Þessi færsla er meira en ársgömul.

Enskumennska

"Enskumennska" er nýyrði mitt um dýrkun á ensku eða barnalega sannfæringu um að enskuvæðing sé allra meina bót.

Ég mun fyrst ræða græðgisrök henni tengd, svo víkja að fáránskröfum um að íslenskan eigi ávallt að víkja í umferð samfélagsins. Þá mun ég kynna tillögur til úrbóta.

Græðgisrök og enskumennska

Enskumennsku-mennin er vön að rökstyðja mál sitt með græðgisrökum, t.d. þeim að íslenska sé svo dýr í rekstri að henni beri að lóga og taka upp goðtunguna miklu, ensku, enda sé Mammon mæltur á hana eina.

Ég hrakti þessa vitleysu fyrir allmörgum árum, benti á að útreikningar um meintan kostnað af móðurmáli voru svifu í lausu lofti. Málskiptin yrðu firnadýr og ekki gefið að hægt sé að reikna kostnað eða gróða af tungumálum, fjarri því.

Þrátt fyrir þetta endurtóku enskusnobbhænsin sitt mantra „það kostar svo mikið að tala íslensku, við kunnum öll ensku“.

Sem sagt, þetta er  slagorð án þekkingar-inntaks þar eð ekki er hægt að mæla þennan meinta kostnað, álíka upplýsandi og  „íslenska bö, enska húrra“.

Í ofan á lag eru málfeigðarsinnar á því sem heimspekingar kalla „braut hinna hálu raka“  (e. slippery slope arguments).

Eftir fáein rökleg skref (að viðbættum fáeinum forsendum) mætti draga þá ályktun af málfeigðarsnakkinu að það kosti of mikið að hlúa að þroskaheftum og langlegusjúklingum.

Borgar sig ekki bara að skjóta þá?

Enskusnobbið íslenska  á sér rætur i íslenskri tískugræðgi, bjánalegri löngun til að fá nýjasta nýtt strax í gær og vanvirða allar hefðir. Í hugum tísku-hyskisins  er enskan burðarás tískunnar, hið sanna, raunverulega tungumál, hið „ástkæra, ylhýra“.

Áður en lengra er haldið: Það kostar einhver býsn að tolla í tískunni, hve margar fjölskyldur hafa farið á hausinn vegna tískugræðgi?

Hve mörg börn eru vanrækt vegna þess að foreldrarnir eru alltaf að vinna til eiga fyrir nýjasta tískuskraninu?

Alla vega gengu sögur um það fjöllunum hærra fyrir um fimmtán árum að einhverjir business-tossar hygðust grafa smám saman undan íslenskunni, gera þjóðina hægt og sígandi enskugjammandi.

En þetta voru óstaðfestar fregnir og samsæriskenningar, settar fram án sannana. Það er ágæt vinnuregla að trúa ekki samsæriskenningum nema mjög öflugar sannanir séu fyrir henni, svo var ekki í þessu tilviki.  

Hvað sem því líður þá enskuvæðingar fnykur af Viðskipta(ó)ráði en talsmenn þess hafa a.m.k. einu hvatt sem flest fyrirtæki til að gera ensku að vinnumáli (það án raka, óráðið rökstyður aldrei tillögur sínar).

Einnig hefur ráðið sett á laggirnar enskumælandi háskóla, þann sem kennir sig við Reykjavík.

Menn þurfa ekki að beita þjóðrembu-„rökum“ fyrir varðveislu íslenskunnar, öðru nær (þess vegna fagna ég  því að Fjallkonan tali með erlendum hreim).

Oft hefur verið bent á að sérhvert tungumál sé eigin heimur, í hvert sinn sem mál hverfi minnki þekking manna. Það er öllu mannkyni í hag að íslenskan lifi.

Þess utan eru mjög snöggar samfélagsbreytingar fólki óhollt, þær skapa rótleysi og firringu.

Lágmarksvirðing fyrir hefðum dregur úr slíkri óhollustu, íslenskan er hefðgróið fyrirbæri, henni tengjast merk bókmenntahefð og fleira.  

Það er hverju samfélagi nauðsyn að hafa svið sem er „heilagt“, ósnertanlegt af kaupskap og valdboði. Þar eð Íslendingar eru ekki ýkja trúaðir er best að móðurmálið sé þetta svið. Alla vega var það löngum dýrkað, kannski ögn of mikið.

Þess utan má beita hagkvæmnisrökum, dýrt yrði að leggja íslenskuna niður. Til dæmis yrði að skófla hellingi af bókum á öskuhauga, láta þýða einhver býsn af skjölum, læknaskýrslum og fleiru á ensku.

Einnig yrði að endurmennta fjölda íslenskukennarar, jafnvel rithöfunda. Hver ætlar að borga fyrir það? Væri kannski hagkvæmast að skjóta þá?

Við má bæta að með tölvutækni nútímans er enskukunnátta ekki eins mikilvæg og hún var fyrir fáeinum árum. Nú eru til öflug þýðingarforrit, hægt er að tala á íslensku á alþjóðafundi, forritin þýða jafnharðan á ensku eða hvaða mál sem vera skuli.

Í ofan á lag er sagt að hin alþjóðlega viðskipta-enska sé í reynd sérstakt tungumál, "globish" (glópamál?), í mörgu leyti all ólíkt venjulegri ensku.

Frakkinn, senm skóp hugtakið, segir að í alþjóðlegu stórfyrirtæki hafi menn notað þetta mál. Þegar bandarískir viðskiptamenn komu og héldu fyrirlestur á ensku skildu starfsmenn lítð. 

Líklega er glópamál fremur notað í íslenska ferðamanngeiranum en eiginleg enska.

Því getur kunnátta í glópamáli verið efnahagslegar hagkvæmari en kunnáttu í eiginlegri ensku. 

Enskan og hagmeinin.

Er enska allra hagmeina bót? Sé svo má spyrja hvers vegna fyrirtæki, sem höfðu ensku að vinnumáli, áttu drjúgan þátt í að koma Íslandi á hausinn árið 2008.

Einnig hvers vegna enskumælandi lönd á borð Jamaíku og ýmis lönd í Afríku eru þrælfátæk.

Eða hvers vegna raunlaun á unna klukkustund í hinum enskumælandi Bandaríkjum hafa staðið í stað áratugum saman meðan þau hafa hækkað víða í löndum þar sem enska er ekki töluð.

Kannski Mammon sé fjöltyngdur, tali ekki bara ensku. 

Þess utan virðist hægja talsvert á hnattvæðingunni og þar með líklega enskuvæðingu.

Spennan milli Vesturlanda og Rússland, auk þeirrar milli Kína og Bandaríkjanna gæti leitt til þess að hnattvæðingin hætti (nánar um veilur hnattvæðingarinnar  í síðari færslu).

Í ofan á lag er ekki hægt að útiloka að hnattvæðingin (haldi hún áfram) leiði til þess að Kína  verði auðugasta ríki heims.

Kínverjar  munu aldrei sætta sig við ensku sem alþjóðamál, hver veit nema kínverskan taki yfir sem heimsmál, þá yrði Mammon eitthvað svo kínverskur í framburði sínum.

Kannski þá skrifi einhver ábúðarmikill business-tossi grein þar sem hann hvetur Íslendinga að  taka upp kínversku.

Á íslenskan stöðugt að víkja?

Mér sýnist að á götum Reykjavíkur  sé bara skrifað „Bus only“, ekki „Bara strætisvagnar“. Halda borgaryfirvöld að enska sé aðalmálið á Íslandi? Er kannski gjammað á ensku á borgarráðsfundum?

Síðast þegar fréttist var heimasíða Opna skákmótsins í Reykjavík eingöngu á ensku. Gagnstætt því er það alsiða meðal siðaðra þjóða að hafa slíkar mótaheimasíður bæði á ensku og móðurmáli þjóðarinnar.

Í stað þess er Opna mótið opið fyrir enskumennsku af lágkúrulegasta tagi.

Fyrir nokkrum árum var útlendingur ráðinn til kennslu við eina deild Háskóla Íslands, um leið var farið að nota ensku eina á fundum deildarinnar (einn kennaranna, Hannes Gissurarson, neitaði fyrir vikið að sitja fundina og er það honum til sóma).

En hér í Háskólanum í Innlöndum norsku er talsverður hópur útlendinga við kennslu, samt er norska notuð á deildarfundum og kvartar enginn yfir því.

Hin undarlega sannfæring margra Íslendinga um að útlendingar, búsettir á Íslandi, þurfi alls ekkert að læra íslensku kemur óbeint fram boðskap ökukennara hér á Stundinni.

Hann býsnast yfir því að ökukennslu-gögn sé eingöngu á íslensku, þetta sé rasismi (!!!!!!!)  gagnvart útlendingum sem taka bílpróf (aðförin að íslenskunni tekur á sig ýmsar myndir, nú í mynd pólitískrar rétthugsunar!).

En sá sem tekur bílpróf á Íslandi hlýtur að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og því eðlilegt að hann læri íslensku.

Vandamálið kann að vera að mörgum Íslendingum þykir sjálfsagt að innflytjendur læri ekki íslensku, því búi þeir árum saman á landinu án almennilegar íslenskukunnáttu og ráði því ekki við bílprófin.

Það kann hins vegar að vera rétt hjá ökukennaranum að kennslugögnin á íslensku séu á óþarflega uppskrúfuðu máli, einnig að rétt sé að útlendingar með takmarkaða íslenskuþekkingu fái að hafa túlk með sér í bóklegu bílprófi.

En ég er orðinn hundleiður á eilífum kröfum um að íslenskan eigi alls staðar að víkja. Útlendingur, sem vill taka bílpróf á Íslandi, sýnir með því vilja til að búa í þessu landi.

Eðlilegt er að gera kröfu til þess að hann geti bjargað sér á íslensku, nógu vel til að geta tekið bílpróf á þvísa tungumáli.

Kannski með aðstoð túlks, kannski ber að endurskrifa kennslugögnin.

Ökukennaranum gengur sjálfsagt gott eitt til en hann hefði átt að hugsa mál sitt betur-mál sitt.

Enskuvæðingarfaraldur.

En honum til varnar skal sagt að hann setur ekki fram neinar kröfur um enskuvæðingu.

Nýlegt dæmi um slíkt er að Fríhöfnin hefur nú al-enskuvætt sig, þrátt fyrir að 90% viðskiptavina séu íslenskir.

Þetta er dæmi um heimskulega enskuvæðingu og líklega skort á viðskiptaviti, barnalega sannfæringu um að enskan sé ávallt góður gróðalykill.    

Hagþróun síðustu ára hefur gert að verkum að fjöldinn allur af útlendingum starfar í þjónustugeiranum. Nú er svo komið að vart er hægt að fá afgreiðslu á veitingarhúsi eða í búð nema að nota ensku.

Ég tel ekkert gegn því að sett verði lög sem skylda íslenska atvinnurekendur til að sjá til þess að útlendingar, sem vinna meir en sex mánuði ársins á Íslandi, læri alla vega hrafl í íslensku (ég hef nokkrum sinnum gengið út úr búðum og veitingarstöðum þar sem afgreiða átti mig á ensku).

Nóg til að þeir geti afgreitt viðskiptavini í  kjörbúðum á því máli. Kennslu þessa ætti að borga með skattfé enda varðar hún þjóðareinkenni.

(Svipaða tillögu má finna hjá Tryggva Pétri Brynjarssyni)

Einnig mætti setja lög þar sem kveðið er á um lágmarksnotkun íslensku á sem flestum sviðum.

Þess utan ber ekki að veita útlendingum ríkisborgararétt nema þeir sýni lágmarkskunnáttu í íslenski. Í Bandaríkjunum verða menn að standast ákveðið próf til að mega verða ríkisborgarar. Á Íslandi ætti að hafa málkunnáttupróf. 

Sporna verður gegn þeirri óhugnanlegu áráttu ungmenna að gagga og gala á ensku við hvert annað og stórefla íslenskukennslu í skólum.

Í ofan á lag verður að efla mjög kennslu í íslensku fyrir útlendinga.

Þess utan ættu málhollir menn að sniðganga fyrirtæki enskumennskunnar, t.d. Fríhöfnina, og fyrirtæki í eigu manna sem boðað hafa málfeigðarstefnu, jafnvel fyrirtæki tengd óráði viðskiptanna.

Einnig ættu menn að sniðganga búðir og veitingastaði þar sem ekki er hægt að versla á íslensku.

Málhollir skákunnendur ættu að sniðganga Opna Reykjavíkurmótið.

Vort forna og fagra móðurmál er í bráðri hættu, málhollt fólk verður að sýna manndóm og berjast gegn hinni fyrirlitlegu enskumennsku.

P.S. Ég falla öllu ítarlegar um margt sem hér í rætt í grein minni „Úlfahjörð vinda“ sem birtist í greinasafni mínu Ástarspekt. Greinar um heimspeki á blaðsíðu 301-321.

Þar tek ég m.a. á beinið tillögu Benedikts Jóhannessonar um  að farga íslenskunni, taka upp Mammons-enskuna í staðinn. Hann rekur ýmis fyrirtæki. 

P.S. Ég er blessunarlega ekki einn á báti, ég á mér sálufélaga á borð við áðurnefndan Tryggva Pétur, Björn Jón Bragason og Eirík Rögnvaldsson.

P.S. En ekki er maður nokkur með upphafsstafina H.J. sálufélagi, sá sagði á feisbók að tími væri kominn til að gera út af við íslensku og kom  með græðgisáætlun fyrir því. Rök hans voru bara barnaleg græðgisrök. Rekur hann fyrirtæki?

Athugasemdir (10)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
 • Gerdur Ragnarsdottir skrifaði
  Allgjörlega sammála og sama vitleysan trollríður hér í Svíþjóð líka.
  0
 • SSS
  Sigurjón Smári Sverrisson skrifaði
  Mikið er ég sammála þér Stefán.
  Þó svo ég tali og les enskuna reiprennandi.
  Þá er mér mein illa við þessa innleiðingu enskunar í okkar ylhýra móðurmál.
  0
  • SVS
   Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
   Takk, gakktu fyrir með góðu fordæmdi, sniðgakktu mállandráðafyrirtæki og þrýstu á stjórnmálamenn. Katrín á að heita íslenskufræðingur en sýnir þessum málum lítinn áhuga.
   0
 • Sigurður Þór Bjarnason skrifaði
  Nokkrir nemendur í Verzlunarskólanum, vildu gera ensku að þjóðtungu vorri, á fyrri hluta 8. áratugar 20 aldar
  0
 • Björn Stefánsson skrifaði
  Hvenær og hvar kom tillaga Viðskiptaráðs fram?
  0
  • SVS
   Stefán Valdemar Snævarr skrifaði
   Hvaða tillaga? Bogi Pállsson, þáverandi forstjóri, ráðsins mælti með enskuvæðingu fyrirtækja. Ráðið sem slíkt hefur mér vitanlega aldrei sett fram tillögur um hvaða mál eigi að nota á Fróni.
   1
 • Jóhanna Harðardóttir skrifaði
  Frábær pistill
  1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni