Dylan 75 ára!
Á morgun verður kappinn sjötíuogfimm ára, lætur ekki deigan síga,
nýbúinn að gefa út plötu.
Ég hef verið ansi iðinn við að skrifa um hann tímans rás, hef skrifað afmælispistla um hann alla stórafmælisdagana hans frá fimmtugsafmælinu til sjötugsafmælisins. Og bæti við enn einum pistlinum hér.
Dylan og Rorty
Reyndar birtist fræðileg grein eftir mig um Dylan í bandaríska tímaritinu Journal of Aesthetic Education árið 2014. Þar bar ég Dylan saman við bandaríska heimspekinginn Richard Rorty (1931-2007) sem kenna má við pragmatisma og póstmódernisma. Niðurstaða mín var sú að þeir ættu ýmislegt sameiginlegt.
Rorty hélt því fram að við gætum endurskapað sjálf okkar með því að finna upp nýjan orðaforða (í víðri merkingu: táknforða). Engu líkara er en að Dylan hafi tekið hann á orðinu. Hann hefur stöðugt skipt um ham, frá mótmælasöngvara með meiningar yfir í dularfulla skáldrokkarann, umhyggjusama heimilisföðurinn, hákristilega halelújakarlinn, dygga Gyðinginn, o.s.frv.
Eins og títt er um heimspekinga skapaði Rorty sinn eigin orðaforða: Frjálslyndur er sá maður sem hefur andstyggð á grimmd, frjálslyndur háðfugl (e. liberal ironist) veit að ekki er hægt að sanna að rétt sé að draga úr grimmd. Háðfuglinn veit að ekki er hægt að sanna pólitísk hugmyndafræðikerfi, hann veit að hann er hluti af tilteknum menningarheimi og samsamar sig honum.
Dylan hefur verið efins um ágæti stjórnmála, í kvæðabálknum ‘Some Other Kinds of Songs’ segir hann “there are no politics”. Hann hefur yfirleitt forðast hátimbruð pólitísk hugmyndafræðikerfi og segir í öðrum kvæðabálki 11 Outlined Epitaphs. “There is no right wing or left wing … there is only upwing an’ downwing”.
Um leið berst hann gegn grimmd, í Masters of War syngur hann af mikilli innlifun um vonskuverk stríðsóðra leiðtoga og stríðsgróðamanna. Hann hefur líka andæft rasískri grimmd, t.d. í Blowin’ in the Wind.
Tónlist hans hefur verið hljóðspor míns lífs, textarnir orð-sporið. Gott er að þekkja Dylan af orðspori hans.
Athugasemdir