-72).

Sporgöngumaður hans,  John Dewey, hélt fallveltishyggjunni  mjög á lofti löngu fyrir daga Poppers.

Klapplið Poppers  virðist halda að hann sé upphafsmaður fallveltishyggju. Vissulega   efldi hann hana að mörgu leyti rökum en fór um  leið villur vegar.

Lokaorð.

Popper var merkur brautryðjandi í vísindaheimspeki en kenningar hans eru engan veginn hafnar yfir gagnrýni. Afsönnunarhyggja hans er meingölluð þótt almenn fallveltishyggja sé mestanpart til fyrirmyndar.

En Hannes virðist kokgleypa öllu sem Popper sagði um vísindi, marxistar kokgleyptu öllu sem Marx hafði til málanna að leggja.

Ekki bæta frægðarsögurnar úr skák, þær eru í íslenska sagnastílnum, frásögur koma í stað rökfærslu. 

Við munum sjá að landið rís þegar Hannes beinir sjónum sínum að stjórnspeki Poppers. Þar er hann á heimavelli. 

Heimildir:

Hannes H. Gissurarson 2021: 24 Liberal Conservative Thinkers. Part II. New Directions.

https://newdirection.online/2018-publications-pdf/ND-ThinkersVol2-2020f.pdf

Kuhn, Thomas  1970a: The Structure of Scientific Revolutions. 2nd Edition. Chicago: Chicago University Press.

Kuhn, Thomas 1970b: „Reflections on my Critics“ í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the Growth of Knowledge. Cambridge: Cambrdige University Press, bls. 231-278.

Kuhn, Thomas 1977:  The Essential Tension. Chicago: Chicago University Press.

Lakatos, Imre 1970: “Falsification and the Methodology of Scientific Research Programs”, í Lakatos, Imre og Musgrave, Alan (ritstjórar): Criticism and the growth of Knowledge. Cambridge: Cambridge University Press, bls. 91-197. 

Peirce, Charles Sanders 1868/1958: “Some Consequences of the Four Incapacities”, Selected Writings. New York: Dover Publications, bls. 39-72.

Popper, Karl 1959: The Logic of Scientific Discovery. New York: Harper Torchbooks.

Stefán Snævarr 2011a: ”Aðferð og afsönnun. Popper og vísindin”, Ritið, nr. 3, bls. 205-234.

Stefán Snævarr 2016:  „Viðtök og vísindi. Um Thomas Kuhn“,  Ritið, nr. 3, bls. 59-86.

Stefán Snævarr 2017:  Vitenskapsfilosofi for humaniora. En kritisk innføring. Oslo: Cappelen-Damm.

 

  

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu